Fyrir nokkrum árum birtist í “Månedsskrift for praktisk lægegerning og social medicin”, sem gefið er út af samtökum sjúkrasamlagslækna í Kaupmannahöfn, tafla um æskilega þyngd karla og kvenna, miðað við hæð, og var fólki skipt í þrjá flokka eftir líkamsbyggingu: Grannvaxnir, meðalþreknir og gildvaxnir. Hér er ekki ástæða til að birta töfluna í heild. En sæmilega glögga hugmynd má fá af eftirfarandi tölum úr flokki hinna meðalþreknu:
Konur 150cm – 51kg
Karlar 160cm – 59kg
Konur 160cm – 57kg
Karlar 170cm – 67kg
Konur 170cm – 63kg
Karlar 180cm – 74kg
Konur 180cm – 69kg
Karlar 190cm – 81kg
Grannvaxið fólk er 3 til 4 kg léttara en taflan sýnir, gildvaxnir karlar 4 til 5 kg þyngri og gildvaxnar konur 3 til 4 kg þyngri.
Gömul og einföld regla taldi hæfilega líkamsþyngd vera jafnmörg kílógrömm og hæðin margir sentímetrar yfir einn metra. Eftir því ætti 170 cm hár karlmaður að vega 70 kg og 160 cm há kona 60 kg. Samkvæmt töflunni er gamla reglan þannig nærri lagi fyrir lágvaxið fólk, en þeir, sem hávaxnari eru, þurfa að draga nokkur kg frá, og þeim mun fleiri sem menn eru hærri í loftinu, sérstaklega þeir, sem grannvaxnir eru að eðlisfari.
Með “æskilegri þyngd” er við það átt, að heilsu manna sé bezt borgið, ef þyngd þeirra fer ekki verulega upp eða niður fyrir þessi mörk. Og offita telst það, ef þyngdin er til muna meiri en hér segir, t.d. 10 kílógrömmum eða meira.
Orsakir offitu
Helztu orsakir offitu eru: 1) Ofát. 2) Of lítil hreyfing. 3) sjúkdómar. Fyrsttalda orsökin er langsamlega algengust. Oft fer saman ofát og of lítil hreyfing, ýmist vegna þess að menn verða þungir á sér, latir og værukærir, er þeir fitna, eða þá af hinu, að þeir taka upp kyrrsetustarf, en matarlyst og fæðutekja eru óbreytt, og það þýðir ofát og offitu.
Orkugildi fæðunnar
Líkamir allra lifandi vera eru vélar, sem eiga það sameiginlegt með vélum gerðum af manna höndum, að þær þarfnast orku utan frá. Þessa orku fá lifandi verur í fæðunni. En fæðan flytur þeim einnig efni til að bæta upp daglegt slit líkamsvefjanna. Líkamsvélin hefir það nefnilega fram yfir aðrar vélar, að hún viðheldur sjálfri sér, sé hún ekki snuðuð um réttan efnivið. Helztu byggingarefnin eru eggjahvíta og steinefni, en orkuna eða eldsneytið fær líkaminn úr svonefndum kolvetnum, úr fitu og einnig úr eggjahvítuefnum. Til daglegra lífsstarfa, svo sem meltingar, efnabreytinga allskonar innan líkamans og hinnar margslungnu líffærastarfsemi, sem menn þekkja enn ekki nema nokkurt brot af, þarfnast líkaminn auk þess fjörefna, efnakljúfa (enzyma) og hormóna. Mörg þessara efna eru þegar kunn orðin, en vafalaust á enn eftir að koma í leitirnar heill skari efna, sem eru líkamanum ekki síður nauðsynleg en hin þekktu efni.
En hér er ég kominn út fyrir ramma þessarar greinar og vík þá aftur að orkuefnunum þremur: Eggjahvítu, fitu og kolvetnum. Í líkamanum “brenna” þau í hægum súrefnisloga, þ.e.a.s. að kolefni það, sem öll þessi efni hafa að geyma, sameinast súrefni, sem er ýmist í fæðunni sjálfri eða berst líkamanum gegnum lungun, og við það myndast kolsýra. Þessi efnabreyting á þátt í myndun líkamshitans og framleiðslu þeirrar orku, sem líkaminn notar við dagleg störf. Orkan er mæld í hitaeiningum. Ein hitaeining er sú orka, sem þarf til að hita eitt kílógramm af vatni um eina gráðu á Celsíus.
Nú er auðvelt að mæla, hvað hvert ofangreindra næringarefna framleiðir margar hitaeiningar við bruna utan líkamans. Úr hverju grammi af eggjahvítu og kolvetnum koma þannig um 4 hitaeiningar, en úr hverju grammi af fitu rúmar 9 hitaeiningar. Sé gert ráð fyrir, að orkuframleiðsla þessara efna sé hin sama við bruna í líkamanum, er næsta auðvelt að reikna út, hve mörgum hitaeiningum líkaminn eyðir.
Orkueyðsla líkamans
Þegar maðurinn er í algerðri hvíld, liggur fyrir og aðhefst ekki annað en að nærast, eyðir líkaminn um 1800 hitaeiningum á sólarhring, miðað við fullorðinn karlmann meðalþungan. Við létta vinnu eyðast 2500 til 3000 hitaeiningar og við erfið líkamleg störf 4-5000 hitaeiningar og jafnvel enn meira. Með auknu starfi eykst matarlystin, og sé allt með felldu, temprast fæðutekjan þannig af sjálfu sér, á sama hátt og hjartsláttur og öndun örvast við erfiði, til þess að fullnægt verði kröfum líkamans um aukinn aðflutning súrefnis og annarra næringarefna til vöðvanna.
Berist nú líkamanum að staðaldri meiri næring en hann eyðir, safnast afgangurinn fyrir sem fita hér og þar, svo sem í vöðvum, kringum nýru, í netju og undir húð víðsvegar á yfirborði líkamans. Eyði líkaminn hinsvegar meiru en hann aflar, verður hann að brenna eigin vefjum, og grípur hann þá fyrst og fremst til þeirra vefja, sem óþarfir eru eða minnsta þýðingu hafa, svo sem óþarfa fitu.
Efnaskiptatruflanir
Kunnugt er um ýmsa sjúkdóma í innkirtlum, svo sem skjaldkirtli og heiladingli, sem trufla efnaskipti líkamans á þann veg, að af því leiðir ýmist offitu eða megurð. Um þá hluti verður ekki rætt hér. En þótt engar slíkar truflanir finnist við skoðun eða rannsóknir, þá er engum vafa bundið, að fólk nýtir fæðuna misvel. Hjá sumum virðist allt, sem í magann er látið, verða að fitu, en aðrir haldast grindhoraðir, hversu miklu sem þeir troða í sig af mat. Vafalaust eru hér á bak við einhverjir óþekktir þættir lífsstarfsins, sem trufla alla hitaeiningaútreikninga, enda þótt almennt megi treysta þeim.
Holdafar dýra og manna
Í dýraríkinu má offita heita óþekkt fyrirbrigði. Helzta undantekningin, auk mannskepnunnar, er alisvínið, sem er fitað af ásettu ráði til slátrunar. Mundu hið vafrandi alisvín og hið fráa og kvika villisvín áreiðanlega ekki kannast hvort við annað, ef þau hittust á förnum vegi. Vitaskuld væri hægðarleikur að fita aðrar skepnur á sama hátt og svínið. En villt dýr, dýr í dýragörðum, fóðruð á þann hátt, sem þeim er eðlilegt, og flest húsdýr, safna varla óþarfa spiki. Skepnur geta fitnað vel í góðum sumarhögum og safnað þannig forðanæringu til kaldari árstímans, og sumum dýrum er það eðlilegt að hlaða á sig spiki, eins og selum og hvölum. En svínin eru fituð með því að fóðra þau á orkuríkum fæðutegundum, sem þeim er ekki áskapað að nærast á. Þetta er gert í ákveðnum tilgangi.
Á sama hátt fitnar maðurinn af neyzlu ónáttúrlegra fæðutegunda. En þetta er ekki viljaverk. Að vísu þótti það eitt sinn fyrirmannlegt og því eftirsóknarvert að spóka sig með stærðar ístru, fyrirferðarmikil brjóst og myndarlegan bakhluta. Og mæður voru stoltar af að sýna frændum og vinum börn, sem varla gátu hreyft sig fyrir spiki. En tímarnir breytast. Það þykir ekki lengur fínt að vera afmyndaður af spiki eða með framsettan maga, nú eru spengilegur vöxtur og réttar “línur” það eftirsóknarverða. Og þó að flestir hugsi meira um ytra útlit en sanna innvortis heilbrigði, dregur það sízt úr áhuga fólks í þessa átt að vita, að óþarfa fita leiðir til ófarnaðar og að hvert kílógramm offitu, sem hverfur, eykur á vellíðan, hreysti og langlífi.
En leiðin til megrunar er því miður ekki eins einföld og auðveld og ætla mætti, og eru þar mörg ljón á veginum, svo sem tízka í matar- og samkvæmisvenjum, afvegaleiddur smekkur, græðgi og vanþekking. Margir gera sér ekki ljóst, að einn sakleysislegur sykur- eða konfektmoli, ein kóla-flaska, ein pönnukaka, tertusneið, tvíbaka eða brauðsneið með áleggi eru jafnmargar ástæður fyrir því, að “línurnar” vilja ekki skýrast. En eins og nánar verður lýst í grein um megrunaraðferðir í næsta hefti, eru aukabitar af þessu tagi á milli máltíða langsamlega veigamesta ástæðan til offitu, a.m.k. hér á landi. Og það eru tveir voldugir harðstjórar, sem standa hér á bak við: tízkan og smekkurinn. Framangreindir aukabitar og aðrir áþekkir þykja flestum hið mesta lostæti, og umgengnisvenjur krefjast þess, að tekið sé á móti gestum með allskyns krásum, hvort sem er í heimahúsum eða í samkvæmissölum. Og gestunum þykir þá ekki tilhlýðilegt né almennri kurteisi samboðið að gera ekki hinum freistandi góðgjörðum full skil.
Matarlystin
Ef allt væri með felldu, ætti matarlystin að stjórna fæðutekju manna og dýra á þann hátt, að hvorki verði of né van. Villidýr eta ekki yfir sig, og það gerir ekki heldur búfé í haga eða á eðlilegu fóðri, hversu mikið sem fram er borið. Líkt má segja um mikinn fjölda fólks, að matarlyst eykst eða minnkar í samræmi við fæðuþörf, þ.e. að við aukið erfiði kallar líkaminn á meiri fæðu og öfugt.
Vísindalegar rannsóknir hafa sýnt, að matarlyst dýra er stjórnað frá stöðvum í neðsta hluta heilans. Með því að láta rafmagn eða ákveðin efni verka á þessar stöðvar, má valda gjörbreytingu á matarlyst. Ekki er vitað enn sem komið er, hvaða efni það eru í líkamanum, sem flytja boð til stöðvanna, né heldur hvaðan þau boð koma, hvort heldur með blóðrásinni eða gegnum taugar frá öðrum líffærum. En með einhverjum hætti fá frumurnar í þessum stöðvum vitneskju um fæðuþörfina og framkalla matarlyst hjá dýrinu. Þegar svo matarlystinni er fullnægt, á máltíð að vera lokið. Svo er það hjá dýrunum, nema þeirra sé freistað með einhverju lostæti. Sé þeim hinsvegar skammtað of mikið af eðlilegu fóðri, ganga þau frá leifðu, því að þau kunna enga mannasiði, sem krefjast þess af okkur, að ef við höfum tekið of mikið á diskinn okkar, verðum við að ljúka því. Og ílöngun í lostæta rétti freistar okkar ennfremur oft til að halda áfram að borða, eftir að við erum orðin mett.
Eins og önnur líffæri, geta heilastöðvar þær, sem stjórna matarlyst, orðið fyrir varanlegum truflunum eða skemmdum, þannig að matarlyst annaðhvort hverfi svo að segja með öllu eða erfitt sé að fullnægja henni og fólk borði því meira en góðu hófi gegnir. Einnig er það augljóst, að matarsiðir ýmsir eru vanaatriði, t.d. það hve oft er borðað. Áður fyrr og til skamms tíma voru máltíðir þrjár á dag og ekkert borðað á milli, aðeins drukkið molakaffi, sem að vísu þekktist ekki hér á landi fyrr en á 19. öld og náði þá smátt og smátt útbreiðslu um byggðir landsins. Milli máltíða liðu 4 til 6 klukkutímar eða meira. Þá voru öll störf, innan heimilis sem utan, miklum mun erfiðari en nú. Við þessi skilyrði þreifst fólk hið bezta, ef nóg var að bíta og brenna.
Nú er svo komið, að ekki líða nema tveir til þrír klukkutímar milli máltíða. Aðalmáltíðir eru að vísu aðeins tvær, en aukamáltíðir þeim mun fleiri, varla færri en þrjár til fimm, og auk þess er við ýmis tækifæri nartað í sælgæti. Kaffi með kökum er stærri máltíð en flesta grunar, og þar að auki einhæfasta og efnasnauðasta máltíð, sem hugsast getur og líkamanum beinlínis skaðleg. Í þessu sem mörgu öðru tekur vaninn ráðin af meðfæddum eðlishvötum, og slíkt getur aldrei góðri lukku stýrt.
Það er enginn vafi á því, að hinar einhæfu og óhollu aukamáltíðir og aukabitar af ýmsu tagi eru einn alvarlegasti galli á mataræði Íslendinga, og þar göngum við sennilega lengra en nokkur önnur þjóð í víðri veröld. Þetta er meginorsök hinnar gífurlegu neyzlu á hvítum sykri og hvítu hveiti, tveggja einhæfustu fæðutegunda, sem á borð okkar koma, og um leið meginorsök efnaskorts, m.a. skorts á fjörefnum, járni og öðrum nauðsynlegum næringarefnum, sem fjöldi fólks býr við, og meginorsök offitu. Veruleg úrbót á þessum vandamálum er því næsta einföld, á pappírnum a.m.k.: Sú að strika út eða draga stórlega úr aukamáltíðunum. Með því sláum við margar flugur í einu höggi.
Í næsta hefti verður rætt um aðferðir til megrunar.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 4.-5. tbl. 1966, bls. 105-110