Heimsókn í Lýsi hf. og mikilvægi D-vítamíns

Mánudaginn 25.mars síðastliðinn heimsótti ritstjóri NLFÍ, Lýsi hf. og tók Árni Geir Jónsson sölustjóri á móti mér. Lýsi er eitt af eldri og virtari fyrirtækjum landsins og hefur framleitt fiskilolíu (lýsi) ofan í okkur Íslendinga um áratugaskeið. Markmið þessarar heimsóknar var að fræðast um sögu, verkun og vinnslu á lýsi.

Mörg okkar þekkjum lýsið og inntaka á því er jafn eðlilegur hluti af morgunstörfunum og að bursta tennurnar. Þeir allra hörðustu í lýsisinntöku hafa byrjað daginn á gúlpsopa af lýsi áður en morgunmatur er borðaður.

Lýsi hf. er stofnað árið 1938 og eru starfsmenn þess í dag 140 og á síðasta ári var velta félagsins 7,8 milljarður. Það sem kemur kannski á óvart er að  innlend sala á lýsi(lýsisafurðum) var einungis 8% af heildinni og sala á erlendan markað 92% af framleiðslunni sem sýnir hversu lýsi og lýsisafurðir eru vinsælar afurðir á erlendum mörkuðum. Framleiðslugeta Lýsis hefur aukist mjög mikið undanfarna áratugi og sérstaklega undanfarin ár. Framleiðslan hefur uppá að bjóða nýjustu framleiðslutæki, fullkomna rannsóknarstofu og framleiðslustýringu. Rekjanleiki vöru er mikilvægur hluti af gæðaeftirliti Lýsis en allt það lýsi sem kemur á íslenskan neytendamarkað kemur af Íslandsmiðum sem fer í lýsisbræðslu hérlendis.  Lýsi flytur einnig inn hrálýsi til vinnslu, sem fer á erlenda markaði.

Það er varla hægt að tala um lýsi eða fiskolíur án þess að minnast á mikilvægi D-vítamíns, en Lýsi er mjög auðugt af D-vítamíni. D-vítamín er sérstaklega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga þar sem við búum það norðarlega á hnettinum og fáum því ekki D-vítamín frá sólinni eins og þeir sem búa sunnar. Þetta á sérstaklega við um vetrarmánuðina hér á Íslandi. D-vítamín er gríðarlega mikilvægt í líkamanumog stuðlar m.a að beinvexti. Við Íslendingar erum gríðarlega lánsöm að hafa þessi fengsælu fiskimið í kringum landið, því án þeirra er hætt við að D-vítamínskortur hefði hrjáð okkur.

Fiskiolíur eða lýsi eru líklega eitt elsta fæðubótarefni sem Íslendingar hafa neytt og þurfum við alla jafna að fá D-vítamín í fæðubót því það er af mjög skornum skammti í almennum matvörum okkar. Helstu matvörur sem innihalda D-vítamín eru feitur fiskur (t.d lax, silungur og síld), svo er fjörmjólk, léttmjólk, smjör og stoðmjólk sem eru allt D-vítamínbættar mjólkurvörur.

Ráðlagður dagsskammtur af D-vítamín eru 10 µg (míkrógrömm) fyrir börn og fullorðna að 61 árs aldri. Eftir 61 árs aldur eykst þörfin í 15 µg á dag. D-vítamínþörf er stundum gefið upp í IU (International Units) og eru 40 IU = 1 µg. Í 10 ml af lýsi eru 18,4 µg á D-vítamíni. Gæta verður að D-vítamínþörfinni hjá þeim sem eru:

  • Ungabörn, þar sem lítið er af D-vítamíni í móðurmjólkinni.
  • Eldri, vegna minni virkni líkamans.
  • Þeir sem eru of þungir, því líkamsfita þeirra bindur hluta af D-vítamíninu.

Þó ætti enginn að neyta óhóflega af D-vítamíni því það er fituleysanlegt vítamín og getur  safnast fyrir í líkamanum, ólíkt vatnsleysanlegu vítamínunum. Efri mörk á neyslu D-vítamíns fyrir fullorðna er 50 µg og of stórir skammtar geta leitt til eitrana sem s.s hækkunar á kalki í nýrum og nýrnabilunnar.

D-vítamín er vissulega hægt að fá frá öðrum fæðubótarefnum en lýsi. Það er þó ekki bara D-vítamínið sem gerir Lýsið að öflugri næringu heldur inniheldur það auk þess A-vítamín, E-vítamín, og nauðsynlegar omega-3 fitusýrur. Það væri hægt að skrifa langa pistla um hollusta þessara vítamína og fitusýra en látum við umfjöllunina um D-vítamín duga í bili.

Undirritaður vill þakka Lýsi hf. fyrir að leyfa mér að skyggnast inn í sögu þess og kynnast starfsseminni. Á mynd með þessari grein má sjá mynd af fyrstu árum lýsisframleiðslu á Íslandi.

Geir Gunnar Markússon ritstjóri NLFÍ og næringarfræðingur

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing