Um víxlböð

Með víxlböðum (Wechselbäder, contrast eða alternate baths) er við það átt, að líkaminn allur eða einstakir líkamshlutar eru settir á víxl í heitt og kalt vatn. Þessu er hagað þannig, t.d. þegar um fótaböð er að ræða, að fæturnir eru hafðir í allt að 38-40 stiga heitu vatni uppundir hné í fötu eða stampi, svo sem 5 mínútur. Síðan er farið með fæturna í aðra fötu með köldu vatni (20° eða minna) 5 til 10 sekúndur eða jafnvel lengur, þá á ný í heita vatnið jafnlengi og áður og þannig koll af kolli tvær eða fleiri umferðir, og endað með kalda vatninu.

Í þessum böðum eru það áhrif kalda vatnsins, sem meginþýðingu hafa. Kuldaskynfæri húðarinnar eru talin tíu sinnum fleiri en hitaskynfærin, og áhrifin verða þeim mun sterkari sem hitamismunurinn er meiri. Og yfirleitt ætti aldrei að taka köld böð, nema líkaminn eða viðkomandi líkamshluti sé heitur fyrir. Kuldaáhrifin berast samstundis til heilans, sem sendir boð til húðæða og fleiri líffæra gegnum ósjálfráða taugakerfið, þannig að eitt fótabað eða armbað hefir víðtæk áhrif á lífsstörf líkamans, svo sem blóðrás, blóðþrýsting og efnaskipti.

Gigtveikt fólk þolir illa kulda. En reynslan virðist hafa sýnt, að hin skammvinnu kuldaáhrif víxlbaðanna eigi vel við sjúklinga með allskonar gigt, vegna þess hve mjög þau örva blóðrás í líkamanum öllum. T.d. ráðleggja margir sjúklingum með slitgigt (brjóskeyðingu og kalkanir) í hnjám að taka reglulega víxlböð á fætur, þau örvi blóðrás til hnjánna, dragi úr bólgu og verkjum og flytji hnjáliðunum auk þess aukna næringu. Við fótkulda, fótsvita og sinadráttum í fótum virðast þessi böð gefa góða raun, einnig í sambandi við eftirstöðvar eftir æðabólgur, stundum í æðahnútum, en þar þarf mjög að gæta varúðar og ekki hafa böðin of heit, og sama gildir um sjúklinga með kölkun eða þrengsli í æðum fótleggja.

Gömul reynsla, sem sumir vilja máske kalla kerlingabók, kennir okkur, að menn fái kvef af að vökna í fætur. En nú hafa rannsóknir sýnt, að náið samband er á milli blóðrásar í fótum og í nefi eða nefkoki. Rannsóknin fer þannig fram, að með sérstökum rafhitamæli er mældur hiti á nokkrum punktum í slímhúð nefs og nefkoks, og heldur maðurinn niðri í sér andanum á meðan. Rannsóknin er gerð í hlýju herbergi. Eftir fyrstu mælinguna er farið með fæturna í kalt vatn, sem nær upp fyrir ökla, og verið 2 mínútur í þessu kalda baði. Á meðan er hitinn mældur á ný og einnig 2 og 4 mínútum eftir að baðinu er lokið.

Þessar rannsóknir, sem gerðar hafa verið á allstórum hópi manna, hafa sýnt, að hjá um það bil 75% þeirra, sem kvefgjarnt var, lækkaði hitinn í slímhúðum nefs og nefkoks við kalda fótabaðið, og raunar einnig við að halda höndum og framhandleggjum í köldu vatni á sama hátt. Hitalækkunin nam hálfri til tveimur gráðum og hélzt hjá mörgum 4 mínútur og jafnvel upp í 20 mínútur eftir kalda baðið. Það er bersýnilegt, að þeim mun meiri og varanlegri mun kælingin verða, ef menn eru með blauta og kalda fætur tímunum saman. Hjá ókvefgjörnu fólki varð lítil eða engin kæling.

Kælingin í nefslímhúðinni sýnir, að blóðsókn til hennar minnkar við fótkuldann, og þar með dregur úr mótstöðuafli hennar gegn sóttkveikjum þeim, sem kvefinu valda. Þessar sóttkveikjur eru alltaf fyrir hendi, en þær gera ekkert af sér, nema þegar viðnámið dvínar af einhverjum ástæðum.

Eins og kunnugt er, fær sumt fólk aldrei kvef, aðrir kvefast af minnsta kuli, sem að þeim kemst. Bersýnilega er eitthvað bogið við blóðrás þeirra og heilsu. Og auk þess sem bæta má úr þessu með heilnæmu mataræði og lagfæringu á lifnaðarháttum í hvívetna, þar á meðal aukinni húðræstingu, sem fólgin er í heitum og köldum böðum, loft- og sólböðum, húðnuddi og húðburstun daglega, eru fótaböð, og þá sérstaklega víxlfótaböð, einfalt og áhrifaríkt ráð, sem öllum gerir gott, heilbrigðum og sjúkum.

Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 4.tlb.
1968, bls.95-97 

Related posts

Hlaup fyrir lífið – Hugleiðing um hlaup

Góð heilsa alla ævi án öfga

Rífum hressilega í lóðin alla ævi til að tryggja sem besta heilsu