Villandi skrif um föstur

Í læknaritum eða kennslubókum í læknisfræði er lítið minnzt á föstur sem læknisráð. Þó hefir þeim verið beitt af lærðum læknum og í sjúkrahúsum til lækninga, aðallega við sjúkdómum í meltingarfærum.

Á síðari áratugum hefir þessi lækningaaðferð náð vaxandi útbreiðslu víða um lönd, og eru föstur nú notaðar í fjölda sjúkrahúsa og hæla, vestanhafs og austan, ekki aðeins til megrunar og í meltingarsjúkdómum, heldur og í ótal sjúkdómum öðrum. Að sjálfsögðu má ekki láta alla sjúklinga fasta, og verða læknar, sem beita þessari aðferð, að hafa aflað sér þekkingar og reynslu á henni.

Með föstu er hér átt við það, að sjúklingurinn neytir engrar fastrar fæðu né mjólkur, heldur aðeins vatns eða grænmetis- og ávaxtadrykkja. Sumir tala um ýmsar takmarkanir í mataræði sem föstur, svo sem það að neyta ekki kjöts vissa daga samkvæmt fyrirmælum í katólskum sið, borða aðeins ávexti eða einvörðungu mjólk o.s.frv. En þá mætti eins vel kalla þessu nafni allar mataræðisreglur, sem sjúklingar fá frá læknum og banna neyzlu tiltekinna fæðutegunda. Fullkomin fasta er í því fólgin að neyta hvorki matar né drykkjar. Án vatns getur enginn maður og aðeins fá dýr lifað lengur en fáa daga, þannig að slíkar föstur eru ekki notaðar í lækningaskyni. Sumir föstulæknar láta sjúklingana neyta vatns, aðrir vatns og seyðis eða soðs af grænmeti og ýmsum drykkjarjurtum eða hrásafa, sem pressaður er úr aldinum eða grænmeti. Í slíkum drykkjum er meira og minna af fjörefnum og steinefnum og lítið eitt af kolvetnum og öðrum næringarefnum. En mestan hlutann af orku til daglegrar notkunar þarf líkaminn að sækja í eigin forðabúr eða vefi.

Rétt er í þessu sambandi að vekja athygli á því, að greina verður á milli hugtakanna fasta og svelta. Í sveltu er matarskortur á misháu stigi, jafnvel algert matarleysi. En þá er um að ræða þvingun vegna ytri aðstæðna, nægur matur ekki tiltækur. Slíkum sveltum eru samfara áhyggjur og ótti, sem geta valdið meira heilsutjóni og óþægindum en matarskorturinn út af fyrir sig. Ennfremur er þá oft skortur ákveðinna næringarefna, svo sem fjörefna, sem veldur vissum sjúkdómseinkennum, en þeirra verður sjaldan vart í lækningaföstum, jafnvel þótt einskis sé neytt nema vatns. Hungurtilfinning fylgir einnig sveltu, en í föstum hverfur hún yfirleitt eftir tvo til þrjá daga og gerir oft alls ekki vart við sig. Menn gangast sjálfviljugir undir föstu, og það er allt að því nauðsynlegt skilyrði fyrir árangri, því að áhyggjur og ótti við föstuna trufla andlegt og líkamlegt ástand sjúklingsins.

Það er alkunna, að veik dýr snerta oft ekki mat né drykk dögum saman. Margir sjúklingar missa matarlyst með öllu, bæði börn og fullorðnir, t.d. í bráðri hálsbólgu með háum hita, og vilja þá ekkert nema blátt vatn eða annan svaladrykk. Föstur virðast þannig vera fangaráð náttúrunnar til að vinna bug á ýmsum sjúkdómum. Því miður er þessum ábendingum ekki sinnt sem skyldi, og margir virðast trúa því statt og stöðugt, að styrkjandi fæða sé öllum sjúklingum nauðsynleg og að mönnum sé jafnvel hætta búin af nokkurra daga föstu. Um þessa hluti hefir margt verið rætt og ritað af lítilli þekkingu, og fer hér á eftir sýnishorn af slíkum skrifum úr enska ritinu Lets Live, en höfundur greinarinnar er enskur líffræðingur, E.L. David að nafni.

Væri eg að því spurður,segir höfundur, hvort alltaf ætti að bjóða mat alvarlega veikum manni, sem hefði misst matarlystina, mundi ég hiklaust svara játandi. Ég mundi gefa honum að borða til þess að hann léttist ekki og birgðir líkamans af köfnunarefni minnki ekki. Eina undantekningin frá þessari reglu er taugaveiki, því að slíkum sjúklingum er lífsnauðsyn að fasta.

Við þetta er það að athuga, að meðal þjóða, sem hafa nóg að bíta og brenna, eru flestir það vel nærðir, að það kemur þeim engan veginn að sök, nema síður sé, þótt þeir léttist um fáein pund, og af köfnunarefnisskorti stafar þeim hreint engin hætta, það er einnig hreinn misskilningur og styðst ekki við neinar vísindalegar rannsóknir né reynslu.

Menn ættu að gæta hófs í mat og drykk alla ævi. Fari menn við og við yfir mörkin, nægir nokkurra daga fasta til að ná jafnvægi á ný. Þetta er laukrétt. En samkvæmt þessari reglu þyrftu flestir að vera fastandi við og við, því að yfirleitt borðar fólk að staðaldri of mikið.

Á árunum milli 1915 og 1921 og 1940-1948 bjuggu Þjóðverjar við hálfgert hungur, sem kalla mætti föstu. Fita, eggjahvítuefni, fjörefni og fersk aldin voru af skornum skammti, en andlegt og líkamlegt ástand þjóðarinnar batnaði ekki. Að vísu hurfu ofeldissjúkdómar eins og sykursýki, en aðrir alvarlegir sjúkdómar gengu yfir þjóðina, lömuðu mótstöðuafl líkamans og ollu bilunum á taugakerfi fólksins.

Höfundur getur þess ekki, hverskonar sjúkdómar það voru, sem þjáðu Þjóðverja á þessum árum. Taugasjúkdómar geta átt sér margar orsakir aðrar en næringarskort. Það er rétt, að eftir síðari heimsstyrjöldina var um skeið ströng matarskömmtun og naumt skammtað. En samkvæmt framansögðu á slík takmörkun ekkert skylt við föstu. Í annan stað þarf slíkri skömmtun ekki að fylgja áberandi skortur fjörefna eða annarra nauðsynlegra byggingarefna fyrir líkamann. Og loks má vekja athygli á því, að afrek þau, sem þýzka þjóðin leysti af hendi á árunum eftir stríðið til viðreisnar atvinnulífinu, benda hreint ekki til þess, að hún hafi verið illa farin af næringarskorti. Til þessarar uppbyggingar hafa Þjóðverjar orðið að leggja mjög hart að sér, líkamlega og andlega.

“Því er haldið fram, að lækkun blóðþrýstings í föstu hjá sjúklingum með háan blóðþrýsting geti haldizt í hálft ár, en svo hækki hann aftur. Þessi árangur er því lítils virði.
Varla mun nokkur föstulæknir halda því fram, að hægt sé að lækna langvinnan háþrýsting til fulls með einni föstu, þar þurfi að koma til varanleg breyting á lifnaðarháttum, ef von á að vera um bata.

“Heilbrigðu fólki er óeðlilegt að fasta lengi, og þá er rangt að gera það. Heilbrigð dýr fasta aldrei, það gera aðeins veik dýr. Hví skyldi heilbrigt fólk fasta vikum saman? Föstuunnendur segja: Til þess að losa líkamann við eiturefni, sem myndast við efnaskiptin. En heilbrigt fólk safnar engum slíkum eiturefnum.

Hér er höfundur að berjast við vindmyllur, því að föstulæknar ráðleggja heilbrigðu fólki alls ekki að fasta. Hitt er svo annað mál, að meðal nútíma þjóða finnst varla nokkur maður fullkomlega heilbrigður, þannig að sennilega mundu flestir hafa gott af föstum endrum og eins.

Löng fasta er ónáttúrleg, eins og eg hefi þegar tekið fram, hvort sem menn eru heilbrigðir eða sjúkir, vegna þess að í föstu stöðvast starfsemi þarmanna, og þarf þá að grípa til stólpípu til að tæma þá.

Þetta er alveg rétt, að í föstum þarf að beita stólpípum eða ristilskolunum. En um það er ekki nema gott eitt að segja, sé rétt að farið, og sízt vanþörf á slíkum hreingerningum, eins og sjá má af því, að við þessar skolanir er að koma út gamall saur dögum og jafnvel vikum saman, meira að segja hjá fólki, sem telur sig hafa eðlilega meltingu og góðar hægðir.

“Í föstum eyðir líkaminn fyrst fituvef sínum, til þess að afla brennsluefnis til daglegra þarfa, þá vöðvum, lifur, milti, nýrum og að lokum gengur hann á heila og kynkirtla.

Allt er þetta rétt. En svo vísdómslega hefir náttúran hagað starfsemi líkamsvélarinnar, að í föstum eyðir hún fyrst þeim vefjum, sem minnsta þýðingu hafa og hún getur helzt án verið, en það er fitan, en lífsnauðsynlegum líffærum, eins og heila og nýrum, hlífir hún lengst.
Að þessu leyti er mönnum því engin hætta búin af nokkurra vikna föstu, svo sem margföld reynsla hefir sýnt og sannað. Menn hafa lifað og haldið fullri heilsu eftir tveggja mánaða og jafnvel enn lengri föstur. Og sérstaklega er það eftirtektarvert, að þótt ekkert sé drukkið annað en blátt vatn, koma ekki í ljós nein merki venjulegra hörgulsjúkdóma, svo sem blóðleysi, einkenni um skyrbjúg, beriberi, beinkröm, kalkskort o.s.frv., heldur aðeins almenn örmögnunareinkenni, sé föstunni haldið áfram óhóflega lengi, en slíkt skeður vitanlega ekki í lækningaföstum undir lækniseftirliti.

Skaplyndi föstusjúklinga tekur óæskilegum breytingum. Þeir verða andlega sjúkir, þunglyndir eða uppstökkir, og það þarf að hafa ofan af fyrir þeim með lestri, hljómlist, sjónvarpi eða á annan hátt.

Það er bersýnilegt, að sá er þetta ritar hefir ekki fylgzt sjálfur með föstusjúklingum, eða þá að hann gerir undantekningarnar að reglu. Á hinn bóginn getur þessi lýsing átt við hungur eða sveltur, sem menn verða nauðugir viljugir að gangast undir.
Í einum sjúkdómi, bráðri nýrnabólgu (nephritis), getur ströng fasta bjargað lífi sjúklingsins.

Undir þetta skal tekið, svo og eftirfarandi orð úr niðurlagi greinarinnar: Enginn skyldi trúa í blindni á lækningamátt föstunnar, en þau gilda einnig um aðra læknisdóma.

Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 3. tbl. 1966, bls. 70-73

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing