Kaffið hefir um tugi ára verið þjóðardrykkur Íslendinga. Innflutningsskýrslur sýna, að fram yfir aldamótin 1800 er kaffineyzlan aðeins 100 gr. á ári að meðaltali á hvert mannsbarn, innan við 1 kg. til 1840 og fer svo smávaxandi til aldamóta. Síðan hefir hún lítið aukizt og haldizt milli 6 og 8 kg. á ári á mann. Er Ísland nú 3. mesta kaffiland Evrópu, næst á eftir Svíþjóð og Danmörku, og jafnframt njótum við þess vafasama heiðurs að vera meðal mestu sykurneytenda Evrópu (Danir, Englendingar og Svíar efstir).
Almennt er litið á kaffi sem nauðsynjavöru, og jafnvel sem matvöru. Það fyrra er rétt í þeim skilningi, að fólk hefir vanizt svo kaffinu, að fæstir geta hugsað sér nokkurn dag án kaffidrykkju, eða aðrar góðgjörðir handa gestum. En hvorttveggja, að kaffið sé nauðsynjavara og matvara, er rangt frá því sjónarmiði, að í því eru engin næringarefni, svo að orð sé á gerandi, né heldur nokkur önnur efni, sem nauðsynleg geti talizt til daglegrar neyzlu.
Á hinn bóginn er í kaffinu fjölskrúðugur flokkur skaðlegra efna, sem sum eru sterk eiturefni. Kunnast þeirra er koffeínið. Þýzkur vísindamaður, Curt Lenzner, segir svo í bók sinni “Gift in der Nahrung” (Eiturefni í matvælum): “Koffeínið er eitur, sem verkar fyrst og fremst á hjartað og háræðarnar. Hjartslátturinn örvast, háræðarnar víkka, og öndunin verður tíðari. Önnur einkenni eru ofurviðkvæmni á taugum, ákafur hjartsláttur, svefnleysi og yfirlið”.
Kaffið hefir þá eiginleika, sem gerir það svo eftirsóknarvert, að það eyðir um stundarsakir þreytu, sleni og svefnþörf. Þessir eiginleikar eru m.a. fólgnir í því, að “kaffið drekkir í liðamótum útlimanna hinum lamandi þreytu- og úrgangsefnum, sem safnazt hafa í blóðið,” eins og dr. Heinrich Eduard Jacob kemst að orði. Þetta þýðir m.ö.o. það, að úrgangs- og eiturefni, sem blóðið hefir tekið í sig í því skyni að hleypa þeim í gegnum hreinsunartæki líkamans, lifur, nýru, ristil, húð, slímhúðir og öndunarfæri, og út úr líkamanum, eru gerð afturreka, þegar kaffieitrið kemst inn í blóðið, rekin aftur inn í liðamót og fleiri líkamsvefi. Hressingin af kaffinu er þá fólgin í því, að það hreinsar blóðið um stundarsakir, en hér er bara farið aftan að siðunum, ef svo má að orði komast, þannig að í stað þess að veita óhreinindunum í blóðinu út úr líkamanum, þá rekur kaffið þau inn í líkamann aftur, líkt og ef stofustúlka legði það í vana sinn að sópa öllu ryki og úrgangi inn undir gólfábreiður, rúm og stóla, bak við skápa, myndir o.s.frv.
Þetta er þá leyndardómurinn við hin “dásamlegu” áhrif kaffisopans. Danskur yfirlæknir, dr. Jarlöv að nafni, segir: “Kaffið flytur líkamanum enga orku, heldur má líkja því við svipuhögg, sem kemur líkamanum, líkt og hestinum, til að gleyma þreytunni um stund.”
Kaffið er því ekki eins ósaknæmt og flestir ætla. Og í rauninni er þetta viðurkennt af almenningi, þótt fæstir játi það berum orðum. Viðurkenning almennings á skaðsemi kaffis kemur fram í því, að börnum er ekki gefið kaffi, fyrr en þau eru orðin nokkuð stálpuð. Og samskonar viðurkenning heilbrigðisyfirvaldanna á skaðsemi koffeíns lýsir sér í því, að framleiðendum coca-cola hér á landi hefir verið gert að skyldu að láta koffeín-innihalds drykkjarins getið á umbúðunum.
Læknar nota koffeín sem lyf. Í venjulegum skammti eru ekki nema 5-10 sentigrömm (0,05-0,1 gr.), og mesti skammtur, sem leyft er að gefa, er 20 sentigrömm (0,2 gr.). Nú eru í 2 bollum af meðalsterku kaffi um 0,2 gr. af koffeíni, svo að þeir, sem drekka kaffi tvisvar til þrisvar á dag, og tvo bolla í hvert sinn, fá sem svarar 2 til 3 inntökum af sterkasta koffeínskammti, sem læknum er leyft að gefa. Sem lyf er koffeínið ekki notað nema um stundarsakir í vissum sjúkdómstilfellum. En í kaffi er það “tekið inn” daglega árum og áratugum saman, og sjá allir, hve “ósaknæmt” það er. Sá, sem drekkur 5 bolla af kaffi á dag, neytir því árlega um 180 gramma af þessu sterka eitri.
Nú er ekki því að heilsa, að koffeínið sé það eina, sem finna má kaffinu til foráttu. Í því eru um 20 meira og minna skaðleg efni, sum þeirra sterk eiturefni. Curt Lenzner segir: “Auk koffeínsins er í kaffinu “trigonellin”, sem er skylt koffeíninu og er sterkt eiturefni. Þá vill olían í kaffibaununum, sem gefur kaffinu hina sérkennilegu lykt eða kaffiilm, leysast upp og mynda eitruð efnasambönd. Þegar kaffið er brennt, myndast t.d. ammóníak, pyridin, edikssýra, valeríansýra, furfurol, fenol og fleiri efni, sem öll hafa eiturverkanir á mannslíkamann.”
Þá má ekki gleyma að geta þess, að í kaffibaununum eru 4 til 8% af barksýru, sem er ein af orsökum lystarleysis, meltingartruflana, magabólgu og magasára. Sænskur efnafræðingur, Iwan Bolin, segir svo: “Þegar kaffi er brennt, myndast ýmis efnasambönd, sem verka ertandi á slímhúð magans. Eftir því sem kaffið stendur eða sýður lengur, fer meira af þessum efnum út í kaffið, og sama er að segja um barksýruna, sem einnig ertir slímhúðina. Af þessum sökum er kaffið óheppilegur drykkur fyrir magaveikt fólk, og enginn ætti að drekka kaffi á fastandi maga, því að þá er slímhúð magans viðkvæmust.”
Ástæða er til þess að benda konum og mæðrum á það, að tilraunir hafa sýnt, að eiturefnin í kaffinu fara inn í brjóstamjólkina og geta skaðað barnið. Það hefir einnig sannazt, að kaffið verkar á kirtlastarfsemi líkamans, m.a. á þann hátt, að blóðsykurinn eykst. Þá má leiða líkur að því, að kaffið stuðli að myndun krabbameins, m.a. sérstaklega að brjóstakrabba í konum. Loks er talið fullvíst, að heitur matur og heitir drykkir séu ein aðalorsök að bólgum, sárum og krabbameini í vélindi, maga og sérstaklega í skeifugörn.
En hvað á þá að nota í staðinn fyrir kaffið, spyrja menn. Koffeínlaust kaffi? Kornkaffi? Te? Kakaó?
Í koffeínlausu kaffi eru sömu efni og í venjulegu kaffi, að koffeíninu undanskildu, en að viðbættum öðrum skaðlegum efnum, sem notuð eru við koffeíneyðinguna. Það er því að fara úr öskunni í eldinn. Um kornkaffi er það að segja, að við brennslu kornsins myndast ýmis skaðleg efnasambönd, líkt og við brennslu kaffibaunanna, svo að það er enganveginn ósaknæmur drykkur heldur. Í venjulegu tei eru mörg sömu eiturefni og í kaffinu og ýms önnur, svo sem theobromin, og sama er að segja um kakaó, svo að báðir þessir drykkir eru með öllu óhæfir til daglegrar neyzlu.
En eru þá öll sund lokuð? Það fer eftir því, hvernig menn nota kaffið. Fyrir þá, sem nota það sem nautna- eða hressilyf, er ekkert til í staðinn, eina ráðið fyrir þá er að breyta svo lifnaðarháttum sínum, að þeir þurfi ekki á slíkri hressingu að halda. Þeim, sem drekka kaffi daglega af vana, og af því að þeir eiga ekki völ annarra drykkja og verða af sömu ástæðum að gefa gestum sínum kaffi, skulu gefnar þessar bendingar:
Í 1.-2. hefti Heilsuverndar 1947 eru leiðbeiningar um það, hvernig menn geta, með lítilli fyrirhöfn eða tilkostnaði, aflað sér innlendra jurta, sem hægt er að búa til úr hina ljúffengustu og heilnæmustu drykki, og ættu þeir með tíð og tíma að verða þjóðardrykkur Íslendinga. Kamómille-te er einnig ágætur drykkur. Þá má laga meira en gert er af berjasaft og nota til drykkjar. Og loks er sjálft vatnið, ómengað vatnið, sem alltof fáir kunna að meta sem vert er, þessi blessunarríki og heilnæmi drykkur, eini náttúrlegi drykkur manna og dýra, það næringarefni, sem menn þurfa mest af en spara alltof mjög við sig, illu heilli. Þegar völ er á sítrónum, þykir mörgum gott að setja sítrónusafa eða sítrónusneiðar út í vatnið. Þá er berjasafi eða vatn blandað berjasafa hinn ljúffengasti og hollasti drykkur.
Þannig eru úrræðin mörg fyrir þá, sem hafa vilja á því að bæta drykkjarvenjur sínar og ráða bót á kaffileysinu, sem margir kvarta undan. Eru þessar línur ritaðar þeim mönnum til ábendingar, og auk þess til mótmæla þeirri margendurteknu og fjarstæðu fullyrðingu, að kaffið sé ósaknæm nauðsynjavara. Framangreindar upplýsingar ásamt ummælum erlendra vísindamanna sýna það svart á hvítu, að hvað sem læknar almennt eða aðrir kunna að segja um ósaknæmi eða jafnvel nauðsyn “hóflegrar” kaffineyzlu, þá er sannleikurinn sá, að rétti staðurinn fyrir kaffið eða þau efni, er það hefir að geyma, eru hillur efnafræðinganna eða lyfjabúðanna, en ekki eldhússkápar húsmæðranna.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 2. tbl. 1951, bls. 37-41