Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands

Það hefir lengi verið takmark óska og vona þeirra, er að Náttúrulækningafélagi Íslands standa, að takast mætti að koma upp heilsuhæli, sem starfrækt væri í anda þessarar stefnu.

Starfsemi þessa hælis mundi vera tvíþætt: 1. Taka á móti sjúklingum til lækninga. 2. Kenna mönnum, á hvern hátt koma megi í veg fyrir sjúkdóma, fyrst og fremst þá, sem eru bein afleiðing langvarandi neyzlu ónáttúrlegrar og illa samsettrar fæðu og annarra óeðlilegra lifnaðarhátta.

Slíkum hælum, sem hér er fyrirhugað, fer stöðugt fjölgandi erlendis. Til þeirra sækir árlega fjöldi fólks nýja heilsu, nýja von, nýjan skilning, ný viðhorf til lífsins og nýjan lífsþrótt.

Í þessum hælum er fengin víðtæk reynsla og dýrmæt fyrir því, að lifandi fæða er einhver veigamesta vörn og sókn gegn fjölda þeirra sjúkdóma, er þjá dauðlegt mannkyn og rænir það heilsu og hamingju.

Því miður er heilsuleysi í einni og annarri mynd svo algengt, að fólk er næstum farið að trúa því, að vanheilsa sé eðlilegt og óumflýjanlegt ástand. En því fer fjarri.

Náttúrulækningastefnan lítur svo á, og byggir þar á fenginni reynslu og rannsóknum, að góð heilsa eða fullkomin heilbrigði og sú hamingjutilfinning, sem henni er samfara, geti orðið hlutskipti flestra manna. Vér uppskerum eins og vér sáum.

Náttúrulækningastefnan leitast við að kynnast sem bezt því lögmáli, sem ræður fullkominni heilbrigði, og hagnýta sér þá þekkingu til þess að vinna bug á sjúkdómum og vernda heilsuna. Erlendis vex þessari stefnu ört fylgi meðal allra stétta, og sú reynsla, sem þegar er fengin, lofar miklu og þarf að verða hvers manns eign, eign allrar þjóðarinnar og allra þjóða. En ekkert getur stuðlað betur að því en stofnun heilsuhæla, þar sem fólk getur dvalið sér til lækninga og hressingar, hlotið fræðslu og lært að lifa heilnæmu lífi, þreifað á og séð árangurinn af hinum nýju lækningaaðferðum. En þær eru aðallega fólgnar í heilnæmu og viðeigandi mataræði, góðri húðræstingu, útivist og hæfilegri hreyfingu og hvíld.

Mikið hefir verið rætt um þörf á fleiri og stærri sjúkrahúsum, og öllum er sú þörf ljós. En oss verður líka að vera það ljóst, að það er vonlaust verk að ætla sér að ráða niðurlögum sjúkdóma með byggingu nýrra sjúkrahúsa, ef orsakir sjúkdómanna eru látnar afskiptalausar að mestu leyti.

Úr þessari vöntun á heilsuhæli vort að bæta. Ennfremur hefir nýlega verið á það bent af Sigurði Sigurðssyni, berklayfirlækni, að brýn nauðsyn sé á að koma upp heilsuhæli, þar sem hægt sé að koma fyrir sjúklingum, sem þarfnast ekki sérstakra læknisaðgerða eða eru að ná sér eftir veikindi. Þessir sjúklingar taka það mikið rúm í sjúkrahúsunum, að oft er ekki unnt að koma þangað sjúklingum, er þurfa skjótra læknisaðgerða við, en ef til vill aðeins skamma sjúkrahúsvist. Heilsuhæli vort mundi að sjálfsögðu bæta nokkuð úr þessum vandræðum. Og varla þarf að taka það fram, að það verður rekið í samræmi við gildandi lög um sjúkrahús og heilsuhæli og með samþykki heilbrigðisstjórnar landsins.

Því miður er félag vort ekki svo efnum búið, að það megni af eigin ramleik að hrinda í framkvæmd byggingu heilsuhælisins. Félagið hefir nýlega keypt jörðina Gröf í Hrunamannahreppi í Árnessýslu og langar til að geta komið þar upp þó ekki væri nema vísi að heilsuhæli. Og með því að hæli þetta á að standa opið öllum landslýð, hvort sem menn aðhyllast stefnu félagsins eða ekki, þá er eðlilegt, að félagið leiti til almennings um fjárframlög og aðra aðstoð.

Á tímum þess peningaflóðs, sem streymir yfir landið, ætti víða að vera til skilningur á því, að beztu vextina af peningum sínum fá menn ekki ætíð með því að leggja þá inn í banka eða í gróðafyrirtæki. Enginn getur ávaxtað fé sitt betur en með því að leggja það í fyrirtæki til þjóðþrifa og mannheilla. Og ég þekki ekkert mál svo aðkallandi, svo guðsþakkarvert og eins líklegt til að gefa þúsundfaldan arð í aukinni heilbrigði og hamingju og þetta heilsuhælismál.
„Hvað vannst þú drottins veröld til þarfa?

Þess verður þú spurður um sólarlag“,segir skáldið. Ég býst við, að enginn sleppi við að svara þessari spurningu að lokum.

Vilt þú, ungur eða gamall, karl eða kona, rétta oss hjálparhönd til að koma þessu velferðarmáli í framkvæmd og stuðla þannig að því að bjarga lífi og heilsu meðbræðra þinna eða sjálfs þín? Eitt er víst, að enginn fer með þá fjármuni, er mölur og ryð granda, er hann flytur búferlum héðan. Og enginn getur vitað, nema hann sjálfur eða hans nánustu njóti ávaxtanna af þeim skildingum og því liðsinni, sem hann leggur þessu máli.

Ég vænti góðs skilnings og góðra undirtekta, ekki aðeins af þeim, sem hafa starfað af áhuga í félagi voru, heldur og af fjölda óþekktra vina og velunnara. Og ég sný máli mínu til allra hugsandi manna og kvenna, sem þessar línur lesa:

Leggið oss fjárhagslegt lið, eftir því sem efni, ástæður og áhugi yðar á málinu blæs yður í brjóst. En leggið oss einnig til góðar og styrkjandi hugsanir. Þær eru líka mikils virði.

Minnist þess, að HEILSUVERND ER BETRI EN NOKKUR LÆKNING.

Jónas Kristjánsson.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi