Nýtt ár, ný markmið

Nú er komið nýtt ár og margir sem setja sér ný markmið fyrir árið. Desember, sem er meðal annars sá mánuður sem erfiðast er fyrir okkur að standast freistingar, er nýafstaðinn og janúar er sá tími sem við skulum vel íhuga hollari lífshætti en áður. Jafnvel væri frábært að setja sér markmið um heilt ár í hollu fæði og almennu heilbrigði. Þá er um sanna lífsstílsbreytingu að ræða.

Ég hef sem íþróttamaður sett mér markmið reglulega. Í lok hvers árs fer ég yfir árið og þau markmið sem ég setti mér. Síðan set ég mér ný markmið. Í ár held ég áfram með sömu lífsstílsmarkmið og áður, að viðhalda heilbrigði mínu og næra sál og líkama með því besta sem ég get. Ég vel hollt mataræði, stunda reglulega hreyfingu sem og jóga og hugleiðslu. Ég hef í gegnum tíðina hugsað mikið um heilbrigði mitt og hef reynt eftir fremsta megni að borða eins hollan mat og ég get. Ég er handviss um að það hafi skilað sér í góðu líkamlegu og andlegu formi og eigi mikinn þátt í velgengni minni á badmitonvellinum.

Mataræðið mitt inniheldur lífræna ávexti og grænmeti á hverjum degi. Ég reyni að borða eins mikið lífrænt og ég get, því ég vil ekki borða mat sem inniheldur kemísk efni, rotvarnarefni, þrávarnarefni, tilbúin bragðefni, litarefni, skordýraeitur, hormónalyf né sveppaeyðandi lyf. Í lífrænni ræktun eru þessi efni ekki notuð. Það hlýtur að vera betra fyrir líkamann okkar að melta og vinna úr eins hreinum mat og hægt er, í stað þess að hann þurfi að vera að einbeita sér að því fyrst og fremst að losa sig við eiturefni. Því hollara sem við borðum, því betur vinnur líkaminn okkar, því betur líður okkur, ónæmiskerfið okkar verður betra, færri höfuðverkir, minni þreyta, aukinn kraftur og vellíðan.

Mig langar að deila með lesendum sýnishorni úr matardagbókinni minni og ég læt fylgja með uppskriftir. Þetta eru aðeins hugmyndir að mataræði og er auðvitað ekki alltaf nákvæmlega eins hjá mér, en það er fínt að hafa þetta til hliðsjónar.

Á morgnana tek ég alltaf eina matskeið af þorskalýsi, eina teskeið af omega 3,6,9 og eina fjölvítamíntöflu (Eve frá NOW) og skola því niður með hálfu glasi af hreinum og hollum safa og vatni. Uppáhaldið mitt til þess að byrja daginn á er boozt sem inniheldur alltaf eftirfarandi: eitt glas rísmjólk, ein lúka frosin ber, einn banani, smá slurkur appelsínusafi eða ribena safi (ribena safi gefur mjög gott bragð í booztið, fæst í flestum matvöruverslunum). Að auki bæti ég yfirleitt við nokkrum myntulaufum, sem ég kaupi fersk en geymi í frystinum.
Á milli mála fæ ég mér lífræna ávexti t.d. epli, banani, peru, appelsínu, melónu, vínber, jarðaber, bláber, eða þurrkaða ávexti í bland við hnetur eða möndlur, t.d. lífrænar rúsínur, döðlur eða sveskjur. Stundum fæ ég mér hrökkbrauð með harðsoðnum eggjum. Mér finnst líka gott að grípa í froosh og Lara bar. Í hádeginu langar mig yfirleitt í fisk eða kjúkling með salati og hýðishrísgrjónum (sem eru betri en hvít hrísgrjón, því þau innihalda trefjar og næringarefni. Oft borðar fólk of mikið magn af unnum vörum eins og hvítum hrísgrjónum og hvítu hveiti. Í þeim eru engar trefjar, en trefjar eru mjög hollar og hafa meðal annars þau áhrif að maður finnist maður verða saddur). Ég drekk alltaf vatn eða hreint sódavatn með mat. Það er gott að venja sig á það, í stað þess að drekka kaloríumikinn og sykraðan drykk.

Á kvöldin langar mig stundum í eitthvað og það er mismunandi hvað ég leyfi mér. En popp (þó ekki örbylgju) og sódavatn verður stundum fyrir valinu. Einnig vel ég lífrænt nammi frekar en venjulegt nammi, t.d. eru 70% og 85% lífræn súkkulaðistykki mjög góð. Það er hægt að finna fullt af góðu lífrænu nammi í heilsubúðum (eða heilsusvæðum í matvöruverslunum).
Ef það er eitthvað sem ég forðast að borða (og borða hreinlega ekki) þá eru það unnar kjötvörur, t.d. skinka, hangikjöt, pepperoni, pylsur, beikon, bjúgu, kæfur, tilbúið kjöt í pökkum, tilbúnir réttir, skyndibitar. Einnig reyni ég að sleppa matvörum sem innihalda mörg E-efni, rotvarnarefni og high fructose corn syrup.

Ég vona að sem flestir hugsi vel um sig og líkamann sinn á þessu yndislega nýja ári. Það er ótrúlega gefandi að setja sér ný og krefjandi en raunhæf markmið og ef þú hefur ekki gert það nú þegar þá hvet ég þig til þess að setjast niður og skrifa nokkur markmið á blað. Þau geta snúið að hverju sem er í þínu lífi, eins og til dæmis mataræði, hreyfingu, félagslífi, samveru með ástvinum, og svo má lengi telja. Ég fór eitt sinn á markmiðasetninganámsskeið hjá leiðtoga að nafni Robin Sharma, en ég hef lært mikið af honum. Hér kemur að lokum skemmtileg tilvitnun í hann:

„Change is hard at the beginning, messy in the middle and gorgeous at the end.
(And without change, there is no progress).“ -Robin Sharma

Höfundur: Ragna Ingólfsdóttir

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing