Árið 1972 ritaði Björn L. Jónson læknir grein í ritið Heilsuvernd undir þessari yfirskrif „hvítur sykur og krabbamein“. Það er mjög áhugavert að lesa þessa 42 ára gamla grein um efni sem á jafnvel betur við í dag en fyrir 42 árum. Þessa grein má einmitt lesa hér inná vef NLFÍ (sjá heimildir).
Í þessari grein segir m.a.:
„Í þær (hvítur sykur og hvítt hveiti) vantaði líka nauðsynleg grófefni, sem eru skilyrði fyrir greiðri meltingu og tæmingu úrgangsefna úr ristlinum. Mikil neyzla hinna úrgangslitlu fæðutegunda orsakaði kyrrstöðu í þörmum, aðallega í ristli, og tregar hægðir. …..Af þessum sökum hafa sumir læknar kallað tregar hægðir “sjúkdóm sjúkdómanna og talað í því sambandi um “sjálfseitrun, þar eð eiturefnin myndast innan sjálfs líkamans“.
„Í nýlegu vísindariti er haft eftir enskum skurðlækni, að hann telji “hreinsuð kolvetni (þ.e. hvítan sykur, hvítt hveiti og aðrar áþekkar matvörur) eina af orsökum krabbameins í ristli, og hina veigamestu. Þar að auki eigi þessar fæðutegundir verulega sök á botnlangabólgu, bólgu í ristilpokum og jafnvel gyllinæð. Ristilkrabbi og aðrir meltingarsjúkdómar, sem ekki stafa af sýklum, eru sjaldgæfir meðal frumstæðra þjóða, þar sem lítið er notað af framangreindum matvælum, en í mörgum menningarlöndum eru þeir um tíu sinnum tíðari“.
„Hin krabbameinsmyndandi efni, sem talið er að verði til í ristlinum við sundurleysingu fæðunnar, verka á slímhúðir ristilsins, og þessi skaðlegu áhrif verða þeim mun meiri sem fæðan dvelst þar lengur. Vörn náttúrunnar gegn ristilkrabba er eftir þessu fólgin í greiðri tæmingu þarmanna, en tregar hægðir stuðla hinsvegar að myndun illkynja æxla, segir að lokum í umræddri tímaritsgrein“.
Ristilkrabbamein er þriðja algengasta krabbamein á Íslandi í dag og það virðist tengjast því vel að við erum einmitt að borða óhemjumikið af hvíta viðbætta sykrinum og hvíta hveitinu í unnum matvörum s.s. gosdrykkjum, kexi, sælgæti og kökum. Í þessar vörur vantar einmitt grófefnin
(trefjana) sem Björn talaði um í grein sinni. Þannig að þær ábendingar sem Björn var með voru því á nokkuð góðum rökum reistar. Eigum við ekki að reyna að snúa þessu við með skynsamlegu mataræði sem inniheldur náttúrulega trefja en ekki dauðar hitaeiningar?
Tíðni ristilkrabbameins er mun meiri á Vesturlöndum en í löndum þar sem alþjóðavæðing skyndibitakeðja og gosdrykkjaframleiðenda hafa ekki náð fótfestu. Rannsóknir hafa einnig sýnt að neysla á rauðu kjöti, áfengi, sykur- og fitumiklum matvörum virðist auka tíðni á krabbameini þ.m.t. ristilkrabbameini. En það er ekki bara mataræðið sem skiptir máli í þessu samhengi því erfðir, hreyfing og reykingar geta einnig aukið á líkur á krabbameini. Það á nú reyndar við um alla þá lífsstílssjúkdóma sem við erum að berjast við í dag.
Í lokin er vert að benda á það NLFÍ hefur frá stofnun barist gegn óheilbrigðum lifnarháttum og er náttúrulækningastefnan í grunninn manneldisstefna þar sem m.a. er varað við neyslu viðbætts sykurs og hvíts hveitis. Hófsemi, ábyrgð og skynsemi í líferni og skilningur á heildstæðum lausnum til að viðhalda heilsu, þ.e. heilbrigt líferni í víðum skilningi, er meginhlutverk NLFÍ í nútíð og framtíð, auk umhverfisverndar.
Við erum alltaf að fá betri og áreiðanlegri sannanir fyrir því að óhófleg neysla viðbætts sykurs og hvíts hveitis er að stuðla að óheilbrigði okkar. Það er auðvelt að vera vitur eftir á en það er kominn tími til að við förum að takamarka þessar vörur hið mesta úr okkar mataræði.
Berum ábyrgð á eigin heilsu og hugum að því hvað við borðum í dag, því á morgun gæti það verið orðið of seint.
Heimildir
http://www.nlfi.is/node/343
http://www.laeknabladid.is/tolublod/2014/02/nr/5067
http://www.karger.com/Article/Pdf/323926
http://jnci.oxfordjournals.org/content/99/19/1471.long
http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1002/ijc.22170/pdf
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is