Það er nú staðfest af útreikningum verðgæzlunnar, að vegna nýrra tolla á neyzluvörum hafi algengustu matvörutegundir hækkað um 8-9%, en nýir ávextir um hvorki meira né minna en 24,8%.
Ég hafði áður heyrt, að þetta væri í vændum, en trúði því varla, og ég verð að segja, að mér fannst þetta eins og hnefahögg í andlit heilbrigðrar skynsemi. Það er sama og að taka brauðið frá börnunum að setja hömlur fyrir neyzlu almennings á þessari lífsnauðsynlegu fæðu, en miklum fjölda manna verður gert ókleift að neyta hennar að nokkru ráði, þegar verðið er þannig hækkað úr öllu valdi.
Nýir ávextir eru þjóð vorri því nauðsynlegri, sem vér erum sviptir lífgandi áhrifum sólarljóssins lengri tíma af árinu en suðlægari þjóðir. Menn verða að nærast á lifandi fæðu fyrst og síðast, fæðu, sem felur sem mest í sér af geislamagni sólarinnar. En lifandi ávextir eru einkum þrungnir þessum lífskrafti; og það má ekki gera mönnum erfitt fyrir um öflun þeirra, hvað sem öðru líður. Slíkt er óhappaverk hið mesta og mun hefna sín á margan hátt.
Orsök flestra þeirra meina, sem menn eru haldnir, er skortur á lifandi fæðu. Á meðan hvorki læknastétt né stjórnarvöld bera fullt skyn á þýðingu hennar fyrir heilbrigði manna, er ekki við öðru að búast en misfellasamt verði um heilsufar þjóðarinnar. Líf verður að nærast á lífi. Það er frumregla, sem ekki tjáir að brjóta. Sjálfur faðir læknisfræðinnar, sem svo hefur verið kallaður, Hippokrates, hélt þá frumreglu í heiðri og gaf það boðorð, að fæðan ein skyldi vera mönnum læknislyf. Hann vissi sem var, að með neyzlu lifandi fæðu er komið í veg fyrir sjúkdóma og hrörnandi líkami byggður upp að nýju, en ýmiskonar lyf gera hinsvegar löngum meira tjón en gagn.
Mér er sagt, að árlega séu nú flutt inn hingað lyf fyrir meira en 9 milljónir króna. Bak við þessa óþörfu og viðsjárverðu ofnotkun lyfja liggur vantrú á lífið sjálft og mátt þess til að endurnýja starfstæki sín, ef lögmálum þess er hlýtt. Og lökust af allri þessari lyfjahjátrú er trúin á eiturlyfin, þegar bakteríueyðandi efnum er ætlað að drepa sýkla í líkamanum, enda þótt efni þessi hálfdeyði líkamann sjálfan um leið, og bakteríurnar lifni svo margfalt fljótar aftur en líkaminn, og nái sér því betur niðri.
Meðal þess fólks á jörðinni, sem hraustast er, eru lyf óþekkt. Hins vegar verða hinar siðmenntuðu þjóðir æ krankfelldari, og meðal hinna krankfelldustu stétta eru læknarnir. Þeir trúa á lyf en ekki líf. Og í stað þess að ráðast gegn sjúkdómsorsökunum lækna þeir aðeins sjúkdómana.
Hin óverjandi ráðstöfun að hækka enn stórlega tolla á lifandi ávöxtum, sem sannarlega voru nógu dýrir fyrir, á rætur að rekja til þessarar vantrúar á lífið og oftrúar á lyfin. Hún er slíkt tilræði við almenna heilbrigði í landinu, að full ástæða er til að mótmæla henni kröftuglega og benda stjórnmálamönnum vorum á, að fyrr en síðar hljóta þeir að verða sóttir til ábyrgðar fyrir slíkt athæfi, ef þeir ætla að láta svo búið standa, í stað þess að bæta sem bráðast úr þessari yfirsjón með nýrri löggjöf.
Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1956.