Geiragrautur

Undanfarin ár hefur undirritaður borðað hafragraut og virðist aldrei fá leið á honum. Þetta er ein besta stund dagsins að njóta morgungrautsins, drekka kaffibollann og lesa blöðin.

Mig langar að deila uppskriftinni af þessum graut mínum og vona að með því hvetji ég fleiri til að leggja grunn að góðum degi með hollum morgunverði.

Uppskrift – Geiragrautur

  • 1 ½ dl haframjöl
  • 3 dl vatn
  • 10-15 stk. möndlur
  • 1 msk kókosflögur
  • 1 tsk chiafræ
  • 1 msk fræblanda úr Costco (Linwoods, mulin hör-, sólblóma-, graskers- og sesamfræ)
  • ½ niðurskorið epli
  • 1 tsk kanill

Aðferð
Hitið vatnið og haframjölið og bætið chiafræjum í. Að því loknu er hafragrauturinn settur í skál og öllum hinum innihaldsefnunum bætt við. Ef grauturinn er of þykkur eða heitur er fínt að bæta við smá mjólk og smá rjómi er eðal um helgar.

Þessi máltíð er ekki fullkomnuð fyrr en ég hef fengið mér einn góðan gúlpsopa af lýsi.

Þetta er skammtur fyrir frekar aktífan karlmann. 1 dl haframjöl er líklega hæfilegur skammtur fyrir flesta.

Njótið vel kæru lesendur.

Geir Gunnar Markússon, næringarfræðingur og ritstjóri NLFÍ, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing