Hvaða fæðubótarefni virka raunverulega?

Sala fæðubótarefna er stór markaður og eiga þau oft að vera allra meina bót. Þó var til heilbrigður maður áður en hillur heilsubúða og stórmarkaða fylltust af fæðubótarefnum.
Talið er að við Íslendingar höfum eytt um tveimur og hálfum til þremur milljörðum króna í fæðubótarefni á árinu 2008, þessar tölur eru líklega hærri í dag því stórmarkaðir eru orðnir stórir söluaðilar fæðubótarefna.

Þrátt fyrir þessa miklu notkun Íslendinga á fæðubótarefnum eru vísindalegar sannanir fyrir virkni þeirra oft mjög takmarkaðar. Einnig hafa eftirlitsstofnanir ítrekað komist að því að sum fæðubótarefni innihalda oft ekki þau efni sem getið er á umbúðum.

Þó er misjafn sauður í mörgu fé og ekki eru öll fæðubótarefni gagnslaus. Amerískt upplýsingafyrirtæki setti nýlega saman yfirlitskort yfir fæðubótarefni sem studd eru vísindalegum rökum um virkni sína á mönnum.

Eins og sjá má yfirlitskortinu þá er greinilegt að sum fæðubótarefni eru mun virkari á meðan önnur eru alveg vitagagnslaus og betra væri að nota peninga í eitthvað annað. Til að útskýra kortið þá eru hringirnir stærri eftir því sem fleiri rannsóknir rannsóknir liggja bakvið efnið og efnin efst eru þau sem virka en á botninum eru óvirk efni.
Ertu t.d. að nota lavander vegna svefnvandamála, gingko biloba til að bæta minnið eða acaiber við nánast hverju sem er? Ef þú ert að nota þessi efni við þessum vandamálum þá ertu því miður að henda peningum út um gluggann. En það eru þó fæðubótarefni sem virðast hafa virkni t.d. sýna rannsóknir að hvítlaukur gagnast við háum blóðþrýstingi, níasín hjálpar fólki með hjartasjúkdóma og próbíotik (ab gerlar) vörur virðast styrkja meltingarveginn og þarmaflóruna sérstaklega eftir sýklalyfjanotkun.

Á heildina litið virðist því miður meginhluti fæðubótarefnanna undir línunni ‘“þess virði að kaupa“ – Rannsóknir styðja einfaldlega ekki virkni þessara efna.

Eftirlit með fæðubótarefnum er lítið sem ekkert og það eru bara einstaka efni sem fá skoðun og þá kemur oft í ljós að þau innihalda ekki virku efnin sem lofað var á umbúðum og oft einhver allt önnur og jafnvel ólögleg s.s. stera. Menn hafa fallið á lyfjapróffum við að taka fæðubótarefni sem áttu að vera án allra ólöglegra efna.
Ef þú ætlar að fá þér fæðubótarefni til að efla heilsu þína, kannaðu þá vel hvaða rannsóknir standa á baki virkni þeirra, því annars gætir þú bara verið að henda peningum út um gluggann.

Annars hvetjur Náttúrulækningfélag Íslands fólk til að nota alvöru næringarríkan og náttúrulegan mat sem lyf, það er langbesta forvörnin gegn hinum ýmsu kvillum.

Þessi grein er þýdd og endursögð úr grein frá Washinton Post:
www.washingtonpost.com/blogs/wonkblog/wp/2015/02/05/how-to-spot-the-rare-dietary-supplement-thats-actually-legit/
Fleiri heimildir:
www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/090221.pdf
www.ns.is/is/content/eru-faedubotarefni-til-bota

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing