Menguð matvara

Maður nokkur, sem ég þekki til, tók sér fyrir skömmu skemmtiferð til Spánar og gisti þar eina nótt á hóteli í Barcelona. Um nóttina varð hann fárveikur. Læknir var sóttur um morguninn, skoðaði manninn og gaf honum recept og fór svo. En gesturinn lá rúmfastur í hálfan mánuð, borðaði ekkert á þessum tíma og hafði aldrei hægðir; var svo fluttur rúmlægur til Kaupmannahafnar og lá þar í þrjár vikur áður en hann kæmist heim, þá enn mjög máttfarinn. Ekki verður með vissu vitað, af hverju þetta stafaði, en hann hafði borðað vænan skammt af kjöti kvöldið sem hann veiktist en daginn áður var nautaat mikið í borginni og höfðu verið drepin á leiksviðinu mörg naut, og var kvöldverð hans þangað að rekja. En nærri má geta, hvað það getur verið hollt kjöt af sumum þessum veslings dýrum, sem eru æst til grimmdaræðis og sturluð af kvölum. Mjög er líklegt, að í holdi þeirra safnist fyrir skaðvæn efni, sem heift þeirra og geðshræring valda. Ég veit dæmi þess, að heiftarreið móðir lagði barn sitt á brjóst, áður en hún hafði sefað skap sitt, en barnið snöggdó, og var þó heilbrigt áður. Og sennilegt er, að svipaðar geðshræringar valdi ekki ósvipuðum verkunum í líkama dýranna eins og þeim, sem þannig gerðu mjólkina banvæna í móðurbrjóstunum.

Það er ekki ofmælt, að vestræn siðmenning er helsjúk, hlaðin andlegu og efnislegu eitri. Það er vissulega orðinn mikill vandi að lifa, án þess að menga líkama sinn og sál einhverju eitri. Til þess þurfum vér svo sem ekki að takast ferð á hendur um fjarlæg lönd. Öll fæða, sem vér kaupum frá útlöndum, er meira eða minna eitri blandin, og stundum er eitrunin heimafengin líka. Ef rakin er slóð hvíta hveitisins t.d., þá sést, að það er fyrst svipt öllum sínum kostum sem heilnæm fæða, en síðan mengað eiturefnum til þess að koma því í verð, ˆ það er framleiðendunum fyrir mestu, en um hitt er minna hirt, þó það sé þá orðið heilsuskaðlegt. Það er sem sagt svipt sínum beztu kostum, svo sem lífefnum, steinefnum og grófefnum, en síðan litað skjallhvítt. Og þegar til brauðgerðarhúsanna kemur, er bætt í þetta mjöl efni, sem hindrar skorpumyndun á yfirborði brauðhleifanna, og er þó talið allsterkt eitur. Í sölubúðum, þar sem verzlað er með matvöru, eru allar hillur frá gólfi til lofts fullar af dósum og baukum með niðursoðnum matvörum, litarefnum og „smekkbætandi„ efnum, sem menn eru narraðir til að kaupa, og þó er þetta meira og minna mengað skaðvænum efnum.

Mikla bót mætti ráða á þessu með því að hafa vel menntaðan manneldisfræðing erlendis til þess að annast eftirlit með innkaupum á matvöru til landsins og tryggja okkur óskemmda og sæmilega vöru. Það er afskaplegt ábyrgðarleysi að leggja slíkt val í hendur mönnum, sem litla eða enga þekkingu hafa á kostum eða ókostum vörunnar eða láta annarleg sjónarmið ráða vali sínu. En þannig er þessu því miður farið. Erlendis er matvörunni skipað í flokka eftir kostum, en þeir sem viðskiptaleyfi hafa, slægjast eftir því sem ódýrast er og kostaminnst. Vér þurfum að hafa erindreka erlendis til eftirlits með slíkum innkaupum, og hann þarf að hafa staðgóða þekkingu á kostum hinnar aðfluttu fæðu.

Það er ekki sæmilegt að flytja inn í landið fæðu, sem er skemmd eða einskisvirði sem næring, eins og margar þær fæðutegundir, sem gerðar hafa verið að verksmiðjuiðnaði. Það er ósæmilegt vegna þess, að fátt ræður meiru um velferð hverrar þjóðar en sú fæða, sem hún neytir. En um þetta er ekki gott, að sjónarmið kaupsýslumannanna ráði úrslitum, því miður. Þetta ætti að vera vel launað trúnaðarstarf, sem aðeins væri falið hinum hæfustu sérfræðingum. Menn eiga að gera þá kröfu til stjórnarvaldanna, að þau sjái svo um, að ekki sé annað flutt inn í landið en kostafæða. Eitruð matvara eins og hvítt hveiti, hvítasykur, kryddvörur ýmsar o.s.frv. ætti að vera alger bannvara, og alvarlega þarf einnig að gjalda varhug við heilsuskaðlegum efnum, sem blandað er í ýms önnur matvæli, oft til að auka þeim geymsluþol eða „bæta“ útlit þeirra.

Fyrir eftirliti sem þessu hefur verið barizt í ýmsum menningarlöndum, og sums staðar hefur nokkru fengizt áorkað í því efni, enda hefur þessi nauðsyn orðið æ ríkari og augljósari undanfarin ár.

Frá því er sagt í fornum sögum, að skip komu í maðksjó, sukku og týndust í hafi. Gervimenningu nútímans má líkja við slíkan maðksjó, og einstaklingar og þjóðir mega vel fyrir sjá, að þau komi þaðan skipum sínum haffærum.

Það eru ýmsar augljósar ráðstafanir, sem vér gætum komið í framkvæmd, þegar í stað, og mundum ekki láta dragast úr hömlu, ef oss væri ljóst, hvað við liggur. Þannig ættum vér að koma á kennslu í hollustuháttum í öllum skólum landsins, þar sem börn og unglingar væru frædd um helztu lögmál heilbrigðinnar á miklu fullkomnari hátt en nú er gert og brýnt fyrir þeim mikilvægi þess að hlýða þeim lögmálum. Og það verður að fræða mæður landsins barna um það, hvað þær geta gert til að tryggja börnum sínum góða heilsu, líkamlega og andlega, þegar í æsku.

En einföldust og sjálfsögðust er sú ráðstöfun, að stjórnarvöld landsins tryggi það, að ekki sé flutt inn í landið ónýt, skemmd eða eitruð matvara, með því að fela sérfróðum manni eftirlit með innflutningi á þeirri vöru. Sú krafa má ekki þagna, fyrr en henni hefur fengizt framgengt.

Þessi grein birtist í 4. tbl. Heilsuverndar 1956.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing