Jóga

Oft eru agnarlitlu smáatriðin sem verða til þess að maður ákveður að breyta um kúrs í lífinu. Um daginn þurfti ég að drífa mig með hraði að sækja eina af ungmeyjunum mínum á æfingu. Daman sendi mér skilaboð og bað um að hún yrði sótt í snatri og henni skutlað á næsta áfangastað og að sjálfsögðu er þjónustustigið mjög hátt á mínu heimili, ég spratt upp úr sófanum, henti frá mér bókinni og prjónadótinu, skutlaðist í jakka og snaraði mér í skóna.  Þegar kom að því að reima skóna kom hins vegar babb í bátinn. Hendurnar náðu ekki niður. Ég hef heyrt um svona handastyttingar en einungis hjá mjög miðaldra fólki og þá einkum í tengslum við bóklestur, hendurnar eru skyndilega of stuttar til að hægt sé að sjá letur með góðu móti. Aldrei grunaði mig að þetta ætti við um skóreimun líka og það hjá svona bráðungri manneskju eins og ég er, rétt liðlega þrítug og samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu er miðaldra fólk alltaf 15 árum eldra en ég. Þessar hugsanir flugu í gegnum huga mér á sekúndubroti, enda er heilastarfsemi fólks á mínum aldri almennt með sprækasta móti. Að sjálfsögðu komst ég jafnfljótt að þeirri niðurstöðu að þarna væri ekki höndunum um að kenna heldur hefði ég betur munað eftir því að teygja á skönkum og skrokknum eftir hreyfingu og nú væri komið að því, ég yrði bara að taka mig á í þessum efnum.

Rétt í þessum hugsuðum orðum opnaði ég tölvuna til að finna mér námskeið, rakst óvart inn á facebook og viti menn, fyrsta auglýsingin var frá jógafyrirtæki sem var með sérsniðin námskeið fyrir liðlega þrítugar stirðar konur á öllum aldri! Ótrúleg tilviljun ekki satt? Ég setti mig strax í samband við fyrirtækið og pantaði mér námskeið en var þó á báðum áttum því fyrr reynsla mín af jógatímum er ekki endilega frábær.

Fyrsta jóganámskeiðið er ég fór á var meðgöngujóga þegar ég gekk með eldri dóttur mína. Ég var í fínu formi og langaði að viðhalda því með viðeigandi hreyfingu á meðgöngunni og hafði heyrt að verðandi mæður hefðu mjög gott af svona meðgöngujóga. Ég mætti í fyrsta tíma, settist með krosslagða fætur á dýnuna, tilbúin í átökin. Kennarinn talaði mjög hægt og skýrt enda eru verðandi mæður oft utan við sig og jafnvel hvumpnar og vissara að fara vel að þeim. ,,Réttið handleggina lárétt út, snúið lófunum fram og nú hreyfum við fingurgómana mjúklega“ sagði kennarinn og allir framkvæmdu þessa æfingu með einbeitingarsvip. Eftir drykklanga stund sagði kennarinn þátttakendum að snúa nú lófunum aftur og halda áfram að hreyfa fingurgómana mjúklega. Fingurgómarnir fengu að blakta töluvert í þessari stöðu eða allt þar til kennarinn bauð viðstöddum að snúa nú lófunum upp á við og hreyfa fingurgómana mjúklega.  Mér fannst þetta nú helst til lítil hreyfing miðað við líkamlegt form og var að vonast eftir meira fjöri en kennarinn lauk þessari æfingahrinu á því að biðja okkur um að snúa nú lófunum niður og hreyfa fingurgómana mjúklega. Þarna fannst mér nú eiginlega komið nóg af fingurgómaæfingum og sá fram á að töluverð hætta væri á að ég fengi harðsperrur í fremstu tvær kjúkurnar eftir tímann. Loksins leyfði kennarinn okkur að leggja hendur niður með síðum og þá var komið að slökun. Ekki get ég sagt að þessi tími hafi vakið mikinn áhuga hjá mér á jóga, ég mætti í eitt skipti í viðbót og sá tími fór mikið til á sömu leið, eftir það sagði ég skilið við jógaæfingar í bili.

Næsta jóganámskeið var þegar litla systir mín gabbaði mig með sér á námskeið hjá ungri og skemmtilegri stelpu sem var nýlega fullnuma í jógafræðum og mjög áhugasöm um kosti jóga í daglegu lífi, ekki síst hvað jafnvægi varðar. Hún lét hópinn gera styrktar- og jafnvægisæfingar sem fullnuma jógagúrúar hefðu mátt vera fullsæmdir af en byrjendur eins og ég kannski síður. Í einum tímanum lét hún hópinn fara í hina alþjóðlega viðurkenndu jógastöðu tréð. Verandi garðyrkjufræðingur var ég þess fullviss að ég færi létt með það að leika tré. Ég stillti mér upp á öðrum fæti, beygði hinn fótinn og studdi ilina við lærið á meðan hendur hófu sig til himins í bænarstöðu. Allt gekk þetta ljómandi vel, tréð mitt var upprétt og þokkafullt, nokkuð stöðugt á rótinni þangað til komið var að því að loka augunum. Þá var eins og fellibylurinn Larrý hefði skyndilega birst í miðjum salnum með þeim afleiðingum að tréð mitt riðaði til falls, sem hefði ekki komið að sök ef ég hefði ekki tekið nærstödd tré með mér niður í fallinu. Ungi kennarinn horfði á timburhrúguna í salnum og hafði á orði að hún hefði nú alveg séð svona tré beygjast og sveigjast en aldrei áður hefði svona stráfelling átt sér stað í tíma hjá henni.

Nú er ég búin að mæta í nokkra tíma í jóga og enn sem komið er hafa æfingarnar gengið stórslysalaust fyrir sig, ég gæti þess að vera úti í horni og í hæfilegri fjarlægð frá öðrum þátttakendum og er ekki frá því að hendurnar séu hægt og rólega að lengjast aftur. Með þessu áframhaldi get ég vonandi reimað skóna mína hjálparlaust og án teljandi tilfæringa fyrir jól…

Guðríður Helgadóttir, verðandi jógadrottning

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi