Nýlega skrifaði ég grein hér á vefinn um hvað íslenskt þjóðfélag hafi verið miklu heilsusamlegra fyrir 40 árum því neyslan og tæknin voru minni. En vert er að benda á það jákvæða sem hefur átt sér stað í heilsueflingu landsmanna undanfarna áratugi.
Reykingar eru nánast horfnar úr íslensku samfélagi
Árið 1989 reyktu um þriðjungur Íslendinga en í dag er þessi tala komin í um 7%. Það var ótrúlega mikið reykt á Íslandi fyrir 40 árum t.d. var mikið um óbeinar reykingar í bílnum, veitingastöðum, opinberum byggingum og það var meira að segja hægt að reykja í flugvélum. Mjög skondið að vera í „reyklausu“ sæti í flugvélum sem reykt var í.
Það er frábær árangur sem við höfum náð í því að draga úr reykingum og er lungu landsmanna mun heilbrigðari fyrir vikið.
Það má svo spyrja sig í þessum mikla sigri gegn reykingum hvort nikótínpúðar sem mikið eru notaðir á Íslandi (sérstaklega af yngri kynslóðinni) í dag séu mun betri kostur en það er rannsóknarefni framtíðarinnar.
Meira framboð og neysla af ávöxtum og grænmeti
Fyrir 40 árum var lítið framboð af ávöxtum og grænmeti. Það var vissuleg nóg af kartöflum og rófum með kjötinu og fisknum hér áður fyrr.
Ávextirnar sem voru til á mínu heimili voru aðallega epli, appelsínur og bananar, þó var ekki mikil neysla á þessum ávöxtum.
Ég man að ég fór reglulega með Binna afa mínum á haustin að taka upp kartöflur sem hann ræktaði í garði rétt fyrir ofan Hafnarfjörð (þar sem Áslandið er núna).
Í dag erum við ein ríkasta þjóð í heimi ef maður skoðar úrvalið af ávöxtum og grænmeti í matvörubúðum nútímans.
Ég man þegar kíví ávöxturinn kom á markað, það var stórskrítinn og skemmtilegur ávöxtur. Í dag fást líka ástaraldin, gunbana, kiwano, kaki, rambutan, granataepli, drekaávöxt og fl.
Það er stórmerkilegt að þessi eyja í Norður Atlandshafi, sem við búum á getum boðið upp á allt þetta úrval ávaxta og grænmetis.
Vatnsdrykkja hefur aukist gríðarlega
Í landskönnun á mataræði Íslendinga árin 2019-2021 kom fram að vatn og sótavatn er algengasti drykkur Íslendinga og neytum við um 870 ml (4 glös) að meðaltali á dag.
Árið 1990 drukkum við að meðaltali 213 ml (1 glas) af vatni á dag og var vatnið í fjórða sæti á eftir kaffi, nýmjólk og gosdrykkjum.
Þetta eru ótrúlega gleðilegar tölur og við megum vera stolt af þessu. Það þarf varla að taka það fram að vatnið er hollasti drykkur sem við getum neytt, það er okkar lífsins vökvi. Hins vegar er ekki ráðlagt að drekkja sér í vatnsdrykkju og drekka mikið meira en 8 vatnsglös á dag, nema við sérstaklega mikið svitatap.
Konur mega vera sterkar (og heilbrigðar)
Fyrir 40 árum var í tísku að konur væru þvengmjóar og fegurðarsamkeppnir voru mjög vinsælar. Í dag vex upp kynslóð kvenna/stelpna sem geta verið sterkar og um leið heilbrigðar.
Við Íslendingar eigum orðið íþróttakonur á heimsmælakvarða í crossfit, ólympískum lyftingum og kraftlyftingum sem við getum vera mjög stolt af. Þessar konur eru að mínu mati mun flottari fyrirmyndir en Twiggy var fyrir áratugum. Það er vonandi að nýja slagorðið í heilsueflingu kvenna sé „strong is the new skinny“ eða „ sterk er hin nýja mjóna“.
Eldri borgarar eru mun heilbrigðari í dag
Eldri borgarar í dag (+ 67 ára) eru mun hressari og virkari en þeir voru fyrir nokkrum áratugum. Framboð af hreyfingu og félagsskap fyrir eldri borgara er mun meira en það var áður t.d. sundleikfimi, félagsstarf eldri borgara, Janus heilsuefling og gönguhópar.
Unglingadrykkja hefur dregist mjög mikið saman
Unglingar í dag drekka mun minna en unglingar fyrir nokkrum áratugum. Samkvæmt nýjustu rannsóknum hafa 5,4% 10.bekkinga orðið ölvaðir sl. 30 daga. Þessi tala var geigvænlega há árið 1998 eða heil 42%.
Þegar ég var í framhaldsskóla í Flensborg á árunum 1991-1995 var sérstakt „dauðaherbergi“ fyrir utan framhaldsskólaböllin þar sem ofurölvi nemendur voru látnir sofa úr sér. Sem betur fer höfum við ná að stemma stigu við þessari unglingadrykkju.
Við tölum um andlegu heilsuna okkar og leitum leiða til að efla hana
Á árum áður var lítið unnið með andlegu heilsu fólks, það var talið veikleikamerki að vera eitthvað að væla um sálarástand sitt.
Það er sorglegt að þurfa að fara í felur með sín andlegu mein, sem verða bara enn stærri ef við vinnum ekki í þeim. Okkur fannst sjálfsagt að fara á spítala með fótbrot og krabbamein en hvers vegna ekki að leita að bata þegar sálin er „brotin“?
Í dag er það sem betur fer ekki tiltökumál að vera sækja reglulega tíma hjá sálfræðingi, geðlækni, núvitundarnámskeið eða aðrar sálareflandi meðferðir til að styrkja sína andlegu heilsu og vinna úr andlegum áföllum.
Framboð á markvissri hreyfingu hefur aukist mikið og fjölbreytni mikil
Fyrir nokkrum árum var lítið um líkamsræktarstöðvar og framboð á markvissri hreyfingu. Í dag eru líkamsræktarstöðvarnar mjög margar og eru valmöguleikar á hreyfingu nær óendanlegir. Má þar nefna zumba, crossfit, hlaupahópa, fjallgönguhópa, sundæfingar, hjólahópar, jóga, mjölnir, metabolic, bootcamp, primal, heimaæfingatæki, klifur, fimleikar og eiginlega bara hvað sem hugurinn girnist í hreyfingu.
Ljósabekkjanotkun er á miklu undanhaldi
Sem betur fer fyrir húðheilsu okkar er ljósabekkjanotkun ekki jafn töff og áður. Það megum við þakka fræðslu um skaðsemi ljósabekkja.
Mælingar á ljósabekkjanotkun hófust árið 2004 og höfðu þá um 30% fullorðinna notað ljósabekki síðustu 12 mánuði, þetta hlutfallið var komið niður í 6% árið 2021.
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjóri@nlfi.is
Heimildir:
https://island.is/lydheilsuvisar
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3349#
https://rannsoknir.is/wp-content/uploads/2022/04/Ungt-Folk-8.-til-10.-bekkur-2022-Landid.pdf
https://rannsoknir.is/
https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Heilsuefling%20aldra%C3%B0ra%2014012021.pdf
https://www.krabb.is/starfsemi/frettir-og-tilkynningar/ljosa-bekkja-notkun-i-sogulegu-lagmarki
https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/6jd7FglMZRiFY7sLZgRFdP/869c946fd191584b98829650d7380938/Hva___bor__a___slendingar_2002.pdf
https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/28GDtZKNzXS60MnShwjonC/53f9e755326f68fb44021e29286a8053/Hvadbordaislendingar_vefur_lok_uppf__rt_nov22.pdf
https://downloads.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/5YiTAdCMccIKGGzyfeDsjr/eb2e26677d823eb9752a918547890eb6/K__nnun____matar____i___slendinga_1990._1._Helstu_ni__urst____ur.pdf