Ráðleggingar um hreyfingu sem Embætti Landlæknis hefur gefið út fyrir fullorðna er að hreyfa sig daglega í minnst 30 mínútur af meðalerfiðri eða erfiðri hreyfingu. Þessum 30 mínútum má skipta upp í styttri lotur yfir daginn.
Meðalerfið hreyfing fer eftir líkamsástandi hvers og eins, en gott er að miða við að hjartsláttur og öndun verða hraðari en venjulega en þó er hægt að halda uppi samræðum. Við erfiða hreyfingu svitnar viðkomandi og mæðist og á erfitt með að halda uppi samræðum.
Það að fara í röskan göngutúr með skemmtilega tónlist, hlaðvarp eða útvarsþátt í 30 mínútur á dag gefur bæði af sér aukna orku, vellíðan og mikinn heilsufarslegan ávinning.
Meðalerfið eða erfið hreyfing í 30 mínútur á dag dregur úr hættu á:
- Hjartasjúkdómum
- Heilablóðfalli
- Ofþyngd og offitu
- Sykursýki tegund 2
- Ristilkrabbameini
- Brjóstakrabbameini
- Þunglyndi
- Kvíða
- Stoðkerfisverkjum
Eftir því sem að ákefðin eykst eða tíminn lengist er svo hægt að bæta heilsuna og minnka líkurnar á áhættuþáttum enn frekar. Æskilegt er fyrir fullorðna að stunda erfiða hreyfingu að minnsta kosti tvisvar í viku (20-30 mínútur í senn) til að viðhalda og bæta þol, vöðvastyrk, liðleika, jafnvægi og beinheilsu.
Mikilvægt er að hreyfingin sé skemmtileg og veiti viðkomandi gleði og vellíðan. Rannsóknir hafa sýnt fram á að til að einstaklingur nái að gera hreyfinguna að lífstíl að þá er mikilvægt að finna eitthvað sem veitir ánægju og gleði.
Þegar skoðað var hvaða einstaklingar það væru sem stunduðu hvað mesta hreyfingu í daglegu lífi að þá voru það þeir sem höfðu ánægju af hreyfingunni og fannst hún skemmtileg. Þeir sem stunduðu hvað minnsta hreyfingu voru þeir einstaklingar sem gerðu það allra helst til að auka lífsgæði og heilsufar.
Þar sjáum við hversu mikilvægt það er að finna eitthvað við hæfi hvers og eins og að prófa sig áfram. Hvort sem um ræðir göngu, dans, jóga, hlaup, hjól, lyftingar, crossfit, golf eða keppnisíþróttir að þá er mikilvægt að þetta sé eitthvað sem viðkomandi hefur gaman af og að hvatinn sé ekki eingöngu heilsufarslegur ávinningur.
Heimildir
https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/hreyfing/fullordnir/
https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0889159116305645
https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/15739857?dopt=Abstract
https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/18694433