Vörn og orsök krabbameins – 1. grein


Grein sú, sem hér fer á eftir og er hin fyrsta í greinaflokki um krabbameinið, lýsir útbreiðslu þess meðal ýmissa þjóða og aukningu þess síðustu áratugina. Af henni verður ljóst, að krabbameinið er menningarsjúkdómur, þekkist varla eða ekki meðal frumstæðra þjóða, en fylgir dyggilega í kjölfar menningarinnar og eykst jafnt og þétt með vaxandi menningarháttum.

Í næstu grein verður sýnt fram á, að krabbameinið stendur í nánu sambandi við mataræði manna og lifnaðarhætti, rætt um smitnæmi, arfgengi o.fl., og loks skýrt frá því, hvernig auðvelt er að framleiða krabbamein í tilraunadýrum, bæði útvortis og innvortis. Má telja þær tilraunir lykilinn að gátu allra krabbameinssjúkdóma.

Í þriðju greininni verða raktar orsakir nokkurra útvortis og innvortis krabbameina og þáttur ýmissa eiturefna í myndun þeirra, svo sem tóbaks, áfengis, lyfja o.fl., ennfremur heitra drykkja.

Í fjórðu greininni, sem væntanlega verður sú síðasta í greinaflokki þessum, verður skýrt frá orsökum innvortis krabbameins og brjóstakrabba. Þá verður rætt um áhrif næringarinnar og lifnaðarháttanna, ýmsar lækningaaðferðir og árangur þeirra, náttúrlegar lækningaaðferðir og loks varnir gegn myndun krabbameina.

Heimildir höfundar eru aðallega bækur og ritgerðir eftir erlenda fræðimenn, þeirra á meðal marga heimskunna lækna og vísindamenn. Og eins og lesandinn mun fljótt sannfærast um, er hér ekki verið að bera á borð neinar órökstuddar fullyrðingar út í loftið eða haldlausa hugaróra. Hér eru á ferðinni blákaldar, óvefengjanlegar staðreyndir, sem á óskiljanlegan hátt virðast hafa farið framhjá flestum læknum, og augljósar ályktanir, sem rökrétt hugsun getur ekki komizt hjá að draga út af þessum staðreyndum.

I. Útbreiðsla krabbameins — menningarsjúkdómur

Aukning krabbameins

Árið 1944, en það er síðasta árið, er skýrslur ná yfir, varð krabbamein 178 manns að bana hér á landi, en manndauðinn alls var 1218, og hefir því 7. hver maður dáið úr krabbameini það ár.

Krabbameinið hefir verið að aukast jafnt og þétt síðustu áratugina, eins og sést á eftirfarandi töflu, sem sýnir, hve margir hafa dáið úr þessum sjúkdómi, af hverjum 10 þús. íbúa, frá 1911-1944. — Eru tölurnar úr manntalsskýrslum Hagstofunnar og Heilbrigðisskýrslunum.

1911-15 – 10.0
1916-20 – 10.8
1921-25 – 11.2
1926-30 – 12.7
1931-35 – 12.7
1936-40 – 13.6
1941-44 – 15.0

Aukningin er nokkurnveginn stöðug og jöfn og nemur hvorki meira né minna en 50% á þessum eina aldarþriðjungi. Þessi aukning er ekki einsdæmi hér á landi, heldur hafa flest eða öll menningarlönd sömu sögu að segja.

 

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd, 1. tbl. 1949, bls. 9-15

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi