Þegar Jónas Kristjánsson, héraðslæknir á Sauðárkróki, hófst handa um að boða Íslendingum í ræðu og riti þær kenningar, sem nú eru kallaðar náttúrulækningastefnan, réðst hann einna harðast gegn hvítum sykri og hvítu hveiti, sem hann kvað vera einhæfastar og efnasnauðastar allra venjulegra fæðutegunda og hefðu því í för með sér skort fjörefna og fleiri nauðsynlegra efna í líkamanum. Í þær vantaði líka nauðsynleg grófefni, sem eru skilyrði fyrir greiðri meltingu og tæmingu úrgangsefna úr ristlinum. Mikil neyzla hinna úrgangslitlu fæðutegunda orsakaði kyrrstöðu í þörmum, aðallega í ristli, og tregar hægðir. Í ristlinum verður með þessu móti hinn ákjósanlegasti jarðvegur fyrir rotnunargerla, sem hafa góðan tíma til að brjóta niður eggjahvítuefni úr kjöti, fiski og eggjum, en við það myndast rotnunar- eða ýlduefni, á sama hátt og rotnun á sér stað utan líkamans, og eru sum þeirra skaðleg eiturefni. Þessi efni verka á slímhúðir ristilsins og berast auk þess gegnum þær inn í blóðrásina og með henni út um allan líkamann og valda þar margvíslegum skemmdum og sjúkdómum. Af þessum sökum hafa sumir læknar kallað tregar hægðir “sjúkdóm sjúkdómanna og talað í því sambandi um “sjálfseitrun, þar eð eiturefnin myndast innan sjálfs líkamans.
Jónas hefir átt marga skoðanabræður innan læknastéttarinnar víða um heim. Og nú hefir verið tekið undir þessar kenningar í merku amerísku læknariti, “Notes and Tips, þar sem það er nýlega haft eftir enskum skurðlækni, að hann telji “hreinsuð kolvetni (þ.e. hvítan sykur, hvítt hveiti og aðrar áþekkar matvörur. BLJ) eina af orsökum krabbameins í ristli, og hina veigamestu. Þar að auki eigi þessar fæðutegundir verulega sök á botnlangabólgu, bólgu í ristilpokum og jafnvel gyllinæð. Ristilkrabbi og aðrir meltingarsjúkdómar, sem ekki stafa af sýklum, eru sjaldgæfir meðal frumstæðra þjóða, þar sem lítið er notað af framangreindum matvælum, en í mörgum menningarlöndum eru þeir um tíu sinnum tíðari.
Fæðan gengur þeim mun hægar gegnum meltingarfærin sem hún inniheldur minni úrgang. Hin krabbameinsmyndandi efni, sem talið er að verði til í ristlinum við sundurleysingu fæðunnar, verka á slímhúðir ristilsins, og þessi skaðlegu áhrif verða þeim mun meiri sem fæðan dvelst þar lengur. Vörn náttúrunnar gegn ristilkrabba er eftir þessu fólgin í greiðri tæmingu þarmanna, en tregar hægðir stuðla hinsvegar að myndun illkynja æxla, segir að lokum í umræddri tímaritsgrein.
Enska læknaritið “The Practitioner skýrir einnig frá þessu í ritstjórnargrein og segir m.a.: Hjá hinum frumstæðu þjóðum, sem borða mikið af grófmeti, eru hægðir fyrirferðarmiklar, mjúkar og lyktarlausar. En meðal menningarþjóðanna, sem nærast á úrgangslítilli fæðu, verða þær hinsvegar harðar og illa lyktandi. Og síðan eru tilfærð niðurlagsorð hins enska læknis, en nafn hans er D.P. Barkitt: “Líkur benda til, að krabbameinsmyndandi efni, sem verða til í fæðumaukinu í ristlinum af völdum baktería og fá að verka á slímhúðir hans langtímum saman, eigi sök á því, hve tíður ristilkrabbi er meðal hinna vel stæðu menningarþjóða, og ekki aðeins sú meinsemd, heldur og ýmsir aðrir sjúkdómar í ristli. Í ljósi þessara staðreynda er full ástæða til að vara við því að skilja grófefnin frá fæðunni og við þeirri ofneyzlu fínna kolvetna, sem af því leiðir.
BLJ
Björn L. Jónsson
Tímaritsgrein Heilsuvernd
2. tbl. 1972