Útrýming jurtasjúkdómanna


Erfiðasta vandamál allrar ræktunar eru jurtasjúkdómarnir, sem valda hvarvetna geysitjóni, beint og óbeint. Það kostar mikið fé í efni og vinnu að reyna að halda þeim í skefjum og tekst þó ekki nema að nokkru leyti. Uppskeran rýrnar, og oft verður uppskerubrestur af völdum þeirra. Sem dæmi um þann usla, sem jurtasjúkdómar gera hér á landi, nægir að nefna kartöflumyglu og stöngulsýki, kálmaðkinn í rófum og káli og rótarál í tómötum.

Jurtasjúkdómar munu álíka margvíslegir og erfiðir viðfangs og mannlegir sjúkdómar. Þeir stafa ýmist af bakteríum, vírusum, sveppum, ormum eða beinlínis af vöntun eða ofgnótt vissra efna í jarðveginum. Hin venjulegu ráð við jurtasjúkdómum eru svipuð og við mannlegum sjúkdómum, og eru þau kunnari en svo, að þörf sé á að rekja þau hér. Jurtasjúkdómar hafa farið mjög í vöxt á undanförnum áratugum, og er mönnum ekki grunlaust um, að bakteríum eða sveppum sé ekki einum um að kenna, heldur valdi hér mestu um breytt lífsskilyrði jurtanna vegna breyttra ræktunaraðferða, aukinnar notkunar tilbúins áburðar og röskunar á réttum hlutföllum næringarefna í jarðveginum. Er þetta hliðstætt við þá skoðun, að flestir mannlegir sjúkdómar stafi af röngum lifnaðarháttum. Báðar styðjast þessar kenningar við þá staðreynd, að sjúkdómar jurta og svokallaðir hrörnunarsjúkdómar hafa færzt mjög í vöxt, og ennfremur við það, að í sumum löndum þekkjast hvorki jurtasjúkdómar né hinir algengu menningarsjúkdómar. Í HEILSUVERND 1946, 3. hefti, er sagt frá hinni litlu Húnsaþjóð í Himalajafjöllum, þar sem flestir sjúkdómar menningarþjóðanna eru með öllu óþekktir. En jurtasjúkdómar þekkjast þar ekki heldur. Í greininni var frá því skýrt, að Húnsabúar ættu hreysti sína og sjúkdómaleysi hinum einföldu og heilnæmu lifnaðarháttum sínum að þakka, einkum mataræðinu, og hefir hinn kunni læknir og næringarfræðingur, Englendingurinn Robert Mac Carrison, sannað þetta með fóðrunartilraunum, og komizt að þeirri niðurstöðu, að með mataræðinu einu er hægt að framleiða flesta mannlega sjúkdóma og á sama hátt hægt að koma í veg fyrir þá.

Nú hefir annar enskur vísindamaður, Sir Alfred Howard, sannað með löngum og ítarlegum tilraunum, að alla jurtasjúkdóma er, hvort heldur sem er, hægt að framleiða eða koma í veg fyrir með viðeigandi ræktunaraðferðum. Og það merkilega er, að rannsóknir sínar gerði hann einmitt austur í Indlandi, ekki langt frá Húnsaríkinu. Uppgötvanir hans eru ekki nýjar af nálinni, því að hann skýrði frá þeim í bók, sem kom út árið 1931 og heitir "The waste products of agriculture" (Úrgangsefni jarðyrkjunnar). — Það sýnir vel, hve erfitt uppdráttar miklar uppgötvanir eiga, að menn skuli enn, með misjöfnum árangri og ærnum tilkostnaði, ausa eiturefnum í tonnatali yfir akra og garða og verða þar að auki að horfa upp á eyðileggingu á heilum uppskerum, sautján árum eftir að óyggjandi sannanir hafa verið færðar fyrir því, að hægt er með einföldum ráðum og án verulegs tilkostnaðar að þurrka út flesta eða alla jurtasjúkdóma.

Sir Alfred Howard var, sem ungur grasafræðingur, skipaður jarðræktarráðunautur Indlandsstjórnar, og hélt hann því starfi frá 1905 til 1924. Þá var hann skipaður forstjóri við ;Institute of plant industry; í Indor.

Nokkru eftir komu Howards til Indlands lét stjórnin honum í té til tilraunastarfsemi 75 ekrur lands í héraðinu Pusa (1 ekra er um 2/5 úr hektara eða rúm túndagslátta). Tilraunir hans í Pusa gengu út á það að reyna að finna, á hvern hátt hægt væri að lækna og útiloka jurtasjúkdóma með því að styrkja náttúrlegan varnarmátt jurtanna með réttum áburðar- og ræktunaraðferðum, án þess að nota nokkur meðul. Meðan á þessum tilraunum stóð, var Howard fengin önnur tilraunastöð í héraðinu Quetta í norðausturhluta Indlands, ekki langt frá Húnsalandinu.

Í Quetta þekktust engir jurtasjúkdómar, ekki fremur en menningarsjúkdómar í Húnsalandi. Í tilraunastöðinni í Quetta uxu því upp alheilbrigðar jurtir. Og nú hóf Howard hinar merkilegu og sannfærandi víxl-tilraunir sínar. Hann tók fræ heilbrigðra jurta í Quetta og sáði því í Pusa. Jurtirnar, sem upp af því komu, fengu nákvæmlega sömu sjúkdóma og aðrar jurtir í Pusa. Jafnframt tók hann fræ sjúkra jurta í Pusa og sáði því í Quetta. Þær jurtir urðu alheilbrigðar og ómóttækilegar fyrir sjúkdóma.

En Howard lét hér ekki staðar numið. Hann flutti jurtir, sýktar af bakteríum og ormum, frá Pusa til Quetta, til þess að sjá, hvort þær megnuðu að sýkja hinar heilbrigðu jurtir þar. En það tókst ekki. Jurtirnar í Quetta virtust með öllu ónæmar fyrir hverskonar jurtasjúkdómum. Sjúkdómarnir hurfu, bakteríurnar og ormarnir þrifust ekki í jarðveginum í Quetta og dóu út.

Howard var nú tekið að gruna það fastlega, að jurtirnar í Quetta ættu hreysti sína og sjúkdómaónæmi áburðinum og ræktunaraðferðinni að þakka, þ.e.a.s. jarðveginum og undirbúningi hans. Til þess að ganga enn betur úr skugga um þetta, lét hann rækta tilraunareit í stöðinni í Quetta með samskonar aðferðum og í Pusa. Í þessum reit komu upp nákvæmlega sömu jurtasjúkdómar og í stöðinni í Pusa. Nú þurfti ekki lengur vitnanna við. Til frekari sönnunar og öryggis fyrir því, að niðurstöður hans væru réttar, fór hann nú að nota í Pusa þær ræktunaraðferðir, sem reyndust svo vel í Quetta. Árangurinn varð sá, að innan skamms hurfu allir jurtasjúkdómar þar, eins og dögg fyrir sólu.

Sir Alfred Howard hafði þannig sannað, með ítarlegum og nákvæmum vísindalega framkvæmdum tilraunum, að auðvelt er að koma í veg fyrir hverskonar jurtasjúkdóma með því einu að nota réttar ræktunaraðferðir og undirbúa jarðveginn á réttan hátt. Orsakir jurtasjúkdómanna eru því ekki bakteríur, vírusar, sveppir eða skordýr, eins og flestir halda, heldur eiga þeir frumorsakir sínar í jarðveginum. Heilbrigður og rétt undirbúinn jarðvegur gefur heilbrigðar jurtir, sem standast árásir hverskyns sjúkdóma. Eina rétta leiðin til að forðast jurtasjúkdóma og útrýma þeim er því að undirbúa jarðveginn á réttan hátt. Þá þarf enginn neitt að óttast, engin þörf lyfja, engin rýrnun uppskeru af völdum sjúkdóma, og það sem betra er, jurtirnar verða betri næring handa mönnum og skepnum. Það sannaði Howard einnig með tilraunum þarna austur í Indlandi, og verður sagt frá þeim í næsta hefti, um leið og lýst verður þeim ræktunar- og áburðaraðferðum, sem gáfu honum svo góða raun og farið er að nota í Englandi, um Norðurlönd og víðar með sama ágæta árangrinum.

 

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd, 1.-2. tbl. 1948, bls. 25-28

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi