Jólasaga – Saddur, saddari og saddastur á aðfangadag

Nú eru nokkrir dagar í enn ein jólin.  Jólin eru hátíð ljóss og friðar. Það er vissulega mjög mikið um ljósin sem er frábært í öllu myrkrinu hér hjá á Íslandi en minna fer nú fyrir friðnum í þessu neyslukapphlaupi sem allir eru að taka þátt í.

Einnig eru jól ein allsherjarmatarveisla og hefst hún oft löngu áður en desember hefst með jólahlaðborðum og veislum tengdum jólaundirbúningi. Vikurnar fyrir jól er aðventa eða jólafasta. Jólafasta kemur úr kaþólskum sið og  fólst fastan í því að hvíla sig á öllu kjötáti. Við Íslendingar gefum nú lítið fyrir þessa föstu á aðventunni og úðum í okkur kjöti á jólahlaðborðum í aðdraganda jólanna.

Við Íslendingar erum þó duglega að halda upp á kaþólska siði með því að fanga á messu íslenska dýrlingsins Þorláks helga á, Þorláksmessu þann 23. desember. Það erum við eins og svo oft áður með því að háma í okkur kæsta skötu. En fiskineysla á Þorláksmessu fyrir kjötveisluna sem hefst þann 24. desember eru leyfarnar af jólaföstunni úr kaþólskum sið. Og það að skatan sé kæst er gamall siður að fiskurinn fyrir jól ætti helst að vera fiskur af verri gæðum.

Sjálfur tek ég fullan þátt í þessari miklu matarhátið sem jólin eru og þá sérstaklega þegar jólin hringja inn. Á aðfangadag er mikið lagt upp úr mat á mínu heimili eins og flestum heimilum á Íslandi.
Hér er lýsing á matseðlinum á mínu heimili þegar klukkan slær 18 á aðfangadag:

  • Forréttur: Þykkur grjónagrautur (búinn að vera lengi á hlóðum) með rjóma og sultu. Þetta er gamall og skemmtilegur siður úr fjölskyldu mömmu. Þetta er svokallaður möndlugrautur þar sem mandla er falin í einum af diskum fjölskyldumeðlima og vinnur sá sem fær möndluna, möndlugjöfina.
    Þegar ég var yngri þá fengu pabbi og eldri systir mín alltaf möndlugjöfina og stríddu mér oft að ég mundi nú líklega fá hana ef ég fengi mér annan eða jafnvel þriðja skammtinn af grautnum. Þau voru ekkert að segja mér smábarninu að mandlan var bara í fyrsta umgangi. Ég man ekki eftir því að hafa nokkrun tímann unnið möndlugjöfina, nema í eitt skipti sem ég frétti svo síðar að mamma hefði græjað með því lauma möndlunni í minn disk!
  • Aðalréttur: Léttreyktur lambahryggur, skipti úr hamborgarhrygg fyrir nokkrum árum (fyrir bragðið og minni bjúg daginn eftir). Með hryggnum er borðað waldorfsalat, sykurbrúnaðar kartöflur, smjörlegnar belgbaunir, heimagert rauðkál og auðvitað að gluðað vel yfir þetta allt rauðvínslegnu brúnsósunni. Ungar dætur mínar gera matarupplifun af þessu veisluborði minni, því þær geta ekki beðið eftir að opna gjafirnar og oft er setið frekar stutt að borðum með tvær pakkaglaðar telpur við borðið
  • Eftirréttur: Heimagerði Toblerone ísinn sem eiginkonan gerir og sherrýtruffle frá mömmu. Með þessu er íssósa, ískex og ber.
  • Eftir/eftirréttur: Heitt súkkulaði og nartað í nokkrar smákökur og brúna lagköku frá tengdamömmu.
  • Nóakonfekt og Mackintoshkonfekt maulað yfir kvöldið þegar verið er að lesa nýju bókina hans Arnalds.
  • Með matnum er drukkið dýrindis rauðvín og malt/appelsínblanda. Það væri sniðugra að drekka vel af vatni, vegna þess að allt saltið og reykta kjötið bindur vatn og getur hækkað blóðþrýsting.

Þegar fer að nálgast miðnætti á aðfangadagskvöldi er ég skiljanlega alveg að springa og liggur við meðvitundarleysi af seddu. Þetta er sá dagur ársins sem allar varnir í matarvali og skömmtum falla niður, Því þarna er dýrindis matur sem er ekki oft á boðstólnum.  
Allur þessi matur er ekki borðaður allur í beit og oft líður langi tími þar til eftirréttirnir eru dregnir fram.
Vert er að taka það fram að ég er með meistaragráðu í næringarfræðum og þetta eru matarvenjur, matarval eða neysla sem ég er EKKI að hvetja til, til að stuðla að heilbrigði líferni.

Það hafa margir spurt mig hví ég sé ekki með möndlugrautinn fyrr um daginn því þessi þykki grautur er eins og steinn í maga og fram undan er enn meira át af kjöti og eftirréttum. Vegna anna við að koma út gjöfum, heimsókna í kirkjugarðinn og nú síðustu árin afmæli mágs míns hefur því miður ekki tekist að koma möndlugrautnum fyrir á öðrum tíma. Það væri auðvitað snilld að hafa hann í hádeginu á aðfangadag til að létta aðeins á maganum þarna um kvöldið.
Svo er líka bara spurning hvort ekki megi sleppa möndlugrautnum? En þá koma þessar hefðir sem eru svo sterkar á jólnum. Það væru ekki jól í mínum huga ef það væri ekki grauturinn eða waldorfsalatið, tobleroneísinn og allt hitt sem ég taldi upp að ofan. En þetta er auðvitað bara rugl að það komi ekki jól án þessara hefða en það er eins og þessar hefðir séu jólin sjálf. Hver fjölskylda á Íslandi hefur sínar hefðir og ég veit að margir tengja við að það er erfitt að breyta til þegar kemur að þessum hefðum.

En alveg sama með hefðir eða ekki þá hafa flestir landsmenn gott af því að minnka magnið af matnum sem ofan í maga á jólunum.

Gleðilega hátíð og verði ykkur að góðu.

Heimildir:

https://www.thjodminjasafn.is/jol/jolasidir/jolasidir
https://www.thjodminjasafn.is/jol/jolasidir/thorlaksmessuskata

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi