Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) var stofnað árið 1937 og hefur m.a. stuðlað að því að almenningur hafi aðgang að hollum og góðum mat. Megintilgangur félagsins er ,,Að efla og útbreiða þekkingu á lögmálum heilbrigðs lífs og á heilsusamlegum lifnaðarháttum“.
Út frá þessum markmiðum tók matstofa NLFÍ til starfa 22. júní 1944 í Landfógetahúsinu að Skálholtsstíg 7. Þetta var fyrsta matstofan á Íslandi sem sérhæfði sig í grænmetisfæði. Húsið er friðað og þekkt undir nafninu Næpan (sjá mynd að neðan).
Árið 1945 festi félagið kaup á gróðurhúsum í Laugarási í Biskupstungum. Í gróðurhúsunum var lögð áhersla á að framleiða fjölbreyttar tegundir grænmetis allan ársins hring, sem ekki voru fáanlegar annarsstaðar á þeim tíma.
Markmið NLFÍ með rekstri matstofa og heilsubúða í gegnum tíðina hefur verið að:
- Bjóða upp á úrval hollra grænmetis og fiskirétta.
- Notast við lífrænt vottaðar afurðir í eldamennskunni, ekkert hvítt hveiti, enginn hvítur sykur og engin aukaefni.
- Selja lífrænt vottaðar vörur.
- Bjóða uppá matvörur án allrar erfðabreytinga.
- Efla fjölbreytni í lífrænni ræktun í samvinnu við bændur.
- Fræða landsmenn um heilbrigða lífshætti með reglulegum fræðuerindum.
Árið 1973 eignaðist NLFÍ húsið að Laugavegi 20B og var þar með skrifstofur sínar, verslun og matstofu sem mjög gott orð fór af og var vel sótt. Þetta var mikið frumkvölastarf á þessum tíma, að vera með heilsubúð og heilsuveitingastað. Heilsubyltingin sem er í gangi á okkar tíma með mikið úrval af heilsufæði, líkamsrækt, heilsubókum og heilsuveitingastöðum var ekki hafin.
Árið 1994 seldi NLFÍ húsið að Laugavegi 20B. Það var svo aftur árið 2008 að NLFÍ hóf aftur rekstur matstofu með stofnun veitingastaðsins Krúsku, sem nefnt er eftir einum vinsælasta rétti náttúrulækningamanna, grautnum Krúsku.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af fyrstu árum matstofu og heilsubúðar NLFÍ að Laugavegi 20B.
Glöð starfsstúlka í verslun NLFÍ
Mikið úrval af innfluttri hollustuvöru var í boði.
Laugavegur 20B þar sem nú er veitingastaðurinn Gló
„Næpan“ húsið sem hýsti fyrsta grænmetisveitingastað landsins.
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is
Heimildir:
www.mbl.is/greinasafn/grein/773184/
www.mbl.is/greinasafn/grein/210734/
www.natturan.is/samfelagid/efni/9460/
www.nlfi.is/jonas-kristjansson