Tvær veit ég systur ólíkastar. Það eru kartöfluplantan og tóbaksplantan. Hin fyrri er þess umkomin að varðveita heilbrigði hvers manns. Hún hefur um langa ævi verið líf- og heilsugjafi mannkynsins. Hún hefur sýnt sig megnuga til þess að varðveita innra jafnvægi og heilsu manna. Hin hið gagnstæða. Hún hefur orðið eins mikill spillir heilsu manna, andlegs og líkamlegs jafnvægis, eins og sú fyrri hefur orðið mikil blessun.
Tóbaksplantan hefur sem sagt reynst hinn argasti heilsuspillir og fjarlægt þá sem hana dýrka því takmarki, sem forsjón lífs og heilbrigði hefur hugað hverjum manni. Tóbaksplantan hefur orðið mönnum prófraun þess, hvort þeir kjósa að rækja hið ákvarðaða hlutverk heilbrigðinnar eða ekki.
Þessar tvær systur líkjast guðunum Baldri og Loka. Annar var guð hins háleita, fagra og góða; hinn lævís óvinur, sem gat af sér Fenrisúlf og Hel.
Þegar vestrænar þjóðir urðu fyrir því undra happi að finna Ameríku, opnuðust mannkyninu óendanlegir möguleikar til þroska og framfara en jafnframt andstæðir möguleikar til þess að skapa sér sjúkdóma, til vanþrifa upplausnar og afturfarar.
Hvernig höfum vér staðizt þessa prófraun? Hér verður hver og einn að svara fyrir sjálfan sig. Höfum vér gengið til góðs götuna fram eftir veg?
Það er sannað, að það verður þeim börnum forsjón lífs og heilbrigði, sem læra að borða lifandi kartöflur eins og þær koma fyrir úr ríki náttúrunnar, eins og það er leið til vanlíðanar og sjúkleika, hverjum þeim sem venur sig á tóbak.
Er Kólumbus hafði fundið Ameríku laust fyrir 1500 komst mannkynið fyrst í kynni við systurnar tvær kartöfluna og tóbaksjurtina, og verður hver að dæma það sem honum lízt, hvort það hafi þar orðið fyrir meira láni eða óhappi.
Ég er sannfærður um, að ef mannkyninu væri gefinn kostur á að velja hlutlaust um það, hvor þessara tveggja systra það kysi að þjónaði sér, þá mundi það eflaust velja rétt. En það hefur ekki átt þess kost. „Hinc illa lacrima“, segir latneskt spakmæli; þaðan stafar bölið.
Á þeim tíma, síðan ég man fyrst eftir mér, hafa undur gerst, undraverð breyting á hugum og högum manna. Á aðra hliðina til þroska og framfara, en á hina hliðina til vanþroska, sjúkdóma og hnignunar á því pundi, sem oss var falið að ávaxta.
Vér lifum á tímum hinna mestu vísindalegu framfara, en hefur yfirsést. Nú er spurningin, hvort mannkynið geti séð að sér, eða ætli að fljóta að feigðarósi, þá leið vaxandi hnignunar og sjúkdóma sem nú er stefnt. Það er spurningin, hvort það eigi að halda áfram að læra læknisefnin til þess eins að gera við sjúklegar afleiðingar eða til þess að öðlast þá skyggni sem gerir þeim fært að rannsaka, litast um og benda mönnum þá braut er leiðir þá til lífs og þroska, gerir þeim fært að velja og hafna.
Fyrir tæpum 35 árum var ég á ferð vestur í Ameríku. Ég komst þá fyrst verulega í kynni við hinn ágæta mannvin J.H. Kellogg, sem komið hafði á fót hinu merkilega heilsuhæli í Battle Creek í U.S.A. Hann var ekki heima, er ég kom til Battle Creek. En hinn ráðandi maður bauð mér að dveljast þar til næsta dags, þá væri Kellogg væntanlegur heim. Ég þá boð hans með þökkum. Þarna var margt að sjá og reyna og ég var hugfanginn að kynnast þessari stóru stofnun; en á þessu heimsfræga heimili voru þá um 700 dvalargestir. Þetta hæli fannst mér sem himnaríki á jörð. Næsta dag kom Kellogg heim, og að áliðnum degi fékk ég orð um að ég gæti fengið viðtal við hann. Hann tók á móti mér með orðunum; Velkominn vinur frá Íslandi! Ég varð hrifinn af þessum fagra manni við fyrstu sýn. Bauð hann mér að dvelja þar á hæli sínu sem gestur í 12-14 daga mér að kostnaðarlausu. Þetta kom aurasmáum gesti vel, og þakkaði ég boðið og kvaðst gleðjast yfir að kynnast þessu mikla hæli sem bezt, en orðstír þess hefði borizt alla leið til Íslands stranda. Hann kvað sig hins vegar lengi hafa langað til að kynnast því sögufræga landi og gladdist hann yfir að fá gest þaðan.
Ég dvaldist þarna í sælum draumi í hálfan mánuð og gaf þessi ágæti maður mér ofurlitla stund til viðtals á hverjum degi. Hann spurði mig að því einn dag, hvort ég hefði reykt; en á hælinu voru reykingar bannaðar. Ég sagði sem var, að ég hefði reykt, en hefði þegar sagt tóbakinu stríð á hendur. Dr. Kellogg tók þétt í hönd mér og kvað það gleðja sig. Sagði hann mér meðal annars þessa sögu.
Fyrir nokkrum árum kom til mín maður á móttökuskrifstofu mína. Hann var um fertugt. Virtist hann vera í mjög æstu skapi. Hann gaf sér ekki tíma til að setjast í framréttan stól, heldur studdi hann höndunum á stólbríkina og mælti með rödd, sem titraði af geðshræringu Læknir minn hefur sagt mér, að ég hafi fengið tóbakshjarta, eða mio-carditis, og að ég geti ekki lifað nema í 1 ár eða í hæsta lagi 1 – 2 ár með mestu varúð og kostgæfni. Þetta kom mér afskaplega á óvart. Ég er kaupsýslumaður og hefi fengið vini mína til þess að leggja fé sitt í fyrirtæki það sem ég hef annazt, en það hefur ekki enn þá gefið arð. Ég hef hins vegar fundið ráð til þess að það beri sig og gefi arð en til þess þarf ég tíu ár. Ég treysti yður einum manna til þess að gefa mér líf og starfsþrek til að framkvæma þetta. Auðvitað hef ég hætt að reykja og snerti tóbak aldrei framar. Og nú bið ég yður, góði læknir, að finna ráð til þess að treina í mér líftóruna og lífsþrekið svo að ég geti innt af hendi mitt ævistarf, mælti hann með eftirvæntingu.
Að lokinni skoðun varð ég að segja honum þann beiska sannleika að útlitið væri ekki gott. „Ég skal gera mitt bezta. En þér hafið eytt öllum yðar varasjóði. Inneign í banka heilsu og táps er þorrin því nær alveg. Hjarta yðar, nýru og lifur hafa þegar beðið óbætanlegt afhroð, æðar yðar eru þegar orðnar harðnaðar og kölkun orðin í þeim allmikil. Þetta eru vanalegar afleiðingar mikilla reykinga. Það er fremur lítið orðið eftir til að byggja á von um langt líf og starf.
„Já, en nú hef ég alveg hætt við tóbak og snerti það aldrei framar. Get ég ekki með hæfilegu starfi treint lífið, segjum þó ekki væri nema 5 ár? Það er betra en ekki. Mikið mætti gera á þeim tíma. Ef ég dey bráðlega, hef ég orðið svikari við vini mína, sem trúðu mér fyrir fé sínu. Ég get ekki dáið, fyrr en ég hef fengið tíma til að rétta fyrirtæki mitt við“.
Þegar ég hikaði og leitaði að orðum til þess að hugga þessa hrelldu sál, las hann alveg hugsanir mínar. Hann stökk upp af stólnum og æddi um gólfið eins og vitstola. Skyndilega kom hik á hann. Hann stanzaði rétt fyrir framan mig, steytti krepptan hnefann fast við andlitið á mér og æpti í æsingi og skelfingu „Hvernig má það vera, að mér hefur ekki verið gert aðvart um það, að tóbakið sé slíkur óttalegur óvinur. Mig hefur aldrei órað fyrir því. Læknar reykja, prestar og prelátar reykja, allir reykja. Ef ég hefði haft hugmynd um að tóbakið væri slíkur óvinur, hefði ég aldrei snert það.
Ég var hræddur um, að þessi veslings maður hefði misst vitið eða dytti niður af slagi. Og vissulega bar ég mína sök. Mér fannst ég vera sekur um vanrækslu á skyldu minni. Mér fannst sekt lækka mig og smækka. Og þessi veslings maður fann það. Honum hefði verið létt verk að slá mig niður. Og mér fannst ég hefði átt það skilið.
Ég ásetti mér að rita bók um tóbakshættuna.
Sannarlega er það ekki ofmælt, að tóbakið er hinn lævísasti óvinur lífi og framþróun. Ég hef síðan gert tilraunir með tóbak og hefi séð, að það dregur úr tápi og vexti manna. Ég hef og séð, hvernig það dregur úr vexti jurta. Ýmsir hafa sýnt fram á, að unnt er að draga úr vexti og lífstápi dýra með tóbaksáhrifum, að það má t.d. framleiða dverghunda úr stærri afbrigðum. Ef nikótínið er einangrað úr tóbaksplöntunni, kemur fram tær vökvi, svo baneitraður, að af honum nægja 1-2 dropar til þess að svipta mann lífi, en lítil dýr deyja á augabragði af enn þá minni skammti.
Margir líta svo á, að tóbakið geri mönnum ekkert til eftir að þeir hafa neytt þess í einhverri mynd í lengri eða skemmri tíma og finna aðeins hressandi áhrif af því. En þetta er fjarri öllum sanni. Tóbakið er lævís óvinur, sem flýtir fyrir æðakölkun og þrengir æðarnar sem næra hjartað, svo að það æpir af hungri. „Angina pectoris“ er þetta ástand nefnt á máli læknisfræðinnar, og við því er gefið annað eitur, sem gerir æðaveggi hjartans lamaða og máttlausa; þetta er svikalyf og röng aðferð.
Aðeins eitt getur bætt úr þessu á réttan hátt Það er að snerta aldrei tóbak. En það er nú eitthvað annað en að því ráði sé horfið á þessari nautnasjúku öld, þar sem aðeins er hugsað um að gera við afleiðingar sjúkdóma í stað þess að nema í burtu orsakir þeirra. Læknar tala að vísu um heilsuvernd, en hreinræktuð heilsuvernd er það eitt, að koma í veg fyrir orsakir sjúkdóma, krabbameins sem tannskemmda, með réttum lifnaðarháttum allt frá fæðingu, áður en spillt er smekk barnanna og eðlisávísun.
Mér er vel ljóst, að það er ekki vel séð að segja hinn hreina sannleika um þessi efni; það kann t.d. að koma í bága við fjárhagslega hagsmuni ýmsra manna; en ég á þá ekki úr svo háum söðli að detta, að ég þurfi að kippa mér upp við slíkt.
Ég var eitt sinn ekki fyrir löngu á ferð í þreifandi myrkri og rigningu með almenningsvagni. Leiðin var ekki nema um klukkustundar akstur. Í vagninum var dauðaþögn og þreifandi myrkur, nema hvað alls staðar glytti í eldsglæður í vindlingum og vindlum í munni manna. Loftið var svo eitrað sem mest getur orðið. Ég efast ekki um að fleirum en mér hafi fallið illa loftið í vagninum. En það eru löghelguð forréttindi reykingamanna að eitra loftið fyrir öðrum jafnt og sjálfum sér. Mér kom til hugar það sem segir í forngrískri goðafræði um ferðalag framliðinna til dánarheima. Var þangað yfir fljót að fara, fúlt og myrkt, en ferjumaðurinn þögull og skuggalegur, það sem til hans sást. Hel réði löndum handan móðunnar. Þetta ferðalag í vagninum virtist mér eitthvað svo áþekkt því sem ég hafði heyrt um vistina í bátnum hjá Karon ferjumanni yfir fljótið Styx. Mér varð að orði, er ég fór út úr vagninum Ég fagna þér ljós og loft! og fannst eins og ég væri að sleppa út úr helheimi.
Erum vér vestrænar þjóðir ekki að skapa oss hálfgerðan helheim með eiturneyzlu alkóhóls og tóbaks og heimskulegum lífsvenjum sem leiða til sjúkdóma og dauða? Sannarlega hefur höfundur lífsins ætlað oss að ganga aðra leið til vaxtar og þroska en þá, sem vestrænar menningarþjóðir hafa þrætt á síðari árum vegna allskonar vanþekkingar og sjúklegrar eftirsóknar til þess að eitra líkama sinn, musteri hins ódauðlega anda. Vér höfum hafnað handleiðslu höfundar lífsins og valið oss handleiðslu efnislegrar fjárhyggju í hennar stað.
Vaxandi tóbaksnotkun er sýnilegt tákn þeirrar menningar, sem vér búum við, ræktum og dýrkum. Það er úrkynjunarmenning vaxandi kvilla og sjúkdóma. Áfangastaðir á þeirri leið eru hjartveiki, magasár, botnlangabólga og krabbamein í maga og lungum.
Fyrsta tilfelli af krabba, er ég sá, var krabbamein í vör manns er reykti úr krítarpípu. Mér varð svo illt við að sjá þessa krabbaátu, að ég fékk uppköst.
Tóbakið er um fram allt eitur fyrir allt líf. Þannig hefur það verið notað til þess að eyða lægri líftegundum svo sem maurum og lindýrum. Það var gripið til þess sem læknismeðals við fjárkláðanum, vegna þess að það snöggdrap maurinn, og það er notað til þess að eyða sníklum sem sækja á jurtir. Eins og áður er sagt hefur tekizt að framleiða örsmá hundakyn með því að láta tóbak verka á ungviðið. Og þannig ber allt að sama brunni um hin gerspillandi áhrif tóbaksins á allt líf, æðra sem lægra, og alveg sérstaklega á hin viðkvæmari líffæri, svo sem innkirtlana og þá ekki sízt kynkirtlana. Og með eyðileggingu þeirra hverfur fegurð, styrkur og jafnvægi. Konur sem byrja snemma að reykja fá hrjúfa slímhúð, áferðarljótt hörund og dökka bauga fyrir neðan augun, það veldur röskun á starfi kynkirtlanna og sljóvgun sálarlífsins, gerir bæði menn og konur kynlaus þegar til lengdar lætur og veldur yfirleitt úrkynjun. Reynsla fjölmargra lífeðlisfræðinga, sem gert hafa tilraunir á dýrum með þessa eiturtegund, staðfestir þetta.
Sannarlega er margt annað, sem mæðir á heilsu manna, þó að tóbakinu sé sleppt úr hópi þeirra eiturtegunda, sem hin hrörnunarsjúka mannvera hefur tamið sér að neyta. Það þarf ekki nema sæmilega heilbrigða skynsemi til þess að skilja, að sú eiturtegund, sem gerir menn fárveika við fyrstu neyzlu, muni ekki vera alsaklaus og hljóti að eiga drjúgan þátt í úrkynjun vestrænna þjóða.
Vissulega mega menn því gjalda allan varhug við boðskap þeim og auglýsingum, sem gróðahyggjumenn breiða út um meinleysi þessa eiturs, eins hins sterkasta sem til er, svo að einn dropi þess getur grandað mannslífi.
Það er ekki eins mikið átak og menn ætla að venja sig af tóbaksnautn. Til þess að kæfa ílöngun í bili þarf ekki annað en eitt glas af ylvolgu eða jafnvel heitu vatni; það verkar á tóbaksílöngun eins og þegar vatni er skvett á kött, hún hverfur.
En um fram allt, varið börn, unglinga og óvita við tóbakseitrinu. Það er vissulega hættulegra en nokkurn grunar, og ekki sízt þess vegna, að það veldur ílöngun í alkóhól, og menn venjast ekki af alkóhólþorsta fyrr en menn hafa losað sig undan áhrifavaldi tóbaksins. Ein eiturnautnin býður annarri heim.
Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1955.