Sykur og sætuefni

Fræðslunefnd Náttúrulækningafélags Íslands efnir til málþings um sykur og sætuefni á Icelandair Hótel Reykjavík Natura, þingsal 2 á morgun þriðjudaginn 15. mars 2016 kl. 19:30.
Að þessu tilefni er um að gera að rifja upp hvað ritað hefur verið um sykur á vef NLFÍ undanfarin ár og áratugi.

Árið 2000 var haldið mjög fjölmennt málþing um sykur og þar sagði Gaui litli;
„Sykur er fyrir mér eins og stormasamt hjónaband. Ég ætla að reyna að lýsa þessu hjónabandi.
Stundum finnst mér hann mjög góður þó ég viti að hann á eftir að valda mér vandræðum.
Stundum verð ég yfir mig glaður í návist hans en stundum veldur hann mér mikilli depurð.
Stundum elska ég hann en stundum þoli ég hann ekki fyrir það sem hann hefur gert mér.
Stundum held ég að ég geti án hans verið (þó að ég viti betur). Hann er af markaðsmönnum settur í girnilegar umbúðir og er boðinn til sölu eins og ljúffengur skyndibiti (sem minnir á skyndikynni).
Stundum misnotar hann mig og stundum misnota ég hann“.
Hér má lesa allt erindi hans. 

Á sama málþingi sagði Dr. Jón Bragi Bjarnason heitinn;
„Ég ætla að enda á því að taka undir með höfundum þessarar bókar og segja að frá mínu sjónarmiði er sykur eitur. Strásykur er ónáttúrleg vara, það sem við köllum í efnafræðinni bara kemikal, menn geta keypt það af efnaframleiðendum, það er slíkt efni. Það eru engar trefjar í því, engin vítamín, það er ekki neitt nema þetta efni. Þá getum við spurt okkur: Hvað með nærsykur? Það eru þessar vörur hérna: hveiti, pasta, flest morgunkorn, kartöflur, hrísgrjón (nema hýðishrísgrjón), maís, rófur, gulrætur, hveitibrauð, kökur, sælgæti, bjór. Allar þessar vörur ber að varast. Og ef maður vill fara þessa leið sem ég kýs að fara þá forðast maður þær“.
Hér má lesa allt erindi hans.

Þorbjörg Hafsteinsdóttir talaði líka um sykurinn á þessu málþingi árið 2000;
„Ef maturinn er hvítur á lítinn, og það er ekki mjólk eða eggjahvíta úr eggi geturu verið viss um að maturinn sé aðallega úr kolvetni. Og ef maturinn er sætur þá er það kolvetni. Allt sem er af vegetalbiskum eða jurta uppruna og vex í eða á jörðinni endar með að verða að kolvetnum í fæðunni þinni. það eru tvær undantekningar hér sem teljast undir próteín og það er baunafjölskyldan eða belgávextir sérstaklega soyabaunir og sérstök gerð af þörungum sem kallast bláþörungar eða spírúlina. Inntaka af einföldum kolvetnum hefur aukist með stöðugum hraða síðustu 50-100 árin“.
Hér má lesa allt erindi hennar.  

Björn L Jónsson læknir og yfirlæknir á Heilsustofnun í Hveragerði ritaði mikið um skaðsemi hvíta sykursins og þetta skrifaði hann í ritið Heilsuvernd árið 1972;
„Í nýlegu vísindariti er haft eftir enskum skurðlækni, að hann telji “hreinsuð kolvetni (þ.e. hvítan sykur, hvítt hveiti og aðrar áþekkar matvörur) eina af orsökum krabbameins í ristli, og hina veigamestu. Þar að auki eigi þessar fæðutegundir verulega sök á botnlangabólgu, bólgu í ristilpokum og jafnvel gyllinæð. Ristilkrabbi og aðrir meltingarsjúkdómar, sem ekki stafa af sýklum, eru sjaldgæfir meðal frumstæðra þjóða, þar sem lítið er notað af framangreindum matvælum, en í mörgum menningarlöndum eru þeir um tíu sinnum tíðari“.
Hér má lesa þessa grein hans.

Síðast en ekki síst er það tilvitnun í Jónas Kristjánsson lækni og stofnanda NLFÍ og Heilsustofnunar NLFÍ en þetta skrifaði hann um skaðsemi hvíta sykursins árið  1958 og 1951;
 „Strax og börnin fæðast er þeim gefinn uppleystur sykur í vatni. Hvíti sykurinn er dauð og ónáttúrleg fæða og veldur undantekningarlaust sjúkdómum. Það er auðvelt að þekkja þau börn úr, sem gefið er mikið af sætindum. Hinn hvíti sykur er óhollasta vara sem hægt er að gefa börnum, vegna þess að hann veldur slímhúðabólgu hvar sem er í líkamanum“.
Hér má lesa þessa grein hans.

„Víst er það, að ónáttúrlegar og skemmdar fæðutegundir eins og hvítt hveiti, eiturblásið og svipt öllum beztu efnum sínum, er og verður aldrei annað en óhæf matvara, hversu glæst og ginnandi sem hún er gerð. Sama er að segja um verksmiðjusykur og sælgæti framleitt úr honum. Ætti að banna með öllu innflutning og sölu á slíkum skaðræðisvörum, sem stórspilla heilsu barnanna“.
Hér má lesa þessa grein hans. 

Skrifað af Geir Gunnar Markússyni ritstjóra NLFÍ, ritstjori@nlfi.is

 

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing