Litið um öxl og fram á leið

Árið 1939, hinn 24. jan., var Náttúrulækningafélag Íslands stofnað af hóp manna hér í Reykjavík. Í fyrstu var það litið smáum augum og haft að skopi. En síðan hefir mönnum smámsaman farið að skiljast, að tilgangur og starfsemi þess er ekki þýðingarlítill fyrir einstaklingana og þjóðina í heild, jafnvel að hér er um þýðingarmeira mál að ræða en nokkurt annað. Sigur eða ósigur félags vors í málefni því, er það berst fyrir, þýðir hvorki meira né minna en það, hvort þjóð vor á að verða öndvegisþjóð eða úrkastsþjóð, sem enginn virðir eða metur. Og nú spyr ég yður, þér ungu menn og konur, sem hafið framtíð og velfarnað þjóðar vorrar í yðar hendi: Í hvora þessara metaskála viljið þér leggja yðar lóð?

Hér segi ég yður stutta sögu, sem gæti orðið löng. Fyrir fullum 2500 árum fæddist í Grikklandi ljóshærður og fagur sveinn. Hann varð brátt beinvaxinn og hár unglingur, sem bar af flestum jafnöldrum sínum að vexti, fegurð og greind. Faðir hans fékk honum hina lærðustu kennara, sem kostur var á. En þeir játuðu brátt, að hann hefði á stuttum tíma numið allt það, er þeir vissu, og jafnvel meira til. Var pilturinn, sem skírður hafði verið Pythagoras, þá sendur til Egyptalands. Þar lærði hann á skömmum tíma stærðfræði, sem þar stóð í mestum blóma. Þaðan leitaði hann sér fræðslu og þekkingar austur á bóginn. Er talið, að hann hafi um allmörg ár dvalið austur á Indlandi og lært þar yogafræði. Að austan hvarf hann heim sem fullþroskaður, alvörugefinn maður. Hann stofnaði heimspekiskóla meðal grískumælandi þjóða. Þar kenndi hann stærðfræði, stjörnuvísindi og ennfremur þau fræði, sem vér nú köllum náttúrulækningar. Sjálfur var hann jurta- og ávaxtaæta, borðaði aldrei kjöt né fisk og lifði einföldu og óbrotnu lífi. Hann var og hinn ákveðnasti friðarvinur. En þetta var meira en heimskir og skammsýnir menn þoldu. Hann var ofsóttur og varð að flýja úr einum stað í annan. Pythagoras var einn merkilegasti maður fornaldar. Sókrates var lærisveinn hans, en hann kenndi Plató.

Pythagoras var fyrsti stofnandi náttúrulækningastefnunnar. Hann dó 97 ára gamall. En lífernishreinleiki hans lifði hann og hefir lifað allt til vorra daga. Nú er þessi stefna aftur tekin að blómgast meðal frjálslyndra þjóða. Þeir sem hæst hafa borið merki hennar síðustu áratugina, eru m.a. Kellogg í Ameríku, Sir Arbuthnot Lane í Englandi, Bircher-Benner í Sviss, Brauchle og bræðurnir Just í Þýzkalandi, Waerland í Svíþjóð og Hindhede og frú Nolfi í Danmörku. Margir alþýðumenn eða leikmenn hafa einnig kvatt sér hljóðs um þessi mál og talað um þau af ekki minni þekkingu og skilningi en sjálfir læknarnir.

Engum, sem kynnir sér heilbrigðismálin, getur dulizt, að hrörnunarkvillar hafa að undanförnu verið í hröðum vexti meðal allra menningarþjóða. Svo er jafnvel komið, að í iðnaðarhverfum stórborga Englands voru í heimsstyrjöldinni síðustu aðeins 30% af mönnum á herskyldualdri tækir í herinn. Hinir allir dæmdust óhæfir, vegna allskonar líkamlegra og andlegra annmarka, og margir þeirra voru spítalamatur, sem kallað er. Hinsvegar sýndi það sig, að þegar mataræði þessara manna var bætt, hvítt hveiti tekið af þeim, hvítur sykur að mestu, kjötskammtur minnkaður, en mjólk, grænmeti og ávextir aukið, urðu margir þeirra eftir nokkurn tíma tækir í herinn.

Þetta talar sínu máli um orsakir hrörnunar og úrkynjunar. Og meðan vér ekki snúum oss að því að útrýma þeim, erum vér að berjast við sjálfa oss, eyðileggja með vinstri hendinni, þar sem hin hægri vinnur. Þetta gerum vér með því að berjast við afleiðingar einar, en höldum jafnframt áfram að framleiða orsakirnar. Vér höldum áfram neyzlu dauðrar og deyðandi fæðu, byrlum oss eitur með tóbaki, áfengi, kaffi, coca-cola o.s.frv., og svo taka sjúkrahúsin og læknarnir við þeim, sem falla óvígir í valinn, en ekkert er hirt um að koma í veg fyrir, að leikurinn endurtaki sig. Með slíkum starfsaðferðum er það gefinn hlutur, að hrörnunarsjúkdómarnir vaxa eins og til þeirra væri sáð. Hve lengi á þetta svo til að ganga? Hvernig verður heilsufar þjóðarinnar eftir 50 eða 100 ár með sama áframhaldi niður á við, og verið hefir frá því t.d. um 1890, þegar sykursýki, botnlangabólga og skjaldkirtilbólga þekktust varla eða ekki og krabbamein, heilablóðfall, hjartasjúkdómar, tannveiki og ýmsir aðrir hrörnunarsjúkdómar voru hlutfallslega miklu fátíðari en nú? Mér ægir við að hugsa þá hugsun til enda.

En er þá engin leið út úr þessum ógöngum? Jú, vissulega. Það er sú lífsstefna, sem kölluð er náttúrulækningastefnan. Þessi lífsstefna er fullkomin heilbrigði allra, byggð á útrýmingu þeirra orsaka, sem valda sjúkdómum og vanheilsu. Þetta má vel takast, ef vér erum samhuga um nauðsyn þess.

„Sundhed er sandhed,“ segir danskt spakmæli. Heilbrigði er sannleikur. Heilbrigði er hin eina sanna leið til velfarnaðar og vaxandi þroska.

Eg þykist, í mínum þrönga verkahring sem læknir, hafa séð það, svo að ekki verður um villzt, að létt er að koma í veg fyrir flesta þá menningarkvilla, sem á oss sækja. Til þess þarf ekki annað en þekkingu, samfara siðferðislegum þrótti. Alexis Carrel sagði, að læknisfræðin sæti inni með þá þekkingu, sem nægja mundi til þess að útrýma flestum sjúkdómum. En hann efaðist um, að vér réðum yfir þeim siðferðislega þrótti, sem til þess mundi nægja. Svo mikið er víst, að þetta hefir ekki tekizt enn, og oss hrekur æ lengra úr leið og inn í skerjagarð ófarnaðar, ef vér höfumst ekki að.

Vér stöndum einmitt nú á þeim sjónarhól, þar sem vér getum séð hið fyrirheitna land betri og fullkomnari heilbrigði. Og það er betra að vera kallaður ofsatrúarmaður en að missa trúna á mátt hins góða í lífinu og eitra sjálfan sig með tóbaki, áfengi og öðrum eiturtegundum og kalla sig rétttrúaðan. Að svo miklu leyti sem náttúrulækningastefnan er trúarstefna, þá er hún jákvæð trú og uppbyggjandi, trú á heilbrigði og samræmi, en hinsvegar leiðir dýrkun eiturnautnanna og trúin á sjúkdómana til ótímabærrar hrörnunar og dauða fyrir aldur fram, þótt það að vísu komi ekki yfir oss eins og atómsprengja.

Náttúrulækningafélag Íslands hefir lengi haft í hyggju að koma upp heilsu- eða hressingarhæli, enda er það einn liðurinn í stefnuskrá þess. Nýsköpun er orð á hvers manns vörum. En með þessu er aðeins átt við nýrri og fullkomnari tæki til fjáröflunar. Hinsvegar er ekkert hirt um nýsköpun þeirra, sem stjórna eiga þessum nýju og fullkomnu tækjum. Höfum vér ráð á því að fela stjórn hinna dýru nýsköpunartækja mönnum, sem eru á hrörnunarleið vegna þekkingarleysis á sjálfum sér og réttum lifnaðarháttum? Heilsuhæli, sem veitir mönnum varanlega heilsubót og kennir þeim jafnframt heilbrigðar lífsvenjur, er bezta ráðið til nýsköpunar á heilsu manna.

Það er ömurlegt að geta ekki hjálpað þeim mönnum, sem lent hafa í skipbroti menningarinnar. Heilsuhæli vort á að verða sá lífs- og lifnaðarháttaskóli, sem allir landsmenn eiga aðgang að og bjargar mönnum frá því að brjóta bát sinn á skerjum sjúklegrar hrörnunarmenningar. En þau skipbrot eru orðin tíðari en öll önnur skipbrot.

Með samtökum góðra manna hefir verið komið upp víðtækum vörnum gegn slysum á sjó og landi. En er minni þörf á vörnum gegn slysum af völdum þeirra lífshátta, sem svipta jafnvel nýfædd börnin dýrmætasta fjársjóði lífsins, heilsunni? Í stað heilbrigði rækta menn sjúkdóma í börnum og unglingum, með óhollri næringu, óheilnæmum lífsvenjum og sjúklegu andlegu uppeldi.

Það kann að þykja í mikið ráðizt, að byrja á byggingu heilsuhælis, sem hlýtur fullbyggt að kosta milljónir króna. En vér höfum fulla ástæðu til að vera bjartsýnir og vongóðir um stuðning almennings í þessu mikla þjóðþrifamáli. Félag vort hefir, á þessum fyrsta áratug ævi sinnar, komið ýmsu góðu til leiðar og aflað sér vinsælda og velvildarhugs mikils fjölda manna. Þökkum vér innilega þann vinarhug og alla þá miklu hjálp, sem vér höfum þegar orðið aðnjótandi og ber vott um vaxandi skilning á mannbótaviðleitni vorri. Vegna þessa skilnings og örlætis er heilsuhælismálið þegar komið á þann rekspöl, að félagið hefir eignazt heila jörð með nægu heitu vatni og öllum hinum ákjósanlegustu skilyrðum fyrir væntanlegt hæli, í einni fegurstu sveit Suðurlands. Og auk þess er nokkurt fé í heilsuhælissjóði, sem ákveðið er að verja þegar á þessu ári til byrjunar á byggingu hælisins, í fullu trausti þess, að landsmenn bregðist vel við og stuðli að því, eftir efnum og ástæðum, að verkið þurfi ekki að stöðvast, svo að brátt rísi upp vísir að hæli. Og takmarkið á að vera það, að innan fimm ára verði komið upp fullkomið hæli, sem geti síðan stækkað og aukizt eftir þörfum. Þetta áform verður prófsteinn á sigur lífsins, og um leið prófsteinn á það, hve mikið er enn eftir af trúnni á sjúkdóma og dauða fyrir aldur fram.

Á heilsuhæli voru verður fyrst af öllu brýnd fyrir mönnum trúin á heilbrigðina, trúin á sigur lífsins yfir sjúkdómum og dauða. Það er boðskapur alföður. Öllum lífverum er innblásin trúin á lífið.

Ef menn vilja sýna félaginu einhvern vináttuvott á þessum tímamótum í ævi þess, geta þeir það á engan hátt betur en þann, að styrkja heilsuhælismálið, sem vafalaust verður stærsta verkefni félagsins næstu fimm til tíu árin. Eg skil ekki í, að nokkur maður eða kona geti varið fé sínu betur en til þess að flýta framgangi þessa máls, sem varðar svo miklu fyrir heilsu og sjálfstæði þjóðarinnar.

Þessi grein birtist í 4. tbl. Heilsuverndar 1948.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi