Á sama hátt og tóbaksframleiðendur reyna með allskonar áróðri að draga úr áhrifum þeirrar vitneskju, sem rannsóknir á sambandinu milli reykinga og sjúkdóma eins og lungnakrabba og kransæðasjúkdóma hafa leitt í ljós á síðari árum, þannig þykir sykuriðnaðinum nærri sér höggvið með vaxandi skilningi lækna og almennings á skaðsemi sykurs fyrir tennur og heilsufar yfirleitt. Má víða sjá þess merki, að sykurframleiðendur bregðast hart við. Eitt dæmi þess er getraunaþáttur í þýzka tímaritinu “Das Beste”, í marz 1960, með öllu nafnlaus. Þar eru settar fram 10 spurningar um sykurinn ásamt svörum við þeim öllum. Hér verður skýrt frá nokkrum þessara spurninga og svörum ritsins. Leturbreytingar eru gerðar af undirrituðum.
1. spurning Geta menn borðað sykur án þess að fitna?
Svar Já, og sykurinn getur meira að segja verkað megrandi, eins og nákvæmar vísindalegar rannsóknir í Bandaríkjunum hafa fundið (fróðlegt væri að sjá heimildir fyrir þessari staðhæfingu. BLJ). Þetta liggur í því, að sykur heldur óhóflegri matarlyst í skefjum og er auðmelt næring, sem breytist fljótt í hreina orku. Menn þyrftu að borða mjög mikinn sykur ; um eitt pund á dag, ; til þess að hann breyttist í fitu í líkamanum.
Athugasemd undirritaðs Í rauninni tekur það því naumast að eyða orðum að þeim firrum, sem hér er haldið fram. Við meltingu í þörmum klofna öll kolvetni fæðunnar (í kornmat, kartöflum, grænmeti, aldinum og öðrum matvælum) í einfaldar sykurtegundir, sem síast inn í blóðið, nákvæmlega eins og sá sykur, sem við neytum daglega, og við innri efnaskipti gerir líkaminn ekki upp á milli þessara sykurtegunda. Munurinn er bara sá, að venjulegur neyzlusykur er með öllu fjörefnasnauður, en kolvetnum í náttúrlegum matvælum fylgja fjörefni og önnur nauðsynleg, lífræn efni. Sykur er því nákvæmlega jafnfitandi og brauð, kartöflur o.s.frv., miðað við kolvetnainnihald, en miðað við þyngd enn meira fitandi, þar eð hann inniheldur ekkert vatn. Hann dregur úr matarlyst einmitt fyrir það, hvað hann er nærandi, hvað hitaeiningar snertir. Og síðasta fullyrðingin, að borða þurfi pund á dag, til þess að sykur breytist í fitu, er miðuð við það, að lítið sem ekkert sé borðað af öðrum mat, a.m.k. engin önnur kolvetni, því að 500 grömm sykurs gefa 2000 hitaeiningar, eða um það bil það magn, sem kyrrsetumaður þarfnast. Á megrunarfæði er fólk varað við að borða kökur, mikið af brauðmat og jafnvel kartöflur. En 100 grömm af kartöflum færa líkamanum aðeins 60-70 hitaeiningar, þar sem 100 grömm af sykri gefa 400 hitaeiningar. Sykur er með öðrum orðum 6 sinnum meira fitandi en kartöflur.
2. spurning Hversvegna eru börn sólgin í sykur?
Svar: Börn eyða mikilli orku, því að þau hreyfa sig 10 sinnum meira en fullorðnir. Af eðlishvöt sækjast þau því eftir sykri, þar sem sykur er góður orkugjafi. Það er því rangt að kalla þessa löngun “sykurfíkn&”.
Ath. Það er auðvelt að ala upp í dýrum, óvita börnum og fullorðnum ílöngun í allskonar bragðefni, svo sem sykur, salt og annað krydd. Fjölda dæma mætti nefna um sjúklega ílöngun dýra og manna í ýmiskonar óþverra og óæti, sem fullnægir engri raunverulegri þörf né ræður bót á efnaskorti. Flest börn eru þegar á fyrstu mánuðum vanin á sykurát í ýmsum myndum, og þar með er sætindafíknin vakin, en um eðlishvöt er ekki að ræða.
3. spurning Veldur sykur tannskemmdum?
Svar: Sykur leysist fljótt upp í munnvatninu og er samstundis kingt. Sænskar rannsóknir hafa sýnt, að hann getur því ekki skemmt tennurnar.
Ath. Það má vera, að hreinn, óblandaður sykur setjist ekki á tennur. En í sætum kökum og flestu sælgæti er sykurinn blandaður bindiefnum, meira og minna límkenndum, sem setjast á tennur. Gerlar í munni breyta honum í sýrur, sem eiga sinn þátt í tannátunni. En hitt varðar mestu, að tennurnar eyðileggjast innan frá, vegna rangrar næringar, og samkvæmt tilraunum, sem væntanlega verður sagt frá í næsta hefti, eru tennur mjög viðkvæmar fyrir sykri af þessum sökum. Og nú mun næringarfræðingum bera saman um, að sykur sé meginorsök tannskemmda.
4. spurning Hversvegna borða íþróttamenn mikinn sykur?
Svar: Sykur er verðmætur og umfram allt skjótvirkur orkugjafi. Á fáeinum mínútum kemst hann inn í blóðið til afnota sem eldsneyti fyrir vöðva og taugar.
Ath. Svarið er rétt. En spurningin er villandi, því að íþróttamenn yfirleitt neyta ekki mikils sykurs, a.m.k. ekki vegna íþróttanna. En við erfiðar íþróttaiðkanir eða í keppni bera þeir stundum á sér sykur, sem þeir grípa til, ef þeir þreytast. En slíkt eru engin meðmæli með sykri til daglegrar neyzlu.
5. spurning Til hvers notar líkaminn sykur?
Svar: Líkaminn notar sykurinn ; en hann er hreint, náttúrlegt kolvetni ; sem orkugjafa til handa vöðvum, heila og taugum. “Sykur er það næringarefni, sem vöðvarnir hafa að orkulind. Sykur er og það eldsneyti, sem viðheldur nauðsynlegum líkamshita&”. (Prófessor dr. med. Ch. Richet).
Ath. Þetta er hárrétt. En hér er átt við þann sykur, sem líkaminn vinnur úr hverskonar matvælum, eins og að framan er getið, og eru þetta því engin meðmæli með verksmiðjusykri.
6. spurning Er sykur auðmeltur?
Svar: Já, sykur er mjög auðmeltur og skilur engin úrgangsefni eftir við brunann í líkamanum.
Ath. Þetta er einnig rétt, en meðmæli með sykri til daglegrar neyzlu eru þetta ekki. Þvert á móti. Móðir náttúra hefir búið líkamann tækjum til að vinna sykur úr venjulegum matvælum. Líkamanum er því enginn greiði gerður, heldur hið gagnstæða, með því að svipta meltingarfærin þessu hlutverki sínu.
Þær spurningar, sem hér er ekki getið, fjalla um framleiðslu sykurs og annað, sem enginn ágreiningur er um.
Að lokum eru lesendur hvattir til að svara spurningunum, áður en svörin eru lesin, og klykkt er út með þessum orðum “Rétt svör færri en 3 Heilnæm næring er A og O (alfa og omega, fyrsti og síðasti stafurinn í gríska stafrófinu, þ.e. upphaf og endir). “Sykur töfrar & Borðið því meiri sykur!”.
Sem sýnishorn af aðferðum þeim, sem beitt er í auglýsingaáróðri sykurframleiðenda, skal hér að lokum sagt frá atviki, sem dr. Ralph Bircher, sonur svissneska náttúrulæknisins Bircher-Benners, lýsir í tímaritinu “Der Wendepunkt&”, 5. hefti 1960. Hinn kunni skurðlæknir og rithöfundur Erwin Liek frá Danzig í Þýzkalandi kom í heimsókn í heilsuhæli Bircher-Benners í Zürich árið 1934. Hann skýrði dr. Bircher svo frá, að þá fyrir skömmu hefði komið til hans virðulegur og geðfelldur maður, sem bað hann að lýsa næringargildi súkkulaðis.
Lýsingin átti að birtast í blöðum, með nafni læknisins, átti ekki að innihalda neitt lof um súkkulaðið, heldur aðeins sanna upptalningu næringarefna þess. Jafnframt lagði maðurinn á borðið fyrir framan dr. Liek ávísun, undirritaða af forstjóra sykurhrings eins, en óútfyllta, og mátti læknirinn sjálfur skrifa upphæðina á ávísunina! En í þetta sinn fór sendiboðinn bónleiður til búðar.
BLJ
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 2. tbl. 1961, bls. 51-54