Rannsóknir á áhrifum kaffis

Árið 1966 kom út í Þýskalandi rit sem fjallar um áhrif kaffis á líkama dýra og manna. Höfundur ritsins er kennari við háskólann í Mainz, dr. Georg Czok að nafni. Hann skýrir svo frá, að á árunum 1952-1964 hafi árleg kaffineysla aukist í Þýskalandi úr 1 kg upp í 3”; kg á hvert mannsbarn í landinu. Til samanburðar má geta þess, að hér á landi nemur kaffiinnflutningur 12 kg á ári á mann, þannig að kaffineysla er a.m.k. þrefalt meiri á Íslandi en í Þýskalandi árið 1964.

Mikið vantar á, að menn þekki efnasamsetningu kaffis til hlítar. Af þeim efnum sem leysast upp í vatni og fara úr baununum út í kaffið, eru aðeins um 70% þekkt með nákvæmni. Í ritinu er aðallega fjallað um eftirtalin efni: Koffeín, klórógensýru, trígónellín, kaffiolíur og efni sem myndast við brennslu baunanna. Höfundur lýsir þessum efnum og niðurstöðum tilrauna, sem hann og aðrir hafa gert, bæði á tilraunadýrum, aðallega músum og rottum, svo og á mönnum, og áhrifum þeirra á ýmis líffæri og lífsstörf. Helstu niðurstöður af þessum rannsóknum eru sem hér segir:

1. Mikið koffeín gengur beint úr maganum inn í blóðrásina.

2. Kaffi eykur saltsýrumyndun í maga og framleiðslu magasafa. Virðast efni þau sem myndast við brennslu baunanna eiga mestan þátt í þeirri aukningu. Eins og kunnugt er fá margir brjóstsviða af kaffi.

3. Sömu efni virðast einnig auka gallmyndun, en koffeín og klórógensýra eiga þar einnig hlut að máli.

4. Brennsluefnin eiga einnig þátt í að auka hreyfingar þarma. Klórógensýra hefir vægari áhrif í þessa átt og trígónellín og koffeín lítil.

5. Kaffi eykur klórútskilnað og munu það vera áhrif frá koffeíni aðallega.

6. Kaffið hefir greinileg örvandi áhrif á miðtaugakerfið, og þar er fyrst og fremst koffeínið að verki, en að nokkru einnig brennsluefnin, klórógensýran og fituefnin.

Niðurlagsorð höfundar eru þessi: “Niðurstaða rannsókna minna og annarra höfunda benda til þess, að engin alvarleg hætta stafi af neyslu kaffis, ef þess er neytt í hófi og það ekki misnotað”; (undirstrikað hér).

Því miður lætur höfundur þess ekki getið, hvar hann vilji setja mörkin milli hófs og óhófs í kaffineyslu. Og þetta er ekki annað en það sem segja má um öll skaðleg nautnalyf.

BLJ

Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 1. tbl. 1977, bls. 18-19

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi