Krabbamein læknað með mataræði

Ég útskrifaðist sem læknir árið 1907 og vann síðan í sjúkrahúsum um 12 ára skeið, síðustu 3 árin sem fyrsti aðstoðarlæknir við þekkt sjúkrahús í Kaupmannahöfn. Sjúkrahúsafæðið reyndist mér ekki betur en svo, að eftir 6 ár var ég komin með blæðandi magasár.

Árið 1926 verður þess fyrst vart í Danmörku, að menn fara að lifa eingöngu á ósoðnum mat – eða á hráfæði. Ég gerði tilraun með þetta mataræði á sjálfri mér og varð gott af. Og næstu 14 árin borðaði ég mikið af hrámeti, en samt ekki nóg, eins og síðar kom í ljós, því að jafnframt borðaði ég allan venjulegan mat.

Upp úr áramótunum 1940 og 1941 tók ég að finna til þreytu og slappleika. Mér fór að förlast minni, og það svo, að ég endurtók stundum sömu orðin við sjúklinga mína með fárra mínútna millibili. Ég var orðin þung á mér og völt í spori, og eitt sinn datt ég og fótbrotnaði af þessum sökum. Um vorið, þegar ég fór að vinna í garði mínum að vanda, gat ég ekki unnið nema stutta stund í senn, var þá orðin þreytt og varð að hvíla mig. Þessi sífellda þreyta gerði mig önuglynda og óþolinmóða. Ég braut heilann um orsökina til þessarar þreytu en gat ekki fundið hana. Mér datt í hug, að þetta væru ellimörk, en þótti það helzti snemmt.

Einn sjúklingur minn, sem sá til mín út um glugga, hugsaði með sér: „Annaðhvort er dr. Nolfi veik, eða hún er sárþreytt“. Það var áberandi þreytusvipur á andliti, augun voru dauf, jafnvel þegar ég brosti.

Í maímánuði 1941 tók ég af tilviljun eftir því, að í hægra brjóst var komið allstórt ber, á stærð við litla hnetu. Ég skeytti þessu engu, taldi víst, að allt hrámetið, sem ég borðaði, mundi vernda mig gegn krabbameini. Og svo sljó var ég og þreytt, að þetta leið mér gjörsamlega úr minni, þar til eitthvað 5 vikum síðar, að ég varð þess vör, einnig af tilviljun, að æxlið var orðið á stærð við hænuegg. Það var hart og hnútótt og vaxið fast við húðina á gómstórum bletti. Þykir læknum þetta allt öruggt merki þess, að um krabbamein sé að ræða.

Það rann nú allt í einu upp fyrir mér sú skelfilega vissa, að ég væri búin að fá krabbamein og þarna væri skýringin á slappleika þeim og þreytu, sem hafði ásótt mig svo mjög.

Mér komu aðeins allra snöggvast í hug hin venjulegu ráð, skurður, radíum eða röntgengeislar. Mér var það ljóst, að árangur af þeim var mjög vafasamur, í flestum tilfellum enginn eða aðeins gálgafrestur.

Lækningin
Ég hafði margsinnis sagt við sjúklinga mína, að ég væri viss um, að hráfæði gæti læknað krabbamein, ef byrjað væri í tæka tíð. Undanfarin 5-6 ár hafði ég notað þessa aðferð við kýlum og með góðum árangri. Og nú var tækifæri til að reyna hana við krabbameini á sjálfri mér og sýna svart á hvítu, að hægt væri að lækna krabbamein með hráfæði.
Næstu mánuði nærðist ég eingöngu á hráfæði, og auk þess var ég í sólbaði 3 klukkustundir á dag, allsnakin. Fyrstu 2 mánuðina léttist ég úr 63 kg. niður í 54 kg., en það var líkamsþungi minn á unga aldri. Ég var ennþá þreytt og sljó, en æxlið hafði minnkað dálítið.
En svo brá til bata. Ég hætti að léttast, og eftir fáeina mánuði fannst mér ég vera orðin albata. Enn er ég vel frísk, meira að segja mjög heilsugóð, fæ aldrei kvef, kenni mér einskis meins, vinnuþrek í bezta lagi og alltaf í góðu skapi. Ég borða enn eingöngu hráfæði, og smámsaman er mér farið að þykja það betra en allur annar matur.
Æxlið er horfið að undanskildu öri, sem er eins og örlítil þunn og nærri beinhörð plata undir húðinni, þar sem æxlið var gróið við hana, og er húðin dregin þar inn og myndar dæld.

Merkileg tilraun
Þegar ár var liðið frá því er ég var albata, fékk ég löngun til að reyna, hvernig fara mundi, ef ég borðaði venjulega soðna jurtafæðu jafnhliða hráfæðunni. Fyrstu mánuðina gekk allt vel, og ég varð einskis vör. En svo fór ég smátt og smátt að kenna þreytu og slappleika og verða illa fyrirkölluð. Auk þess komu stingir í örið eftir krabbameinsæxlið, en til þeirra hafði ég aldrei fundið áður. Þessir stingir komu með nokkru millibili, og ágerðust svo, að þeir urðu lítt þolandi. Ég þóttist sjá, að ég kæmist ekki hjá því að nota deyfilyf, ef þessu héldi áfram, og óttinn við hinn ægilega sjúkdóm greip mig aftur heljartökum. Verkirnir ágerðust, urðu bæði ákafari og vöruðu lengur í hvert sinn. Og eftir nokkrar vikur þótti mér nóg komið, tók aftur upp algert hráfæði eins og áður og hefi haldið við það æ síðan. Verkirnir dvínuðu og hurfu á skömmum tíma, en vinnuþrek og skaplyndi komust í samt lag.
Þetta er að vísu aðeins ein tilraun. En hún bendir til þess, að þeir, sem hafa haft krabbamein, megi ekki slá slöku við hráfæðið.

Undirtektir danskra lækna
Fyrsta verk mitt eftir að fullur bati var fenginn, var að biðja læknafélagið (Medicinsk Selskab) um leyfi til að flytja erindi í félaginu um þessa lækningu og sýna örið, en ég var auðvitað í þessu félagi. En ég fékk blákalt nei við þeirri beiðni. Þá ritaði ég grein um reynslu mína og sendi hana tímariti lækna, „Ugeskrift for Læger“. Sama svarið, greinin fékkst ekki birt þar, og jafnframt var mér ráðlagt, að birta ekkert um þetta í dagblöðum. Einum velviljuðum starfsbróður mínum tókst þó að fá birta grein um þetta í einu blaði.

Eftir þessar undirtektir ritaði ég nú lítið kver, sem ég kallaði „Þýðing hráfæðu í heilbrigði og sjúkdómum“ og seldist upp á stuttum tíma í tveimur útgáfum. Dagblöðin tóku kverinu vinsamlega, en læknablaðið réðist á mig í stuttum ritdómi um kverið, varaði við því og líkti mér við skottulækna. Þessari árás svaraði ég með stuttri blaðagrein.

(Þýtt úr „Levende Föde“).

Kirstine Nolfi dr.
Heilsuvernd, 1. tbl. 1947, bls. 13-16

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi