Sykurfíkn barna ávani


Sumir halda, að börn séu að eðlisfari sólgin í sykur. Tilraunir hafa þó sýnt, að svo er ekki, heldur sé hér um ávana að ræða þegar á fyrsta æviskeiði. Enda er sjón sögu ríkari um mörg börn, sem taka ósæta ávexti, súra ávexti og jafnvel hráar kartöflur fram yfir epli, appelsínur eða sætmæti.

Sænska tímaritið „Hälsa“„ segir frá eftirfarandi tilraun, sem gerð var nýlega á börnum úr tveimur yngstu bekkjum í barnaskóla í Malmö af lækni við barnasjúkrahúsið þar og kennara við tannlæknaskólann.
Börnunum var skipt í tvo hópa. Annar hópurinn fékk að drekka glas af sykruðum appelsínusafa og á eftir glas af appelsínusafa ósykruðum. Hinn hópurinn fékk sömu drykki í öfugri röð, ósykraða safann á undan. Þegar þessu hafði verið haldið áfram um hríð, voru börnin spurð, hvor drykkurinn þeim þætti betri.
Af 45 börnum í fyrri hópnum, sem fengu sæta drykkinn á undan hinum ósæta, þótti 36 sæti drykkurinn betri. Af 39 börnum úr síðari hópnum, sem fengu ósæta drykkinn á undan, þótti aðeins 18 sæti drykkurinn betri. Þá hafa athuganir sýnt, að ungbörn taka inn ósykraða hóstasaft engu síður en sykraða, sem venja er að gefa þeim.
Læknarnir draga þær ályktanir af þessum tilraunum, að sælgætisfíkn barna sé að miklu leyti ávani, sem mæður eigi að forða börnum sínum frá með því að bjóða þeim ekki sykraða drykki eða rétti á fyrstu æviskeiðum.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi