Ráðleggingar Landlæknis um minni sykurneyslu – Betra seint en aldrei


Landlæknir setti vefsíðuna www.sykurmagn.is í loftið fyrir stuttu. Þar getur almenningur kynnt sér magn viðbætts sykurs í algengum neysluvörum.
Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) fagnar opnun þessa vefs og vonandi að þetta sé bara byrjunin á leiðbeiningum frá Landlækni og fleiri opinberum stofnunum í því að fá okkur til að minnka sykurneyslu. Því á undanförum  árum hafa fjölda vísindarannsókna sýnt að óhófleg sykurneysla er heilsuspillandi og veldur m.a. offitu, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunun hefur líka nýlega hvatt almenning til reyna að hafa viðbættan sykur einungis 5% af hitaeiningum eða minna til að stuðla að sem bestri heilsu. Þessar ráðleggingar voru áður 10%. Þannig að það er greinilegt að alþjóðasamfélgið er að vakna af þyrnirósarblundi undanfarinni áratuga en á meðan hafa jarðarbúar verið að þyngjast gríðarlega og tíðni lífsstílsjúkdóma líkt og sykursýki aukist gríðarlega.

Þvimiður eru fáir sem vita að þessi umræða, og ráðleggingar um minni sykurneyslu er síður en svo ný af nálinni. Einn helsti frumkvöðull heilsueflingar á Íslandi og  einn af stofnendum NLFÍ; Jónas Kristjánsson læknir (1870 – 1960), hafði sig mikið í frammi um óhollustu viðbætta sykursins.
Það er ekki hægt að vera vitur eftir á en það væri óskandi að hlustað hefði verið betur á Jónas og ráðleggingar hans um minna sykurát. NLFÍ hefur frá stofnun beytt sér gegn óhóflegri sykurneyslu með reglulegum greinaskrifum í ritið Heilusvernd og á vef sínum. Einnig hefur NLFÍ haldið fjölda málþinga um heilbrigða lífsmætti og hélt m.a. málþing um sykurinn árið 2000. Það málþing vakti mikla athygli á sínum tíma en greinilega þó ekki nógu mikla til að spornu við öllu sykurátinu sem hefur lítið minnkað frá árinu 2000.
Þegar leitað er að orðinu „sykur“ í greinasafni NLFÍ koma upp rúmlega 90 greinar um sykur og sykurneyslu.
Hér eru nokkrar góðar tilvitanir frá Jónasi Kristjánssyni sem er ekki seinna vænna að fara að tileikna sér.

Margir læknar telja hina miklu sykurnautn orsökina til sykursýki, og færa það til að sykursýkin hefur vaxið hlutfallslega við sykurnautina. Það munu margir hafa veitt því eftirtekt, að ef þeir neyta meiri sykurs eða sætinda í eitt skifti en annað, þá missa þeir matarlyst, ennfremur að kaupstaðarbörn sem borða mikið af brjóstsykri og öðrum sætindum eru föl, veikluleg og blóðlítil. Foreldrar þeirra kvarta jafnan um að þau sjeu ónýt að borða.“ – Fyrirlestur Jónasar Kristjánssonar um lifnaðarhætti og heilsufar fluttur 10. mars 1923.

„Vér höldum áfram neyzlu dauðrar og deyðandi fæðu, byrlum oss eitur með tóbaki, áfengi, kaffi, coca-cola o.s.frv., og svo taka sjúkrahúsin og læknarnir við þeim, sem falla óvígir í valinn, en ekkert er hirt um að koma í veg fyrir, að leikurinn endurtaki sig. Með slíkum starfsaðferðum er það gefinn hlutur, að hrörnunarsjúkdómarnir vaxa eins og til þeirra væri sáð. Hve lengi á þetta svo til að ganga? Hvernig verður heilsufar þjóðarinnar eftir 50 eða 100 ár með sama áframhaldi niður á við, og verið hefir frá því t.d. um 1890, þegar sykursýki, botnlangabólga og skjaldkirtilbólga þekktust varla eða ekki og krabbamein, heilablóðfall, hjartasjúkdómar, tannveiki og ýmsir aðrir hrörnunarsjúkdómar voru hlutfallslega miklu fátíðari en nú? Mér ægir við að hugsa þá hugsun til enda.“ – Jónas Kristjánsson í 4.tbl. Heilsuverndar árið 1948

„Sætindaframleiðslan hefur tekið geysilegum vexti, þessi sætindi eru steindauð og stórlega heilsuspillandi, sjúkdómarnir koma að vísu ekki strax í ljós, en þeir koma fram síðar, svo sem sykursýki, meltingartruflanir, magasár, tregar hægðir. Og þeir menn, sem neyta mikið sætinda á æskuárunum eiga eftir að taka út syndagjöldin þó síðar verði, það er ómögulegt að sleppa undan því.“ – Jónas Kristjánsson í 2.tbl. Heilsuverndar árið 1958.

Jónas Kristjánsson fæddist fyrir 145 árum og barðist alla ævi gegn óheilbrigðum lífsháttum og m.a. óhóflegri sykurneyslu. Nú loks er hann að fá uppreisn æru og þjóðfélagið farið að meðtaka boðskap hans. Það er vonandi að við Íslendingar berum gæfu til þess að árið 2015 verði árið sem við verðum öll sammála um að óhófleg sykurneysla er skaðlegt heilsu okkar og við verðum að skera upp herör gegn sykurneyslunni. Til að berjast gegn sykurneyslunni þarf samstíga átak neytenda, stjórnvalda,  og matvælaframleiðenda- og innflytjenda.

Áhugaverðar greinar um sykurneyslu á heimasíðu NLFÍ
Málþing um sykur. Dr. Jón Bragi líkir sykri við eiturlyf: www.nlfi.is/Er%20sykur%20eiturlyf%3F
Björn L. Jónsson læknir ræðir sykuráróður: www.nlfi.is/node/342
Dr. Robert Lustig – Sykur mesta skaðvaldur í fæðunni:www.nlfi.is/sykur-hinn-mesti-skadvaldur-i-faedi
Staðreyndir um hvíta sykurinn: www.nlfi.is/sannleikurinn-um-sykurinn
10 leiðir til að minnka sykurneyslu: www.nlfi.is/10-leidir-minnka-sykurneyslu
Grein um óhóflega neyslu barna á viðbættum sykri: www.nlfi.is/borda-thyngd-sina-af-sykri
Ályktun 34.landsþings NLFÍ: www.nlfi.is/34.lands%C3%BEing-nlfi
Ráðleggingar um minni sykurneyslu fyrr og nú: www.nlfi.is/radleggingar-um-minni-sykurneyslu

Heimildir:
Vísindagreinar um skaðsemi viðbætts sykurs: www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/23966427
Ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar: www.who.int/mediacentre/factsheets/fs394/en/
www.nlfi.is/fyrirlestur-jonasar-laeknis-kristjanssonar-um-lifnadarhaetti-og-heilsufar-fyrri-hluti
www.nlfi.is/natturulaekningar-eru-heilsuraektunarstefna
www.nlfi.is/litid-um-oxl-og-fram-a-leid

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi