Það koma reglulega áhugaverðar greinar úr vísindasamfélaginu tengt næringu. Þessum greinum er oft slegið upp sem heilögum sannleik á vefmiðlum heimsins og vekja oft mikla athygli og umræður á kaffistofum landsins.
Nýjasta nýtt í þessum fræðum er að neysla mandla, kakós og dökks súkkulaðis sé verndandi gegn hjarta- og æðasjúkdómum með því að m.a. að lækka hlutfall vonda kólesterólsins í blóði.
Svona næringarvísindafréttum á alltaf að taka með fyrirvara þó vissulega sé margt gott og næringarríkt í möndlum, kakói og dökku súkkulaði (m.a. mikið af andoxunarefnum). En það er ekki þar með sagt að það eigi að lifa á þessum matvörum, heldur geta þær verið hluti af fjölbreyttu fæði og geti verið mun betri kostur en sætindi, kex og kökur. Einnig eru þetta ágætar fréttir nú rétt fyrir jólin þegar mikið er borðað af þessum matvörum.
Þess ber að geta að rannsóknin er með of lítinn fjölda þátttakenda til að geta slegið þessu upp sem heillögum sannleik og það skekkir niðurstöðuna að rannsóknin er kostuð af súkkulaðiframleiðandum Hersey‘s og möndluframleiðendum í Kaliforníu.
Heimildir:
https://www.medscape.com/viewarticle/889554