Eins og vikið er að í grein í síðasta hefti, telja sumir, að atvinnu íslenzkra bænda stafi hætta af kenningum náttúrulækningastefnunnar, þar eð hún leggst gegn neyzlu kjöts.
Í greininni er á það bent, að formælendur náttúrulækningastefnunnar hér á landi hafa aldrei lagt á það megináherzlu, að menn hafni kjöti með öllu í daglegu viðurværi, enda þótt þeir telji kjöt- og fiskneyzlu hér of mikla. Þeir líta á hina gegndarlausu neyzlu hvíts hveitis og sykurs sem eina veigamestu orsök heilsuleysis fólks á öllum aldri.
Sé litið á landbúnaðinn sem heild, er síður en svo að þjóðarbúskapnum sé voði búinn frá hendi náttúrulækningastefnunnar. Hún mælir sem sé ákveðið með stóraukinni neyzlu grænmetis og garðávaxta, sem auðvelt er að rækta hér á landi, og kornrækt mætti vafalaust einnig auka að miklum mun. Hér er því um tilfærslur að ræða á sviði landbúnaðarins.
Slíkar tilfærslur eiga sér sífellt stað í atvinnulífi þjóðanna, þar sem framleiðendur verða að aka seglum eftir vindi, breyta framleiðslu sinni í samræmi við breytingar á eftirspurn, en hún er, eins og allir vita, á hverfanda hveli, þannig að vara, sem selst í dag, er orðin óseljanleg á morgun. Slíkar sveiflur eru óumflýjanlegar. Enginn áfellist með réttu áróður templara gegn áfengi, þótt þeir vinni gegn hagsmunum bjór- og áfengisframleiðenda. Og tjón tóbaksframleiðenda og allra þeirra, er atvinnu hafa af dreifingu tóbaks, er óhjákvæmileg afleiðing af því, að sannleikurinn um skaðsemi tóbaks á heilsuna er boðaður umbúðalaust.
Það er því engin sanngirni í að sakast um það, þótt náttúrulæknar skýri almenningi frá því, sem þeir telja sannast og réttast í manneldismálum. En þeir líta svo á, annars vegar að kjöt og fiskur séu ekki nauðsynleg matvæli meðal þjóða, er hafa aðgang að fjölbreyttri mjólkur- og jurtafæðu, og hins vegar að kjöt- og fiskneyzla sé of mikil hér á landi. Rökin fyrir þessum kenningum verða ekki rædd hér, það hefir verið gert áður hér í ritinu og öðrum ritum NLFÍ.
En nú virðist svo sem vegið sé að íslenzkum bændum úr annarri átt.
Að undanförnu hefir orðið vart ótta hjá fólki við að borða mjólk og smjör vegna hættu á æðakölkun, blóðtappa og kransæðasjúkdómum. Fyrir fimm árum sagði mér íslenzkur læknir, nýkominn heim frá framhaldsnámi í Bandaríkjunum, að sumir stéttarbræður hans þar vestra væru að mestu hættir að neyta mjólkur, vegna þess að hún stuðlaði að myndun kólesteróls í blóði, en nýlegar rannsóknir höfðu sýnt, að kólesteról stóð í einhverju sambandi við æðakölkun. Nú virðist þessi ótti vera að hreiðra um sig hér á landi.
Hin síðustu ár hefir margt verið rætt og ritað um hinar svonefndu “mettuðu” og “ómettuðu” fitusýrur í feitmeti. Rannsóknir virðast benda til þess, að mettuðu fitusýrurnar stuðli að myndun kólesteróls í blóði og að æðakölkun, en hinar ómettuðu dragi úr hvoru tveggja.
Nú vill svo til, að í flestum jurtaolíum eru ómettaðar fitusýrur í meiri hluta (undantekningar: olífuolía og kókoshnetuolía, en í henni er næstum ekkert af ómettuðum fitusýrum), en í dýrafeiti eru hinar mettuðu fitusýrur yfirgnæfandi (undantekning: fiskalýsi). Í mjólk og smjöri er þannig mjög lítið af ómettuðum fitusýrum (sjá nánar grein um jurtaolíur í 5. hefti 1963).
Þótt rannsóknir hafi sýnt, að kólesteról í blóði sjúklinga með æðakölkun sé meira en í blóði annarra manna, er ekki þar með sannað, að kólesteról sé hin beina orsök æðabreytinganna. Þetta hvort tveggja getur verið afleiðing af einhverri sameiginlegri orsök, enn ófundinni. Og mér er ekki kunnugt um, að neinar samanburðarathuganir eða tilraunir hafi leitt í ljós, að þjóðum eða hópum manna, sem neyta mikillar mjólkur, sé öðrum fremur hætt við æðakölkun. Íslendingar hafa frá fyrstu tíð verið miklar mjólkur- og smjörætur, og neyzla feitmetis úr dýraríkinu ˆ tólg, feitt kjöt o.fl. ˆ hefir jafnan verið mikil. En ekki er mér kunnugt um neitt, sem bendir til þess, að mikil brögð hafi verið að æðakölkun, blóðtöppum, kransæðastíflu eða kransæðasjúkdómum hér á landi fyrr á öldum. Og margir halda því fram, að þessir sjúkdómar hafi aukizt nú síðustu áratugina, þrátt fyrir það, að nú vill fólk helzt ekki sjá fitu í kjöti, og mör eða tólg mun sjaldan á matborðum almennings.
Mjólkurmatur er svo þýðingarmikill þáttur í viðurværi okkar Íslendinga, að það væri óviturlegt að vekja hjá fólki ótta, sem ef til vill reynist ástæðulaus, við þessa fæðutegund, er fram að þessu hefir verið talin bezta heilsulind okkar. Það er réttmætt að mæla með hinum ómettuðu jurtaolíum til matar, t.d. út á fisk og grænmeti, í staðinn fyrir herta feiti eða smjörlíki, en við herðinguna breytist feitin úr ómettaðri í mettaða. En meðan rökin gegn mjólk og smjöri eru ekki veigameiri en orðið er, tel ég hiklaust óhætt að mæla með óbreyttri neyzlu þessara þjóðlegu og ágætu fæðutegunda.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 1. tbl. 1965, bls. 4-6