Um sykursýki

Forlög eða álög
Forlög koma ofan að,
örlög kringum sveima,
álög koma úr ýmsum stað,
en ólög fæðast heima.
Mér flaug í hug þessi gamla vísa, sem eignuð er Páli Vídalín, lögmanni, er eg fyrir nokkru sá þess getið í dagblöðum, að 13 ára stúlkubarn hefði dáið úr sykursýki eftir nokkurra ára harða baráttu við þennan sjúkdóm.

Það verður enginn héraðsbrestur, þótt barn eða efnilegur unglingur deyi. „En ilmur horfinn innir fyrst, hvers urtagróðinn hefir misst.“ Vaninn breiðir gleymskubrekánið yfir flestar misfellur. En þjóðarskaði er þetta, og ábending um, að læknisfræðinni er ábótavant ennþá.

Á sjúkdóma er vanalega litið sem eitthvað óhjákvæmilegt. En hinir lærðustu meðal lækna hafa haldið því fram, að sjúkdómar, og þá ekki sízt hrörnunarsjúkdómar, stafi af orsökum, sem unnt væri að koma í veg fyrir, ef þekking læknisfræðinnar væri í bezta lagi.

Sykursýkin er tiltölulega nýlegur sjúkdómur hér á Íslandi. Má segja, að hún sé nýlegt blóm í aldingarði sjúkdóma eða vanþekkingar. Hitt er ískyggilegt, að þetta blóm er í hraðri þróun og vexti allsstaðar meðal vestrænna menningarþjóða. Hér á Íslandi telja læknar, að hún hafi vart þekkzt eða verið til fyrir síðustu aldamót. Nú er hún orðin talsvert algeng. Eg hygg þó, að um það séu ekki til skýrslur. Væri það þó fróðlegt að vita.

Sykursýkin er í eðli sínu hrörnunarsjúkdómur, líkt og tannveiki, magasár, botnlangabólga, skjaldkirtilssjúkdómar eða krabbamein. Allir þessir sjúkdómar bera vott um sjúklega hrörnun í öllum líffærum. Og vöxtur þeirra er jafnframt vottur um það, að nútíma læknisfræði er sízt á þeirri leið að þroska mannkynið. Hún lætur reka á reiðanum, hirðir þá, sem heltast úr lestinni, og þeir eru alltaf fleiri og fleiri. Þetta er ekki uppbyggjandi eða jákvætt starf, miklu fremur hið gagnstæða. Hvar endar þetta, verður mörgum á að spyrja, ef ekki verða straumhvörf í heilbrigðismálunum? En þau verða þá fyrst, ef almennt verður tekið fyrir rætur sjúkdómanna. En það er auðvelt að sýna fram á það, að enn hefir rétta sporið ekki verið stigið í þá átt innan læknisfræðinnar. Þvínær allt starf hinna fjölmörgu lækna fer til þess eins að gera við afleiðingar — sjúkdóma eða sjúkdómseinkenni — í stað þess að koma í veg fyrir þá eða útrýma þeim með því að taka fyrir orsakir þeirra.

Um vöxt og fjölgun hrörnunarsjúkdómanna skal það eitt sagt hér, að þeir eru ákæra á læknisfræðina og vottur um, að hún sé ekki á réttri leið. Þetta er meira alvörumál en margir kunna að hyggja. Það eitt er víst, að þar sem tannveiki í börnum er algeng, þar eru meltingarsjúkdómar, svo sem magasár, og sykursýki einnig á næsta leiti, og þá eru ennfremur aðrir hrörnunarsjúkdómar jafnframt í uppsiglingu og útbreiðslu, þar á meðal krabbamein. Og meðan svo er ástatt, verður tæplega hægt að útrýma ýmsum næmum sjúkdómum.

Ýmsir kunnir læknar og aðrir lærðir menn hafa bent á ráðin til þess að útrýma sjúkdómunum. Rómverski læknirinn Celsus, sem uppi var fyrir 19 öldum, sagði: „Það er ekki sennilegt, að þeim takist að lækna sjúkdóma, sem ekki veit, af hverju þeir stafa.“ Með þessu er sagt, að sjúkdómar verði ekki læknaðir, fyrr en orsakir þeirra séu þekktar og þeim útrýmt.

Það er sorgleg saga en sönn þó, að hin marglofuðu vísindi eiga mikinn þátt í vexti og viðgangi hrörnunarkvillanna. Efnisvísindin hafa beint og óbeint gefið þessum kvillum vind í seglin. Þau hafa eflt trúna á efnið, svo að það hefir viljað gleymast, að maðurinn er ekki síður andleg en efniskennd vera. Þetta má bezt marka á því, að það er hin takmarkalausa efnishyggja, sem komið hefir hverri styrjöldinni af annarri af stað síðustu hálfa öldina, og er ekki séð, nema hin þriðja sé í aðsigi. Þarna er baráttan frekar um fé og völd en um skoðanir.

Ekki verður annað séð, en að hin sama efnishyggja og fégirnd ráði miklu og hafi ráðið miklu um framleiðslu hrörnunarkvillanna, sem nú sverfa fastast að menningarþjóðunum. Það er sama fégirndin og gróðafíknin, sem stendur á bak við framleiðslu og sölu vopna og annarra drápstækja og framleiðslu á áfengi, tóbaki, ýmsum cola-nautnameðölum, hinum hvíta eiturbleikta hveitisalla, hvítum sykri, hefluðum hrísgrjónum og öðrum spilltum matvælum. Og hvað er gert til að vernda heilsuna gegn árásum allra þessara skaðlegu efna?

En það er ekki vísindanna sök, þótt þau séu engu síður notuð til hermdarverka en verndarverka. Það er sök þeirra, sem með vísindin fara. Þau eru aðeins verkfæri í höndum mannanna. Rangt viðhorf vísindamanna til mannlífsins, heilbrigði og þroska og lífssælu, eiga sök á skemmdarstarfsemi, sem birtist í dvínandi viðnámi gegn næmum sem ónæmum sjúkdómum og minnkandi lífstápi. Það er engin tilviljun, að drykkjumannaættir ganga úr sér og jafnvel deyja út. Það er eðlileg afleiðing eiturnautnanna. Sama er að segja um langvarandi neyzlu dauðra og ónáttúrlegra fæðutegunda. Það að gera heilnæmar, náttúrlegar og lifandi fæðutegundir að dauðri og deyðandi fæðu, eru skemmdarverk, sem koma niður á neytendum og afkomendum þeirra.

Myndin á kápusíðu þessa heftis, hin svokallaða Laokoon-hópmynd, er eitt hinna mörgu ódauðlegu grísku listaverka, tvö þúsund ára gamalt eða eldra, höggvið í marmara og geymt í Vatikaninu í Róm.

Myndin sýnir roskinn mann og tvo syni hans. Tvær geysistórar eiturslöngur hafa ráðizt á feðgana. Annað ungmennið hefir þegar beðið bana, en hinir berjast vonlausri baráttu við ofureflið.

Þetta er táknmynd þeirrar hrörnunar, ástríðna og nautnasýki, sem mannkynið er undirorpið, bæði í austri og vestri, kynslóð fram af kynslóð. Þessar illu vættir eyða andlegri sem líkamlegri orku, fegurð og hreysti yngri sem eldri manna og kvenna. Og sú læknisfræði og hver sú landsstjórn, sem berst ekki af alefli gegn þessum meinvættum, er neikvæð og vanrækir það, sem mest er um vert: ræktun heilbrigði og lifandi samstarfs allra í þágu sannrar framþróunar.

Vér horfum á það sljóvum og skilningsvana augum, að spítalaþörfin vex ört með ári hverju, þrátt fyrir aukna menntun og skólalærdóm, sívaxandi læknaskara og auknar ráðstafanir heilbrigðisstjórna. Vér sjáum glæpi og óknytti vaxa. Hið marglofaða frelsi er veitt ekki síður þeim, sem misnota það, en hinum, sem vinna sér og þjóð sinni gagn. Það er ekki hegningin, sem fær menn til þess að halda sér frá óknyttunum, heldur betra og þroskavænlegra uppeldi. Hinu líkamlega, siðferðilega og andlega uppeldi er mjög ábótavant.

Framþróun mannkynsins og vaxandi þroski eru háð lögmálum lífsins. Heilbrigðin er takmark þess. Sjúkdómar eru hinsvegar öfugstreymi, sem horfir til upplausnar og dauða.

Næringin er sterkasti hlekkurinn í akkerisfesti lífsins. Sé hann unninn úr lélegu efni, reynizt hann undantekningarlaust svikull, þegar á reynir. Líkaminn er það hljóðfæri, sem sálin spilar á. Lífslagið fer eftir samræmi og samstillingu allra strengja þess.

Framþróun alls lífs byggist á samræmi og samstarfi. — Leiðin til heilbrigði liggur gegnum lifandi og heilbrigðan jarðveg og lifandi og heilbrigðar jurtir, sem eru hinar eðlilegu fæðutegundir mannsins.

Jarðvegurinn er sem sé morandi af lífi, sé hann rétt hirtur. Þar eru gerlar, skordýr og lindýr, sem búa jurtunum í hendur rétta og auðtekna næringu. En til þess þarf jarðvegurinn að fá réttan áburð. Nú hefir þessu samræmi verið raskað með því að ausa dauðum, tilbúnum áburði yfir jörðina í stað hins lífræna áburðar. Úr slíkum jarðvegi vaxa sjúkar jurtir, sem eru þess ekki megnugar að veita dýrum eða mönnum fullkomna heilbrigði.

Ekkert annað en afturhvarf til náttúrlegra hátta getur bjargað við hinu dvínandi heilsufari. Og þá fyrst, er vísindunum verður að því beint, að vinna í samræmi við lögmál lífsins, getum vér orðið fullkominnar heilbrigði og lífssælu aðnjótandi.

Nýsköpun er orð á hvers manns vörum hér á landi. En sú nýsköpun stefnir aðeins að útvegun og framleiðslu efnislegra verðmæta, en ekki að eflingu líkamlegrar eða andlegrar heilbrigði eða að friðsamlegu samstarfi einstaklinga og þjóða.

Vér megum aldrei gleyma því, að oss Íslendingum, eins og öðrum þjóðum, hefir verið fenginn fjársjóður í hendur til þess að ávaxta og auka. Þessi fjársjóður er heilbrigði og þroski, samúð og manngöfgi. Bregðumst vér því trausti, sem oss er með þessu sýnt, höfum vér fyrirgert tilverurétti vorum til að lifa á þessari jörð.

Ónáttúrlegar lífsvenjur eru leiðin til sjúkdóma og aldeyðu.

Leiðin til þroska og fullkomnunar er náttúrlegar lífsvenjur. Sjúkdómar eru engin tilviljun. Þeir eru ekki forlög, heldur álög eða ólög sjúkrar menningar, afleiðing vanþekkingar á því lögmáli, sem ríkir í alheimi, lögmáli framþróunar lífsins.

Þessi grein birtist í 3. tbl. Heilsuverndar 1948.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi