Skæðasti heilsuspillirinn


Árið 1941, eða fyrir rúmum 30 árum, gaf Náttúrulækningafélag Íslands út fyrsta rit sitt. Þetta er lítið kver, einar 72 blaðsíður, og ber nafnið “Sannleikurinn um hvíta sykurinn. Höfundur bókarinnar var Are Waerland, hinn kunni forystumaður náttúrulækningastefnunnar í Svíþjóð. Félagið hefir gefið út fleiri bækur eftir Waerland, þar á meðal “Matur og megin í þremur útgáfum, og eru þær uppseldar fyrir löngu. Eins og marga mun reka minni til, kom hann til Íslands á vegum NLFÍ sumarið 1947 og flutti fyrirlestra víðsvegar um landið.

Waerland ber hvíta sykrinum ekki vel söguna, kallar hann meðal annars “skæðasta heilsuspilli menningarþjóðanna, og þótti mörgum djúpt tekið í árinni. En Jónasi lækni Kristjánssyni var ljóst, að hér var ekki farið með neinar ýkjur né öfgar, enda hafði hann þá um tuttugu ára skeið haldið uppi fræðslu í ræðu og riti um manneldismál og flutt þjóðinni þann boðskap, að hvítur sykur og hvítt hveiti væru þau matvæli, sem hefðu meiri heilsuspjöll í för með sér en nokkur annar matur.

Nú á síðustu árum hefir verið tekið undir þessar kenningar hér á landi af læknum. Þannig hafa tannlæknar haldið uppi áróðri gegn sykurneyzlu sem aðalorsök tannskemmda. Og læknar hafa varað við neyzlu sykurs, m.a. sem orsök offitu, kransæðasjúkdóma og að sjálfsögðu fyrir sjúklinga með sykursýki á öllum stigum þeirrar veiki.

Einn kunnasti næringarfræðingur Breta, John Yudkin prófessor, hefir um langt árabil haldið því fram, að sykurinn væri ein aðalorsök æðakölkunar, þar á meðal í kransæðum hjartans. Hann hefir nýlega ritað bók, sem heitir: “Hreinn, hvítur, en eigi að síður banvænn: Sykurvandamálið. Hann fullyrðir, að mannkyninu stafi meiri hætta af sykrinum en nokkru öðru; hann er sem sagt sammála Waerland, segir það aðeins með öðrum orðum. Hann heldur því fram, að fyrr eða síðar verði með valdboðum að draga úr hinni gífurlegu sykurneyzlu. Hann brýnir þessi sannindi fyrir starfsbræðrum sínum, læknunum, og fyrir almenningi; en hann virðist komast að þeirri niðurstöðu, að óhjákvæmilegt sé að beita til þess opinberum ráðstöfunum. Jónas Kristjánsson lagði til, að á sykur yrðu lagðir háir tollar, svo og á hvítt hveiti, en tollar á aldinum, heilhveiti og heilu korni lækkaðir eða felldir niður.

 

Björn L. Jónsson 
Tímaritsgrein Heilsuvernd
3. tbl. 1973

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi