Spelt eða hveiti


Það er ekki ýkja langt síðan spelt kom inn á íslenskan matvörumarkað með látum. Það var oft kynnt þannig að það ætti að leysa hveitið algjörlega af og er því áhugavert að bera þessar tvær korntegundir saman.

Þegar speltið kom á markaðinn var því haldið fram að þeir sem væru með glútenóþol myndu þola spelt vel. Það kom þó á daginn að þeir sem þola illa glúten geta ekki neytt spelts því speltið inniheldur töluvert af glúteni líkt og hveitið.  Speltkorn og hveitkorn eru systurplöntur af ættinni (Triticum) og ber speltið latneska flokkunarheitið triticum spelta og hveitið ber heitið triticum aestivum.

Spelt er gömul korntegund og hefur verið ræktuð síðan 5000 f. Kr. og er  í dag aðallega ræktuð í fjallahéruðum M-Evrópu. Ólíkt hveitinu er spelt mjög harðgert og getur vaxið við mjög erfiðar aðstæður. Þessi eiginleiki speltsins gerir það þó einnig að verkum að uppskera verður ekki jafnmikil og af hveitiökrum og einnig er töluverður hluti af speltinu harðgerð hismi sem ver speltkjarnann. En þetta harða hismi veldur því einnig að erfiðara er mala speltið og skilar það sér í hærri framleiðslukostnaði en á hveitinu. Bæði minni uppskera og hærri framleiðslukostur valda því að spelt er mun dýrari vara en hveiti.

Þegar verið er að bera saman spelt og hveiti verður að líta til mölunnar á þessum korntegundum. Báðar fást þær sem grófmalaðar eða sem fínmalaðar. Ætíð ætti að leitast við að hafa kornvörur sem grófastar og velja frekar gróft spelt og heilhveiti sem er ríkara af trefjum, vítamínum og steinefnum en samsvarandi mikið malað hvítt spelt eða hveiti.
Í vali á spelti eða hveiti ætti einnig að líta til lífrænnar framleiðslu. Til að samanburðinn á þessum korntegundum sé sem bestur er nauðsynlegt að hafa speltið og hveitið úr sama gæðaflokki, þ.e. bæði lífrænt ræktað. Spelt er frekar ræktað lífrænt en hveitið og vegna aukinnar eftirspurnar eftir lífrænni framleiðslu í kjölfar almennrar heilsuvakningar í heiminum þá hefur framleiðsla speltis margfaldast á undanförnum árum.

Næringargildi
Hér má sjá samanburð á næringargildi heilmalaðs spelt og heilmalaðs hveiti (heilhveiti)

Næringargildi heilmalaðs spelts í 100 gr.
– 10,8 gr prótein
– 2,7 gr fita
– 63,2 gr kolvetni
– 8,8 gr trefjar
– 0,65 mg B1-vítamín
– 2,3 mg B2-vítamín
– 22 mg kalk
– 130 mg magnesíum
– 4,2 mg járn

Næringargildi heilhveitis í 100 gr.
– 10,0 gr prótein
– 1,7 gr fita
– 60,5 gr kolvetni
– 12,3 gr trefjar
– 0,4 mg B1-vítamín
– 0,13 mg B2-vítamín
– 35 mg kalk
– 105 mg magnesíum
– 1,79 mg járn

Af þessu má sjá að bæði heilmalað spelt og heilhveiti eru mjög próteinrík og trefjarík. En spelt er mun betri uppspretta ríbóflavíns (B2 vítamín) og járns en heilhveitið.
Næringarinnihald spelts jafnt og hveitis getur verið nokkuð misjafnt eftir því hve næringarríkur jarðvegurinn er. Í lífrænni ræktun er jarðvegur mun næringaríkari en í ólífrænni ræktun. Því mætti telja að spelt væri yfirleitt næringarríkara en hveiti því spelt er frekar ræktað með lífrænni ræktun.

Það hvað speltið er harðgert er bæði ókostur þess þegar kemur að verði en það er kostur m.t.t. hollustusemi. Hvað speltið er harðgert gerir það að verkum að minna þarf af ýmiskonar skordýraeitri eins og er notað í ræktun á hveitiplöntunni sem er ekki með jafn öfluga varnarskel eins og speltið. Hveitikornið hefur einnig breyst mikið í ræktun frá því að það kom fyrst fram. Ýmis afbrigði hafa verið ræktuð til að gera það „betra“ til ræktunar og svo hægt sé selja það dýrara verði. Þetta á ekki við speltið og er því hægt að segja að það sé náttúrulegra en hveitið.

Af þessari samantekt má sjá að spelt er almennt mjög holl og næringarrík korntegund. Það er þvímiður mun dýrari en hveitið enda er ræktun og vinnsla erfiðari. Þó eru Íslendingar farnir að nota spelt heilmikið í bakstur og aðra matargerð. Það er af hinu góða og hefur speltið frábæra bökunareiginleika. Gæta verður þó að því þegar speltið er notað að hafa það frekar lífrænt og grófmalað en ólífrænt og fínt til að tryggja betra næringargildi með meira af trefjum, vítamínum og steinefnum.

Heimildir
http://en.wikipedia.org/wiki/Spelt
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4521
http://www.heilsubankinn.is/vefur/index.php?option=com_content&task=view&id=1285
https://www.natureslegacyforlife.com/faqs/what-is-spelt/

 

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing