Um hunang


Ævagömul fæðutegund
 Í sögu flestra þjóða er hunangs getið frá fyrstu tíð. Auk þess sem það hefir verið notað til matar, var það víða ómissandi við helgiathafnir, m.a. sem hreinsiefni.
 Salómon ráðlagði mönnum að neyta hunangs, og árið 320 f.Kr. segir gríski heimspekingurinn Aristotelus ;Sá sem neytir hunangs, lauks og brauðs að morgni, mun lifa kvillalaus um langa ævi”. Hippókrates, kallaður; faðir læknisfræðinnar,  sem var uppi um 400 f.Kr., ráðlagði mönnum einnig að neyta hunangs til þess að öðlast langt og farsælt líf.
 Jóhannes skírari lifði m.a. á hunangi í auðninni, og Múhameð sagði, að hunangsflugan væri eina dýr jarðar, sem Guð hefði talað til.
Hunang var notað sem gjaldmiðill af Rómverjum hinum fornu, sem sögðu við húsmæðurnar: "Gefið eiginmönnum ykkar hunang, og þið vinnið hjarta þeirra.
 Hunang hefir fundizt í gröf í Egyptalandi, 3300 ára gamalli; það var með öllu óskemmt, að því er virtist, jafnbragðgott og daginn, sem það var sett í gröfina, ef til vill enn betra, því að hunang batnar með aldrinum, líkt og vín eru talin gera.

Hunangsbúin
Í einu hunangsbúi geta verið 60 þúsund býflugur. Drottningin er móðir þeirra allra, og aldrei nema ein drottning í hverju búi. En hún ræður þar ekki ríkjum. Hennar eina starf er að verpa eggjum. Hún nærist á blöndu frjódufts og hunangs, sem þernur hennar færa henni.
Í búinu eru aðeins nokkur hundruð karldýra, sem gegna æxlunarhlutverki. Öll vinnubýin eru kvendýr. Á unga aldri fóstra þau lirfurnar, framleiða vax til byggingar nýrra hunangshólfa, þrífa hunangsbúið, flytja óhreinindi og úrgangsefni á brott, þar á meðal dauðar flugur. Síðar taka þær að fást við söfnun hunangs.

Ein býfluga getur flutt með sér hálfa þyngd sína af hunangsvökva í hverri ferð, og það þarf 10 þúsund ferðir til að safna einu pundi. Eftir uppgufun vatns verður aðeins helmingur eftir. Flugurnar þurfa að fara 20 þúsund ferðir samtals fyrir hvert pund af hunangi, eða um 60 þús. km, og er þá miðað við, að hver ferð sé 1.5 km aðra leiðina. Ein teskeið af hunangi er ævistarf 100 býflugna.

Til þess að framleiða hálft kíló af vaxi, þurfa flugurnar að eta um 3 kg. af hunangi. Vaxhólfin eru með sex hliðum, og ef nokkru skeikar um jafna lengd á hliðum eða hornastærð einhvers hólfs, er það látið ónotað.

Næringarefni í hunangi
Aðalefni í hunangi eru sykur, um 77%, og vatn 17%. Í því er nokkurt magn steinefna, C-vítamín og nokkrar tegundir B-vítamína. Við upphitun og hreinsun eyðast vítamínin.

Útlit, bragð og aðrir eiginleikar hunangs fara fyrst og fremst eftir því, úr hvaða blómum það kemur. En það eru hvorki meira né minna en 100 þúsundir blómjurta, sem hunangsflugur geta sótt hunang til. Þeirra á meðal eru jurtir, sem vaxa undir heimskautsbaug, en þá kostar það flugurnar hálfu meira erfiði, vegna þess hve stutt sumarið er þar. Sumir telja sig hafa veitt því eftirtekt, að býin taka jurtir, sem vaxa upp af náttúrlegum áburði, fram yfir hinar, sem fengið hafa tilbúinn áburð.

Meðferð hunangsins
Þegar hunangskakan hefir verið tekin úr býflugnabúinu, er hún sett í einskonar skilvindu, sem skilur hunangið frá vaxinu. Að vísu er hunang stundum selt með vaxkökunni, því að sumir vilja fá það í fullkomlega náttúrlegu ástandi. Síðan er sjálft hunangið síað, til að losa það við óhreinindi, og hitað upp í 75°C, og þá er það síað á ný.
Upphitunin kemur í veg fyrir, að sykurkristallar myndist í því. Það er nú ekki lengur náttúrleg fæða, eins og marka má af því, að býflugur drepast, ef þær eru fóðraðar á því. Stundum er einhverjum aukaefnum bætt í hunangið.

Mengað hunang
Komið getur fyrir, að hunang mengist af eitruðum úðunarefnum, sem sprautað hefir verið yfir jurtirnar til að verja þær sjúkdómum eða lækna þær. Getur þetta valdið m.a. ofnæmiseinkennum hjá neytendum hunangsins. Sú hætta er ekki fyrir hendi, ef býflugurnar sækja hunang í blóm villtra jurta.

Hunang sem læknislyf
Frá fornu fari og fram á þennan dag hefir hunang verið notað til lækninga. Það er talið hafa sótthreinsandi áhrif; sumir læknar væta sáraumbúðir í fljótandi hunangi og bera hunang á brunasár, þar sem það dregur úr sviða og virðist flýta fyrir græðingu.
Þá er það talið gott í nýrnasjúkdómum, hafa þvagleysandi verkanir og vera blóðaukandi. Hjartasjúklingum og öðrum er ráðlagt að drekka hunangsvatn með sítrónusafa saman við fyrir svefn, og í hálsbólgu virðist það einnig gefa góða raun.

Enda þótt hunang innihaldi mikinn sykur, sem er fitandi, virðist svo sem hófsamleg neyzla hunangs örvi efnaskiptin og fitubrennslu í líkamanum og geti þannig haft heppileg áhrif til megrunar. En sem orkugjafi, sem íþróttamenn t.d. þurfa að grípa til í skjótheitum í keppni, er hunang tvímælalaust betra en þrúgusykur, sem jafnan er notaður í þessu skyni.

Lauslega þýtt úr grein eftir dr. Bernard Jensen í Lets Live.
Tímaritsgrein Heilsuvernd 5. tbl. 1971
.

Related posts

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Sterkur matur getur aukið lífslíkur

Einföld ráð að hollari næringu og bættri heilsu