Góð næring á tímum COVID-19 faraldurs

Sjaldan eða aldrei hefur verið jafn mikilvægt að nærast vel eins og núna í heimsfaraldri COVID-19 veirunnar. En sjaldan eða aldrei höfum við líka gripið eins mikið í óhollustu og áfengi eins og nú á tímum samkomubanns og mikillar heimaveru. Þetta er mjög öfugsnúið og við erum síður en svo tilbúin að berjast við þessa veiru líkamlega eða andlega þegar við erum hálf drukkin og útbelgd af skyndibita og sætindum.

Hér er ýmislegt tengt næringu til að hafa í huga á tímum COVID-19

Minna af sætindum og skyndibita
Þetta samgöngubann er ekki tveggja mánaða „kósýhelgi“ og það endar með ósköpum ef við ætlum að úða í sætindum og skyndibita í öll mál. Notið meira af ferskum ávöxtum sem er nammi náttúrunnar.
Það er ótrúlega jákvætt að nammibarir verslana hafi lokað í þessum faraldri og það vonandi að það verði svo áfram og við Íslendingar afleggjum þetta ljóta ósið og úða í okkur sætindum um helgar.
Hér má finna grein um leiðir að sykurlitlum lífsstíl.
Hreyfingarleysi, innivera og óhollur matur kallar á meiri óhollan mat og þarf maður því að rjúfa hring óhollustunnar og komi góðri næringu ofan í sig, hreyfa sig og fara út í náttúruna reglulega.
Notum þetta samkomubann og úbúum næringarríkar máltíðir með fjölskyldunni nú þegar allir eru heima og endilega leyfið börnunum að vera með í matseldinni og öllum undirbúningi að frágangi máltíðarinnar. Það er eitt af grunnatriðum uppeldis að kenna börnum sínum að útbúa mat, að umgangast hollan mat og njóta samveru á matmálstímum.

Minna áfengi
Ég er ekki vinsælasti gæinn að vera að hvetja til minni áfengisneyslu því mikil aukning hefur verið í sölu á áfengi núna í Covid-19 faraldrinum miðað við síðasta ár. Það er það sama með áfengið og sætindin, við erum ekki í langri kósýhelgi og það má ekki leyfa sér að vera alltaf að drekka áfengi þó þú þurfir ekki að keyra í vinnu og allir dagar eru eins og langir laugardagar.
Það er líka mýta að áfengi hjálpi eitthvað í baráttu við COVID-19 veiruna og er það oftast síður en svo. Áfengi skerðir dómgreind okkar og við erum líklegri til að virða ekki samkomubann, 2 metra fjarlægðar regluna og aðrar aðgerðir sem stjórnvöld eru að beita til að stuðla að minni útbreiðslu COVID-19.
Við erum mikið með börnin okkar á heimili allan daginn í þessu samkomubanni og það er ekki skynsamlegt að vera „blautur“ í kringum börnin sín heilu og hálfu dagana.
Farið út í klukkutíma hörku göngutúr og endórfínvíman sem þið munið upplifa eftir það er á víð 2 rauðvínsflöskur.

Hollari og covid „vænni“ matarinnkaup
Við eigum ekki að vera að slóra mikið í búðum nú á tímum COVID-19 og því mikilvægt að vera vel undirbúinn undir búðarferðina með því að vera með latexhanska,  gerið innkaupalista, farið ein í búðina, þekkið búiðina ykkar, fylgið sóttvörnum í búðinni og ekki hamstra matvörur eða aðrar nauðsynjar.
Hér eru góðar reglur til að hafa í heiðri að hollari matarinnkaupum.
Til þess að gæta vel að geymslu hollu matvaranna þegar heim er komið er gott að kynna sér geymsluskilyrði ávaxta á grænmetis hér.

Lífsstíll og bætiefni
Því miður eru engin bætiefni sem geta bjargað okkur frá því að fá COVID-19 veiruna eins margir söluaðliar bætiefni sem eru að lofsynja C-vítamín, fríar fitusýrur eðasérstakar blöndur ofnæmisstyrkjandi bætiefna.
Það fyrsta sem getur styrkt ónæmiskerfið er heilbrigður lífsstíll með hollu og reglulegu mataræði, góðum nætursvefni, reglulegri hreyfingu og góðri andlegri heilsu. Þú bjargar þér ekki frá COVID-19 veirunni bara með því að taka nokkrar „ónæmisstyrkandi“ bætiefnatöflur ef lífsstílinn er í tómu rugli.

Við getum fengið flest þau vítamín og steinefni sem líkaminn þarf til að styrkja ofnæmiskerfið með fjölbreyttu fæðu s.s. C-vítamín og er skortur nær óþekktur hér á landi. Hins vegar er skortur á D-vítamíni nokkuð algengur hér á landi því við búum svo norðarlega á hnettinum að við fáum ekki nægilegt D-vítamín frá sólinni og D-vítamín í er ekki alengt í matvörum. Þeir sem hafa ekki verið að taka D-vítamín eða lýsi að staðaldri mega gjarnan byrja á því ekki seinna en í dag.
Talið er að fríar fitusýrur eyðileggi svokallaðar hjúpaðar veirur eins og COVID-19 veiran er, en hún er með fituhimnuhjúp í kringum sig. En rannsóknir á þessu eru enn ófullnægjandi og mestar á dýrum. En um leið og það koma fram vísbendingar um að fríar fitusýrur bjargi okkur algerlega frá því að smitast af COVID-19 veirunni þá get ég lofað því að Alma Möller landlæknir muni tilkynna okkur öllum það á daglegum fréttamannifundi og hvetja okkur til að neyta þeirra.

Það besta sem við gerum nú er að borða fjölbreytta fæðu og sérstaklega að neyta mikið af litríku grænmeti og ávöxtum. Grænkál er t.d. mjög járnríkt og rauð paprika og appelsína eru C-vítamínríkar. Stefna að þrem skömmtum (100 g) af grænmeti og tvo skammta af ávöxtum á dag. Þetta er miklu betri næring fyrir líkama og sál en allt sukkfæðið og sælgætið sem alltof margir eru að neyta ótæpilega af nú á tímum.

Munum slagorð Heilsustofnunar NLFÍ á þessum skrítnu tímum „berum ábyrgð á eigin heilsu“.

Heimildir:
https://www.krabb.is/fraedsla-forvarnir/midlar/fraedslupistlar/covid-19-naering-og-matvaeli
http://www.euro.who.int/en/health-topics/health-emergencies/coronavirus-covid-19/novel-coronavirus-2019-ncov-technical-guidance/food-and-nutrition-tips-during-self-quarantine
https://www.mannlif.is/frettir/innlent/islendingar-halla-ser-ad-floskunni/
https://www.visir.is/g/2020200319811/svona-er-haegt-ad-styrkja-onaemiskerfid-a-timum-koronuveirunnar
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=78820

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing