Sykurpáskar

Náttúrulækningafélag Íslands hefur frá stofun sinni árið 1937 barist fyrir því að benda Íslendingum á skaðsemi óhóflegrar sykurneyslu.

Í kringum páska eykst gríðarlega neysla okkar á sykri og úrval af páskeggjum er orðið alveg geigvænlegt. Hægt er að fá páskegg í öllum stærðum og öllum gerðum. Allt þetta úrval hlýtur að auka neyslu og vert er að benda á sykurmagn í páskaeggjum fyrir þá sem vilja bera ábyrgð á sinni heilsu.

Í einu risa eggi frá ónefndum framleiðanda eru 46 gr af sykri í 100 gr – Eggið er 1.111 kg og því eru 511 g af sykri í eggi af þessari stærð. Þetta eru 256 sykurmolar (molinn er um 2 g).

Hér má sjá sykurmagnið í einu Risaeggi (1,1 kg) – 256 sykurmolar

Ástæða þess að gefa ekki upp framleiðanda eggins er að þetta er ekki níðgrein um einn ákveðinn framleiðanda heldur frekar fræðsla fyrir landsmenn til að minnka sykurneyslu. Einnig er vert að benda á að flest öll páskaeggin í búðum eru með um 50% af innihaldinu í formi sykurs, alveg sama hver framleiðandinn er.
Það er mjög erfitt er að finna upplýsingar um innihald og næringargildi páskaeggja á heimasíðum sælgætisverksmiðjanna. Hvort að það sé vegna samviskubits framleiðandanna um óhollustu matvaranna eða bara almennur upplýsingaskortur skal ósagt látið. Búðarferð í Krónuna í Lindum var farin til að afla heimilda um sykurmagn páskaeggja í þessa grein.

Svona risa egg er fjölskylduegg þar sem stórfjölskyldan deilir og ekki æskilegt og beinlínis heilsuspillandi að hesthúsa þessu ein/n. Það er ekkert „töff“ að geta hesthúsað svona stóru eggi og þú ert ekkert betri foreldri eða afi og amma því stærra egg sem þú gefur börnunum, síður en svo. Sýnum ábyrgð og förum aftur í gamla tímann þar sem EITT egg nr. 2-4  var meira nóg fyrir flesta. Sælgætisframleiðendur mega líka sýna ábyrgð og hætta framleiðslu á risaeggjum, það hefur enginn gott af þeim og þau auka bara neyslu okkar og stuðla að heilsuleysi Íslendinga.

Hér má kynna sér leiðir að sykurminni lífsstíl um páskana.
Njótum sykurlítillar samveru innanhús um páskana.

Frekari fræðsla um páskegg og sykurneyslu:
https://timarit.is/page/6379929#page/n21/mode/2up
https://nlfi.is/heilsan/sannleikurinn-um-hvita-sykurinn/
http://www.sykurmagn.is/#/portfolio//bland-i-poka-500-g/

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi