Matarsalt

Efni það, sem nefnt er matarsalt í daglegu tali (klórnatríum) er myndað við samruna tveggja frumefna, sem heita natríum og klór. Þetta efni er hvítleitt, hálfglært og kristallað, létt uppleysanlegt í vatni, beiskt á bragðið og talsvert sterkt eitur, sem verkar deyðanda á allt líf; þannig nota menn það stundum til þess að eyða grasvexti, þar sem menn kæra sig ekki um að gras vaxi.

Saltið er víða að finna, fyrst og fremst í öllum sjó, og þá blandað alls kyns öðrum efnum; enn fremur í stærri og smærri stöðuvötnum, og er frægast þeirra Dauðahafið í Palestínu, og enn fremur Saltvatnið mikla í Ameríku.

Ég hygg, að vestrænar þjóðir séu eini mannflokkurinn, sem notar salt í flestan mat, til þess að forðast, að maturinn verði bragðdaufur, sem svo er kallað. Það má heita, að þær salti nær allan mat, a.m.k. þann sem soðinn er, og þannig eru flestar fæðutegundir þeirra matreiddar. Þær hafa gleymt því, að öllu lífi er eðlilegast að neyta fæðu sinnar ósoðinnar og að eldhitun á sök á því, að fæðan deyr og getur þar af leiðandi ekki gegnt sínu hlutverki á sama hátt og áður, á meðan menn borðuðu mat sinn lifandi. Allt sem lifandi er, gerir kröfu til lifandi fæðu. Og soðin fæða er svipt einum dýrmætasta kosti sínum, þeim að vera lifandi. Sama á við um saltaða fæðu. Saltið er deyðandi efni, og með því að salta matinn er verið að lífeyða hann, deyða hann. Með þessu er unnið hið mesta óhappaverk. Líf verður að nærast á lífi, eða lifandi fæðu. En gegn þessu lögmáli brjóta engir freklegar en Vesturlandabúar.

Vilhjálmur Stefánsson mannfræðingur, sem manna bezt hefur kynnt sér lifnaðarhætti Eskimóa, segir frá því, að þeir noti ekki salt í neinni mynd til matar og telji það eitur. Vilhjálmur og hans menn voru því öruggir um kjötbirgðir sínar fyrir þeim, hvar sem þær voru eftir skildar, ef þeir höfðu stráð örlitlu salti í þær; en Eskimóar eru sósíalistar og það eru óskráð lög meðal þeirra, að þeir mega neyta fæðu, hvar sem hún er geymd, en ekki bera neitt burt, og halda þeir þessi lög gaumgæfilega í heiðri.

Saltið er notað til lækninga, en aðallega til þess að dæla upplausn af því inn í blóðið, sem inniheldur jafnmikið saltmagn og blóðið sjálft. Það er náttúrleg, lífeðlisleg upplausn og ósaknæm. Hins vegar getur líkaminn ekki notað sterkari saltupplausn en hina lífeðlislegu upplausn. Líkaminn er þannig gerður, að blóðið sjálft berst ekki inn í frumuna, heldur eru milli blóðs og frumu tvær örþunnar himnur, sem ógjarna sleppa matarsalti í gegn um sig. Í gegn um þessar himnur síast næring og ildi úr blóðinu til frumunnar, en ekki blóðið sjálft hindrunarlaust. Og úrgangsefni, sem myndast í frumunni við starf hennar, síast sömu leið til baka út í blóðið. Sé nú mjög mikið af salti í blóðinu er hætt við, að eitthvað af því berist inn í frumuna. En ef svo fer, verður fruman sjúk og óstarfhæf. Í frumunni eru hin eðlilegu starfsefni kalium og fosfór eins og natríum og klór tilheyrir eðlilegri samsetningu blóðsins. Fruman þolir hins vegar ekki natríum, það er skaðlegt eitur fyrir hana og hún verst því efni eftir föngum, en varnir hennar geta brostið, ef of mikið af matarsalti safnast fyrir í blóðinu. Svitamyndun getur þá stöðvazt og blóðrásin orðið svo kyrrstæð í háræðunum að frumurnar verði sjúkar og lífsorka mannsins taki að þverra.

Ég drap á, að vesturlandaþjóðir notuðu einkum mikið af salti í daglegu fæði sínu. Þetta getur gengið að vissu marki, en lengra ekki. Nefna má sem dæmi, að á þeim árum, þegar Englendingar tóku að nytja Nýfundnaland og hin auðugu fiskimið þess sér til hagsbóta, leið ekki á löngu unz saltaður fiskur varð aðalfæða frumbyggjanna. Afleiðing þessa varð geysileg ásókn berklaveikinnar, svo að horfði til landauðnar um skeið. Svipað hefur átt sér stað á Grænlandi, að berklar hafa ætlað að drepa þjóðina eftir að neyzla á salti, tóbaki og allskonar dauðum fæðutegundum kom til sögunnar.

Og hvað hefur gerzt og hvað er að gerast hér á Íslandi, eftir að vér hófum neyzlu á saltfiski ásamt alls kyns innfluttri gervifæðu í stað hins forna íslenzka matar? Ekki annað en það, að þjóð vor hefur verið hrjáð af allskonar hrörnunarkvillum, sem rekja má til neyzlu þessarar dauðu fæðu. Ljósasta dæmið um þetta er hinn ægilega hraði vöxtur krabbameins, en dánartalan af völdum þess hækkaði á árunum 1935-1950, eða á einum 15 árum, úr 152 upp í 204. Hve lengi má halda áfram á þessari braut?

Ég veit vel, hvað þessu veldur og hef oft bent á það. Það eru eiturnautnir og ónáttúrleg og dauð fæða. Til dæmis hvítt hveiti, hvítur sykur, hvít og hýðislaus rísgrjón, og hafragrjón, sem kímið er drepið í með eldhitun áður en þau eru völsuð. Þar við bætist svo allt sælgætið og óhófleg saltnotkun í allan mat, jafnvel vatnið sem kartöflurnar eru soðnar í. Með þessu háttalagi eru flestar þær fæðutegundir, sem vér leggjum oss til munns, steindrepnar og sviptar öllum lífefnum, áður en vér neytum þeirra. Og þar með er lagður grundvöllurinn að öllum þeim sjúkdómum, sem á oss herja. Þar á matarsaltið sinn þátt, og ekki hvað minnstan.

Til þess að rekja þann feril, get ég bent á atburð, sem átti sér stað, er ég var 11 ára. Ég vissi þá að vísu ekki orsakasamhengið, en það átti eftir að liggja ljóst fyrir mér síðar. ˆ Það var verið að hirða síðasta flekkinn af túninu heima; vinnumaður, sem hjá okkur var, kastaði heyinu, og tók ég eftir því, að hann stakk við, er hann gekk. Eins og forvitinn unglingur spurði ég hann, hvort honum væri illt í fæti. Já, honum var illt í hné ˆ og hann fletti upp annarri buxnaskálminni og leit á hnéð. Ég sá að mikill roði var yfir allri hnéskelinni og í miðju hennar var svartur púnktur eins og strá hefði stungizt inn í hnéð. Það skipti svo engum togum að hann varð að leggjast í rúmið og var þá með stunum og jafnvel hljóðum. Læknir var þegar sóttur. Það var hómópati og gaf lyf sem merkt voru A, B, C, o.s.frv. Sjúklingurinn átti að taka viss númer og hafa heita vatnsbakstra við hnéð. En þetta varð ógurleg ígerð. Leit svo út sem drep hefði hlaupið í allt lærið, svo að það grotnaði í sundur með illri lykt, sem bar um allan bæinn, og var þó sjúklingurinn einangraður. Var átt viðtal við lærðan lækni um þetta og gaf hann ekki önnur ráð en þessi, að hafa heita bakstra við hnéð og einhver sótthreinsandi lyf. Sjúklingurinn lifði um tveggja mánaða tíma og dó þá úr þessu.

Samtímis komu fram lík sjúkdómstilfelli um alla mið-Húnavatnssýslu og dóu allmargir menn úr þessum sjúkdómi, þar á meðal merkismaðurinn Þorsteinn á Haukagili. Þannig var um marga menn, sem fengið höfðu einhverja ákomu á hendur eða fætur, að það gróf í þessu, og margir báru þau örkuml ævilangt. Konur, sem börn ólu á þessu tímabili, fengu barnsfararsótt og dóu úr henni.

Mér er þessi tími sérstaklega minnistæður vegna þess, að móðir mín fæddi barn þetta haust; fæðingin gekk vel, en hún fékk barnsfararsótt og dó úr henni. Læknir var sóttur og sagði hann, að við þessu væri ekkert hægt að gera úr því sem komið væri. Heimilið væri gegnsýrt af rotnunareitri og það væri orsökin. Það eitt hefði getað bjargað konunni, að hún hefði verið flutt á bæ, þar sem veikinnar hefði ekki orðið vart. Ég verð ekki svo gamall að ég gleymi þessu. Við vorum níu systkinin, það elzta á þrettánda ári og það yngsta nýfætt. Móðir okkar neytti síðustu krafta sinna til að kveðja okkur og biðja guð að blessa okkur og föður okkar.

Mörgum getum var leitt að orsök þessarar bólguveiki, sem á læknamáli kallast „phlegmona diffusum„. Og það er ekki fyrr en á síðari árum, að mér varð ljós hin rétta orsök þessarar ígerðarsóttar, en hennar varð sem áður segir vart á flestum heimilum í mið-Húnavatnssýslu, en ekki utan þess svæðis, og þótti þetta næsta einkennilegt. En haustið áður hafði skip frá Blönduósi lagt þaðan úr höfn hlaðið saltkjöti. Það fékk á sig geysilega stórhríð á fyrsta degi, hrakti inn á Þingeyrarsand og strandaði þar.

Vegna þess að skipið rak upp í sand varð mannbjörg. Skipið liðaðist í sundur og eitthvað af kjöttunnunum sprakk. Allt, sem nokkurs var nýtt, var selt á uppboði. Höfðu bændur samtök um kaup og fengu kjötið á afar lágu verði, sumir tvær tunnur, og töldu sér happ í. En það reyndist ekki svo. Þegar tunnurnar voru opnaðar, var salthella ofan á hverri tunnu, auk þess sem kjötið sjálft var mikið saltað. Varð það ráð flestra, að geyma kjötið til næsta sumars og borða það helzt um sláttinn. Ég heyrði ekki annars getið en að kjötið hefði verið étið, þótt slæmt þætti.

En strax um réttir kom upp hin geysilega bólguveiki, sem lýsti sér þannig eins og áður segir, að ef einhver hafði sár á fæti eða hendi, varð úr því þrálát ígerð, svo að margir urðu fatlaðir af þessum sökum en aðrir biðu bana.

Og það kynlega við þessa bólguveiki var þetta, að hún gekk aðeins á því svæði, þar sem menn höfðu neytt saltkjötsins úr hinu strandaða skipi. Það hefði líka orðið mikið mannfall, ef hún hefði náð sér víðar niðri.

Þetta er nú mjög í gleymsku fallið, svo mikið sem um það var rætt á sínum tíma og svo mörgum getum sem leitt var að orsök þessarar veiki. En mér standa þessi atvik skýrt í minni og gleymi því aldrei, er ég heyrði Júlíus lækni Halldórsson á Klömbrum segja, að barnsfararsóttin, sem dró móður mína til dauða, hefði stafað af eitrun frá þessari bólguveiki. Orsakasamhengið á milli hennar og saltkjötsneyzlunnar á því svæði, sem veikin gekk, varð mér loks ljóst fyrir nokkrum árum.

Saltið er eitt hið viðsjárverðasta eitur, sem til er. Neyzla þess dregur úr lífsorkunni og veldur því, að algengir sýklar verða henni yfirsterkari. Þannig hefur berklaveiki orðið ólæknanleg, ef menn neyta saltaðrar fæðu, ekki sízt saltkjöts. Gerson læknir hefur sannað þetta. Honum hafa reynzt berklar ólæknandi á meðan saltaðrar fæðu er neytt. Hann hefur einnig nýlega kveðið upp sinn dóm um krabbameinið, og telur það umfram allt manneldissjúkdóm, og varar sérstaklega við því, að saltneyzla geti átt allmikinn þátt í myndun þess og vexti. Og að svipaðri niðurstöðu hefur frú Nolfi læknir komizt, en henni hefur í ýmsum tilfellum tekizt að halda myndun krabbameins í skefjum eða lækna það að fullu.

Fátt er þó svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Saltkjöt getur í bili komið í veg fyrir hitaslag, ef menn hafa svitnað geysilega, en ekki gætt þess að drekka nægilega mikið vatn. En samt eru þetta eiturverkanir, sem bezt er að vera laus við, og drekka heldur meira af vatninu.

Þessi grein birtist í 4. tbl. Heilsuverndar 1955.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi