Húðin og innra ástand líkamans

Nú langar mig að beina athyglinni að húðinni. Húðin er stærsta líffæri líkamans og gegnir hinum ýmsu hlutverkum fyrir okkur. Húðin losar okkar meðal annars við úrgangsefni (með svita), ver okkur fyrir skemmdum og ytra áreiti, framleiðir D-vítamín og hindrar vökvatap frá líkamanum. Húðin lýsir í raun í mörgum tilfellum innra ástandi líkama okkar.
Ástæðan fyrir því að mig langar að skrifa um húðina er sú að það eru svo margir sem glíma við einhverskonar húðvandamál. Snyrtivörufyrirtæki hafa nýtt sér það, enda sér maður allsstaðar auglýsingar um hin ýmsu krem, lyf, smyrsl og þess háttar sem eiga að vinna bug á hinum ýmsu húðvandamálum.
Það getur hins vegar vel verið að vert sé að skoða betur hver orsökin á húðvandamálinu sé áður en að farið er að meðhöndla einkennin með dýrum smyrslum og lyfjum sem geta hæglega valdið aukaverkunum. Vandamál eins og þessi eru ekki ný af nálinni, en þegar ég var að glugga í tímaritið Heilsuvernd, sem Náttúrulækningafélags Íslands gefur út, rakst ég á grein frá árinu 1946 sem greip strax athygli mína. Þar segir Jóel Örn skemmtilega frá heldur leiðinlegu vandamáli og ætla ég að segja frá sögu hans.

Húðvandamál Jóels höfðu mikil áhrif á hann og mótuðu í rauninni líf hans. Erfiðleikar hans byrjuðu þegar hann fór að vinna í kjötverslun frá 15 til 18 ára aldurs. Á þessum árum hóf hann að lifa mest á kjöti, hálfsoðnu eða hráu, söltuðu og krydduðu, bjúgu, kæfu, fiski og eggjum. Hann borðaði mikið af hvítu brauði og hvítum sykri.
Fyrstu tvö árin tók hann ekki eftir að slíkt mataræði hefði nein slæm áhrif á hann, enda bjóst hann ekki við því, þar sem flestir hugsuðu ekki um áhrif mataræðis á andlega og líkamlega líðan. Síðan fór hann að taka eftir útbrotum, rauðum bólum með blóði og greftri, á baki og brjósti. Þessi útbrot ágerðust og höfðu slæm áhrif á líðan hans. Hann gekk á milli lækna og „sérfræðinga“ í mörg ár í leit að bata. Hann telur upp hvern lækninn á fætur öðrum,  öll ráðin sem hann fékk, hin mismunandi smyrsl, duft og pillur. Hann átti að bera á útbrotin hitt og þessa smyrslið, taka inn duft og hin ýmsu meðul. Húðsjúkdómasérfræðingar skrifuðu upp á hinar ýmsu leðjur, ætandi áburð og smyrsl og ráðlögðu ýmist að baða sig í saltvatni eða forðast saltvatnsbað með öllu. Ein versta meðferðin voru pyntingar sem gerðu á endanum ekkert gagn.
Þetta urðu kostnaðarsamar og gagnslausar heimsóknir. Hann fór að forðast fólk og fólk fór að forðast hann því orðrómur barst út um að hann væri haldinn dularfullum sjúkdómi. Hann fór á milli vinnustaða, þorði ekki að dvelja lengi á hverjum stað og eyddi öllum launum sínum í leit að lækningu. Hann gafst upp á læknavísindunum og leitaði til skottulækna, eins og hann orðar það sjálfur, sem gáfu honum svartar pillur, lyf úr jurtum og fleiri efnum. Ekkert gekk, en allan þennan tíma hélt Jóel áfram að borða eins og áður, mestmegnis kjöt, hvítt hveiti og sykur. Það var enginn sem benti honum á að þar lægi mögulega orsök vandamála hans. Hvort sem var á meðal hálærðra fulltrúa læknavísindanna eða annarra meðferðaraðila var enginn sem fann réttu lausnina. Allsstaðar var grundvöllurinn og aðferðirnar nákvæmlega eins; reynt var að lækna útbrotin með lyfjum, án minnstu hliðsjónar af mataræði og lifnaðarháttum, sem enginn spurði um eða skipti sér neitt af. Hann gat ekki stundað íþróttir vegna eðli þessara útbrota og einangraðist að einhverju leyti vegna þessa.

Loksins urðu tímamót í lífi hans. Hann sá grein eftir Are Waerland í heilsublaði einu. Hann lagði af stað fótgangandi í þriggja mánaða ferðalag frá Stokkhólmi til Ítalíu til þess að hitta Are. Hann tók með sér fæði sem hann hafði lesið í greininni hans Are að væri heilsusamlegt; hafra, grænmeti og ávexti. Hann drakk vatn með sítrónusafa út í á hverjum morgni. Hann gekk allan daginn, borðaði ávexti og drakk vatn þess á milli og fékk sér grænmeti, hrátt eða eldað, í kvöldmat. Hann dvaldi síðan hjá Are í sex vikur, þar sem hann segist hafa lært meira um lífið en hann hefði gert öll sín æviár. „Ég skildi nú eðli sjúkdóma og heilbrigði og gat litið á vanheilsu mína og alla mannlega sjúkdóma frá hærri sjónarhól en áður“ segir hann. Útbrotin hurfu smátt og smátt með öllu.

Jóel segir í lokin að flestir sjúkdómar séu annaðhvort vöntunarsjúkdómar, sem stafa af því að einhver viss efni vanti í fæðuna, eða eitrunarsjúkdómar, sem eiga rót sína að rekja til eiturefna sem komast inn í líkamann eða myndast í honum við efnaskiptin og safnast þar fyrir.
Hann taldi að útbrotin hefðu stafað af því að hann hafði hlaðið líkama sinn ýmiss konar úrgangs- og eiturefnum frá salti, kjöti, kaffi og mikilli eggjahvítu. Auk þess hafði hann alltaf búið við skort fjörefna og málmsalta, meðal annars vegna þess hve mikið hann borðaði af hvítum sykri og hvítu hveiti, sem er gjörsneytt heilsusamlegum efnum.
Hann segir að margir sem lifa á svipuðu mataræði þjáist af einhverjum kvillum, sem lýsa sér á mismunandi hátt eftir einstaklingum, en frumorsökin sé ávallt hin sama. „Lyf og smyrsl gátu því aldrei hjálpað mér. Lækningin varð að koma innan að. Það var þá fyrst, er ég var orðinn hreinn innvortis, að útbrotin fengu enga næringu þaðan og „gufuðu blátt áfram upp““.

Það verður bara að segjast að mataræði okkar hefur gríðarleg áhrif á okkur. Það er nánast sama hvert er litið. Sé litið til húðarinnar er nokkuð ljóst að sá sem borðar óhollt fæði glímir oft við vandamál sem sá sem borðar hollt fæði glímir ekki við. Einnig hefur sýnt sig að þeir sem hafa verið með slæma húð, bólur eða exem, hafa náð að laga húðina með því að breyta um mataræði. Það gildir kannski ekki alltaf, en í mörgum tilfellum er hægt að ná bata með réttu mataræði.
Batinn þarf að eiga sér stað að innan. Þegar að við erum hrein að innan erum við líklega nær því að vera hrein að utan líka.

Skrifað af Rögnu Ingólfsdóttur, ragnaingolfs@gmail.com

Heimildir:
Heilsuvernd, tímarit NLFÍ ( 1.-2. hefti, 1946).

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing