Jól alla daga


Það eru rúmir tveir mánuðir til jóla og jólasmákökur og jólaölið er mætt í matvörubúðirnar. Við erum rétt búin að ganga frá gasgrillinu á svölunum þegar farið er að koma með jólakræsingarnar í búðirnar. Við sem neytendur fáum aldrei frið frá óhollustunni í okkar umhverfi. Hvar er samfélagsleg ábyrgð búðareiganda og matvælaframleiðanda þegar kemur að heilbrigði okkar? Erum við ekki alveg nógu feit þjóð, er ekki nógu mikið álag á heilbrigðiskerfinu og eigum við ekki nógu miklum vandræðum með lífsstílsstjúkdóma?

Afhverju er alltaf verið að ota að okkur óhollustu? Aðgengi að óhollustu er miklu meira en hollustu og verðið oft lægra. Mikið af matvörubúðum í dag eru uppfyllar af matvörum sem varla gæta talist matur heldur mikla frekar gervimatur sem er ekki að gera okkur mannverum neitt til að stuðla að heilbrigðara lífi.  Það eru sífelld tilboð á óhollustu s.s. kippa af 2L gosi, 50% afsláttur af sælgæti um helgar, tilboðsstandar útum alla búð af óhollustu og sælgæti við kassana. Ofan á þetta allt þá opna sífellt fleiri óhollir skyndibitastaðir og ber þá helst að nefna „vel heppnaða“ opnun Dunkin Dougnut á Íslandi.   

Ástæða þessara öfga í óhollustu er að það er hrikalega auðvelt að selja okkur almúganum bragðgóða, ódýra og girnilega gervimatinn. Við erum svo veik fyrir öllum sykrinum, fitunni og þeim kræsingum sem matvælaframleiðendum í dag hefur tekist að búa til. Gott máltæki sem tengist skyndibita er svona „ Ekki spyrja hvers vegna hollur matur er svona dýr, spyrðu frekar hvers vegna skyndibitinn er svona ódýr!“ Því miður eru til alltof margir kapitalistar í þessum heimi sem spá aðeins í að auka fjárhag sinn og veraldlegar eigur sem mest, alveg sama hvað það kostar, þó það kosti heila þjóð heilsu sína. Þeir grípa því tækifærið og framleiða endalaust af gervimat sem við erum sólgin í. Auðvitað á ekki einn gervimatvöruframleiðandinn eða innflytjandinn sök á óheilbrigði okkar…en dropinn holar steinninn.

Við erum smátt og smátt að minnka lífsgæði okkar og drepa okkur með lélegu mataræði og (svo ég tali nú ekki um hreyfingarleysis, sem er efni í annan pistil). Við eigum vissulega öflug lyf til að halda t.d. sykursýki í skefjum og öðrum sjúkdómum sem oft eru örsök óhollra lífshátta. En er óhollustan virkilega svona bragðgóð og seðjandi að við viljum setja heilsu okkar þar undir? Innst inni held ég svo sé ekki raunin. Er það eitthvað líf að vera að dæla í sig fullt af lyfjum til að halda lífi og hversu innihaldsríkt er það líf? Jónas Kristjánsson læknir og frumkvöðull skrifaði pistil um nákvæmlega þetta málefni um miðja síðustu öld, hann sagði í ritinu Heilsuvernd árið 1952 „Ræktið fullkomna heilbrigði með náttúrlegum ráðum, og sjáið, hvernig þau vinnubrögð reynast. Útrýmið hinum hættulegustu siðvenjum og háttum. Leggið niður þann ósið að gefa börnum sælgæti. Ræktið í börnum heilbrigðar hneigðir“. Í sömu grein talaði einnig um kapitalistana sem eru blindir á heilbrigðið sem er mesta auðæfið okkar Hin sjúka efnishyggjumenning er blind fyrir hinum dýrmætustu auðæfum lífsins. Hún sækist eftir fjármunum, sem menn nota að vísu oft til gagns og góðs, en eins oft til þess að spilla sjálfum sér, skapa sér óhollar nautnir og til þess að stytta sitt eigið líf. Fjármunir eru á skáldamáli kallaðir Fáfnisarfur, eftir ormi, sem lá á gulli. Hinsvegar er auður fjár afl þeirra hluta, sem gera skal. Fjármunum er bezt varið til þess að gera menn betri, sælli og fullkomnari, til þess að auðga lífið og kenna mönnum að verja því öðrum til góðs, til þess að „ganga til góðs götuna fram eftir veg“, til vaxandi þroska og vellíðanar fjöldans“.

Verum meðvitaðir neytendur sem þykir vænt um okkur sjálf og heilsu okkar, því hún er það verðmætsta sem við eigum og það verðum við að skilja áður en það er of seint.
Ekki hafa jólin alla daga í mataræðinu. Það er í lagi að leyfa sér aðeins meira í mataræði um jólin en þegar óhollustan er komin í daglega neyslu þá er komin til að huga betur að mataræðinu. Jólamaturinn og kræsingarnar munu líka bragðast mun betur ef þau eru sjaldan á borðum í stað þess að hafa jólin alla daga.

Heimidir:
https://nlfi.is/heilsuraekt-eda-heilsuhrun

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

 

 

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi