Hvað eru unnar matvörur?– „Gervimatur“

Nútímamaðurinn er kominn langt frá uppruna sínum sem er náttúran og móðir Jörð. Allar mannverur „homo sapiens“ eins og aðrar lífverur eru náttúruverur og þegar við kveðjum þessa jarðvist þá verðum við að mold með tímanum og sameinumst náttúrunni aftur.
Því miður hafa nútíma lifnaðarhættir orðið þess valdandi að mikið af þeim matvörum sem við neytum eru „gervimatur“ þ.e.a.s. eru ekki náttúrulegar og eru mikið unnar. Við ættum auðvitað að borða sem mest af okkar mat úr náttúrunni, þaðan sem við erum komin og þangað sem við förum aftur þegar við látumst.

Skilgreining á „unnum matvörum“ væri matur sem hefur verið breytt úr sínu náttúrulega ástandi á einhvern hátt, aðallega af öryggisástæðum,  til að bæta bragðgæði eða til að auka þægindi við neyslu. Einnig getur gervimatur algjörlega verið án náttúrulegra efna og er þá 100% gervi. Oft erum við að borða meira af unnum matvörum en við gerum okkur grein fyrir því þau eru oft í dulargervi alvöru matvara.

Algengasu vinnsulaðferðir á matvörum eru:

  • Frysting
  • Niðursuða
  • Bakstur
  • Þurrkun
  • Söltun
  • Gerilsneyðing
  • Viðbæting á þráavarnar-, lit- eða rotvarnarefnum

Vinnsla á matvörum er ekki bara af hinu slæma því stundum þarf að vinna matvörur svo þær séu hættulausar til manneldis t.d. með gerilsneyðingu á mjólk til að fjarlægja skaðlegar bakteríur. Aðrar matvörur þarf að vinna til að þær henti til neyslu eins og t.d. að pressa fræ til að búa til jurtaolíur. Fyrsting á ávöxtum og grænmeti stuðlar að varðveislu á vítamínum og næringarefnum. Einnig geta niðursoðnar vörur (velja þær án viðbætts salts eða sykurs) einnig varðveitt næringarefni en ekki að sama skapi og frysting. Þessar vinnsluaðferðir stuðla að því að neytann getur lengur geymt matvörur sínar án þess að hann skemmist og minnkar þetta matarsóun og útgjöld heimilisins í matarinnkaup.
Oft er salt, sykri og fitu bætt í matvæli til að gera þau bragðbetri, betur útlítandi og til að auka geymsluþol. Þó er þessum aukaefnum stundum bætt í matvörur til að stuðla að uppbyggingu þeirra s.s. salt í brauði og sykri í kökur.

Þvímiður er vinnsla á matvörum komin langt út fyrir það sem getur talið eðilegt. Alltof mikið af matvörum í búðum í dag eru unnar matvörur sem eru síður en svo heilsusamlegar. Hefur þú t.d. prófað að fara í matvörubúðina og versla bara matvörur með einu innihaldsefni? Það eru ekki sérlega margar matvörur sem enda í kerrunni nema ferskt grænmeti, ávextir, fisk, kjöt, egg, hreinar mjólkurvörur, hnetur og fræ.

Það er ótrúleg samkeppni milli matvörubúða og framleiðenda um viðskiptavini og þetta leiðir til lægra verðs, matar sem auðvelt er að búa til og endist lengi. Það er sífellt verið að reyna að gera matinn ódýrari, bragðbetri og betur útlítandi til að selja sem mest af vörunni en þetta á oft ekkert skylt með hollustu því til að ná þessu þarf að bæta ýmsu við vörur sem er síður en svo hollt fyrir okkur sem lifandi verur.
Það er einmitt málið með allar þessar unnu matvörur að í takmörkuðu magni væru þær í lagi en við erum farin að neyta svo mikið af þessum tilbúna mat að heilsa okkar er farin að gjalda þess. Sífellt meiri fjöldaframleiðsla á ódýrum matvörum með ódýrum innihaldsefnum eru farin að granda heilsu okkar.

En við getum orðið heilsumeðvitaðri neytendur með því að kveikja aðeins á perunni við matarinnkaupin og leggja aðeins meiri tími og natni í matreiðslu. Hægt er að skipta unnu matvörunum út fyrir hollari valkosti.

Algengar unnar matvörur vs.alvöru matur til að neyta í staðinn:

  • Unnar kjötvörur s.s. pylsur, bjúgu, kjúklinganaggar og beikon –  Betri kostur: Hreinar kjötvörur án aukaefna og helst beint frá býli ef það er möguleiki.
  • Sætt morgunkorn – Betri kostur: Hafragrautur með ferskum ávöxtum
  • Frosnar pizzur –  Betri kostur: Heimagerð pizza með heilhveitbotni með hollu áleggi 
  • Dósamatur/niðursoðinn – Betri kostur: Freskir baunaréttir.
  • Mjólkurvörur með bragðefnum s.s. jarðarberjajógúrt eða skyr – Betri kostur: Hreinar mjólkurvörur (hvítar) bragðbætt á náttúrulegan hátt með berjum eða múslí.
  • Gosdrykkir og ávaxtasafar – Betri kostur: Kolsýrt vatn með niðurskornum ávöxtum
  • Sælgæti – Betri kostur: Niðurskornir ávextir (nammi náttúrunnar)
  • Frosnar franskar kartöflur – Betri kostur: Niðurskornar sætar kartöflur í ofni.
  • Kex og kökur – Betri kostur:Heimagert hrökkbrauð 

Leiðir til að borða minna af unnum mat

  • Eldaðu frá grunni heima
  • Lærðu að lesa innihaldslýsingu matvælanna sem þú kaupir
  • Verslaðu beint frá býli/bónda ef þú getur – Fækka milliliðum
  • Vertu með heimaræktun ef þú hefur aðstöðu t.d. grænmetis- og kryddjurtaræktun
  • Forðastu gylliboð og útstillingar á unnum mat í matvörubúðum

Hafið það í huga kæru lesendur að alvöru matvörur sem vaxa í náttúrnni eiga fáa málsvara og síst af öllu er sá matvælaiðnaður sem stundaður er á Vesturlöndum málsvari alvöru matvara eða hollustu. Það er dýrt að rækta og framleiða alvöru mat án aukaefna og þeir sem eru að reyna að græða á því að selja okkur „matvörur“ gera það ekki með lífrænni ræktun á alvöru matvörum án allra aukaefna. Stærstu og ríkustu „matvælaframleiðendur“ heims eru þeir sem selja matvörur sem eru ódýrar í framleiðslu og uppfyllar af sykri, salti, þráavarnarefnum og rotvarnarefnum. Það er líka sorgleg staðreynd að við almúginn föllum kylliflöt fyrir þessum bragðgóðu og ódýru matvörum og stóru alþjóðlegu matvælakeðjurnar fá því enn meiri pening til að auglýsa vörur sínar um allt og kaupa sér góð pláss í matvörubúðnum og á íþróttaviðburðum.

Berum ábyrgð á eigin heilsu og tökum völdin af þessum gervimatvælaframleiðendum. Gerum allt sem við getum til að borða minna af unnum mat og um leið erum við að leggja grunn að góðri heilsu okkar og okkar nánustu.

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi

1 Ummæli

Bjöggi 7. október, 2019 - 09:08

Er holt að æfa 3 sinnum fjóra tíma á dag 3 sinnum í viku drekka 6 stjórar hleðslur á dag og sofa í sex tíma?

Comments are closed.

Add Comment