Læknar skeri upp herör gegn sykri og sælgæti..

Í 5. hefti Heilsuverndar árið 1976 var frá því sagt, að á aðalfundi Læknafélags Íslands það ár hefði verið samþykkt tillaga frá Bjarna Bjarnasyni lækni um ráðstafanir gegn reykingum, með áskorun til ýmissa aðila í sjúkrahúsum, skólum, sjónvarpi, útvarpi og til foreldra varðandi takmörkun reykinga. Nú nýlega hefir stjórn Læknafélags Íslands fylgt þessu eftir með auglýsingum í útvarpi.
Þetta er mjög lofsvert, og læknum sjálfum má segja það til hróss, að meðal þeirra hefir dregið úr reykingum, eins og m.a. má sjá á fundum þeirra og ráðstefnum.

En í þessu sambandi vaknar sú spurning, hversvegna læknar hefja ekki samskonar áróður gegn öðrum heilsuspillandi venjum? Á ég þar sérstaklega við sykur- og sælgætisát barna og fullorðinna. Þar hafa tannlæknar að vísu haldið uppi fræðslustarfsemi um margra ára skeið, og vafalaust hefir hún einhvern árangur borið. En ekki verður séð, að dregið hafi úr sykurneyslu hér á landi, eins og greinilegt er um neyslu tóbaks.

Það þykir kannski tekið djúpt í árinni að fullyrða, að þjóðinni stafi meiri hætta af sykrinum en tóbakinu. En lítum á nokkrar staðreyndir.

1. Sykurinn er aðalorsök tannskemmda, sem þekktust ekki fyrr en farið var að flytja inn sykur. Í kjölfar tannátu koma fleiri sjúkdómar.

2. Sykur er einhæfasta fæðutegund sem til er, um 100% kolvetni. Sykurneysla hér á landi nemur einum fimmta af allri fæðutekju landsmanna. Afleiðingin verður vöntun vítamína og fleiri næringarefna. Ennfremur tregar hægðir, offita, sykursýki og fleiri sjúkdómar.

3. Neysla tóbaks byrjar ekki fyrr en á unglings- eða fullorðinsaldri sem nokkru nemur. En sykurát hefst þegar í vöggu og byrjar að grafa undan heilsunni á viðkvæmasta aldursskeiði mannsins.

Nánar verður þetta ekki rakið hér. En þetta ætti að nægja til að sýna, að ekki er síður þörf á að vara fólk við sykri, sælgæti og gosdrykkjum en tóbakinu. Komi slík aðvörun frá samtökum lækna yrði meira mark á því tekið en á nokkrum útvarpserindum, hversu góð sem þau eru. Og hvergi ætti slíkur áróður betur heima en í barna- og unglingaskólum. Jafnframt því sem læknasamtökin birtu greinar og auglýsingar í blöðum, sjónvarpi og útvarpi, þyrfti að hvetja börnin og unglingana til að taka málin í sínar hendur eins og þau hafa svo röggsamlega gert varðandi reykingar, og skera þannig upp herör gegn mesta meinvætti íslenskrar æsku.

Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 2. tbl. 1978, bls. 31-32

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing