Friður, úrvals næring og góð hreyfing í Hveragerði

Ég er í meistaranámi í Lýðheilsuvísindum í Háskóla Íslands. Hluti af einu námskeiðinu er að velja sér vettvang í heilbrigðisþjónustunni og stjórnanda til að fylgjast með í þrjá daga. Auðvitað valdi ég Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði og að fylgjast með Margréti Grímsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar við Heilsustofnun. Ég valdi Heilsustofnun vegna þess að ég hef mjög mikinn áhuga á að kynnast starfseminni þar enn betur, því ég veit að þar fer fram mikil heilsuefling. Heilsustefna HNLFÍ miðar að því að hjálpa veiku fólki að ná bata, en þar fer einnig fram öflug forvarnarstarfsemi, en forvarnir eiga auðvitað mikinn þátt í því að efla fólk til heilbrigðari lífsstíls. Á HNLFÍ kemur fólk saman úr ýmsum áttum sem er að glíma við veikindi eða vill fyrirbyggja veikindi með heilbrigðum lífsstíl. Það sem ég hafði meðal annars hug á að kynna mér á Heilsustofnun er hvernig Heilsustofnun beitir forvörnum gegn lífsstílssjúkdómum og fræðir gesti sína um heilbrigðar leiðir til þess að koma í veg fyrir eða snúa við þróun þessarra sjúkdóma, sem eru algengustu sjúkdómarnir í heiminum í dag.

Í einu verkefninu í námskeiðinu hafði ég áhuga á því að skoða sérstaklega þróunina á fjölda þeirra sem greindust með hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi á árunum 2006 til 2010 og hversu margir af þeim leituðu til Heilsustofnunar. Ástæðan er vegna efnahagshrunsins sem átti sér stað í lok árs 2008. Ég taldi athyglisvert að vita hvort fleiri hefðu greinst með hjarta- og æðasjúkdóma í kjölfarið á hruninu, því sýnt hefur verið fram á með fjölda rannsókna að sterk viðbrögð í hjarta- og æðakerfinu við sálfræðilegri streitu er áhættuþáttur fyrir þróun hjarta- og æðasjúkdóma. Ég rakst á góða grein sem birtist á vefsíðu Vísis árið 2011: „Lífsreynslan hefur áhrif á heilsufar“, en þar segir meðal annars að of mikil áhersla sé lögð á að fara eftir leiðbeiningum sem einblína einungis á líffræði líkamans, en áhrif streitu á líkamann sé nánast ekkert athuguð, að mikilvægi lífsreynslu og umhverfis sjúklinga sé það sem skipti mestu máli. Aðrar ástæður aukningar á greiningu hjarta-og æðasjúkdóma eftir hrun gætu verið margar, en hægt er að geta sér til um að þær tengist meðal annars auknu álagi og streitu, ódýrara fæðuvali sem er næringarsnauðara, meiri vinnu og í kjölfarið minni hreyfingu.

Álag og streita fara illa með marga í dag og ég gladdist að sjá að einhverjir af þeim sem þjást af álagi og streitu leita til Heilsustofnunar til þess að draga sig út úr áreiti daglegs lífs, með það að markmiði að finna hvíld og frið. Mikið var talað um hversu gott væri að vera laus við símana og tölvurnar og allt slíkt áreiti. Fólk var sammála um að best væri að vera bara með slökkt á símanum sínum þegar að maður vildi frið. Ekki nóg með að fólk fái kærkomna hvíld þegar að það kemur inn á Heilsustofnun, heldur er einnig svo mikið af heilsueflandi dagsskrá í boði. Ég fékk að fylgjast með og taka þátt í þessum heilsusamlegu viðburðum, meðal annars eru mislangir og erfiðir göngutúrar í náttúrunni, gjörhyglistund, slökun, böð og ýmis konar fræðsla. Það var virkilega gaman að sjá hvernig fólk ljómaði eftir göngutúrana, hreyfingin og náttúran gerir fólki svo gott. Það vita allir nú til dags hversu nauðsynlegt það er að stunda einhverja hreyfingu eða líkamsrækt. Best er ef hreyfingin sem stunduð er sé regluleg og hluti af daglegu lífi. Ónæmiskerfi líkamans virkar þá mun betur og helst í betra jafnvægi. Einnig fannst mér áhugavert hversu margir sóttu í gjörhyglistundina. Þar er leiðbeinandi sem leiðir fólk í gegnum hugleiðslu. Afar slakandi og gott. Almennt virtist sem fólki liði rosalega vel á stofnuninni, hvað svo sem það tók sér fyrir hendur.

Það er ekki aðeins heilsueflandi dagsskrá í boði á Heilsustofnun, heldur er einnig passað upp á að dvalargestir fái næringarríkan mat á hverjum degi. Litið er á matinn sem hluta af meðferðinni. Frábært var að sjá það úrval af fersku hráefni sem boðið er upp á. Þar er fjölbreytt grænmetisfæði á boðstólnum á hverjum degi, heilsute úr villtum íslenskum lækningajurtum og engin unnin matvæli. Hvergi er að finna ódýrt, næringarsnautt fæðuval, eins og það sem hefur verið ráðandi í mataræði þjóðarinnar síðastliðna áratugi. Ég las síðan áhugaverða grein eftir Jónas Kristjánsson, lækni og einn af brautryðjendum náttúrulækningastefnunnar á Íslandi, sem hann skrifaði árið 1957. Þar talar hann um hvítt brauð, uppruna þess og hrikalegar afleiðingar þess á líkamsstarfsemi mannanna. Hann skilur ekkert í vinsældum þessa brauðs og vonar að fólk eigi eftir að hætta þeim ósið að borða hvítt brauð. Hann segir: „Það er ekki hægt að sjá, hvort [hvítt hveiti] er malað úr góðu eða gömlu korni. Þessi hvíti litur leyndi göllunum. Þetta var gert með því að blanda ýmsum efnum saman við, sem höfðu þessi áhrif. Sum þessi eiturefni voru meira og minna viðsjárverð. Þannig hefur hvíta hveitið ekki aðeins verið svipt sínum kostum heldur meira og minna mengað eitri. Nú er svo komið, að þetta skaðlega mjöl er ríkjandi borðréttur og hefur náð geysilegri útbreiðslu. Þetta hvíta hveiti hefur orðið hættulegur sjúkdómaframleiðandi. Enn er ekki ljósunum að því lýst, hve miklu tjóni það hefur valdið á heilsu manna. En vaninn er sterkur máttur og enginn veit, hve lengi þetta kann að endast. En þetta er fæða sem leiðir frekar til dauða en heilbrigði“ (https://nlfi.is/hversvegna). Einnig talar hann um að hvíta hveitið sé „steindauð fæða og til þess eins að framleiða sjúkdóma“ og spyr í lokin hve lengi halda eigi áfram að rækta sjúkdóma með dauðum fæðutegundum. Jónas hitti beint í mark með þessum pælingum sínum um hvítt hveiti og brauð (og allar hinar ofur-unnu vörurnar). Í dag vitum við að hvítt brauð er óhollara en trefjaríkt heilkornabrauð, en þó eru enn margir sem borða hvítt brauð daginn út og inn, sem og ýmis konar aðrar vörur sem eru jafn mikið unnar og næringarsnauðar; hvítt hveiti, hvít hrísgrjón, hvítur sykur o.s.frv.. Heilhveiti, hveitiklíð og hýðishrísgrjón eru rík af vítamínum, steinefnum og trefjum. Í heilhveiti er að finna lífsnauðsynleg næringarefni og hýðishrísgrjón hafa heilt hýði, þau innihalda trefjar, B-vítamín, E-vítamín og steinefni. Ef uppistaðan í fæði fólks er mest unnar vörur, þá verður þörfinni fyrir lífsnauðsynleg næringarefni ekki fullnægt. Það getur leitt til næringarefnaskorts, sem getur haft slæm áhrif á líkamann. Best er að borða í mjög litlu magni sykurríkt morgunkorn, hvítt brauð, kex, kökur, flögur, hvít hrísgrjón og hvítt pasta, en auðvitað er best að sleppa þessu alveg.  Gott er að fá sér grófkornabrauð, ávexti, grænmeti, brún/hýðishrísgrjón, hveilhveitipasta, hafra, bygg, baunir, linsubaunir og sætar kartöflur. Þetta eru allt matvæli sem Heilsustofnun býður gestum sínum upp á á hverjum degi og einnig er þetta lystilega fram sett af matreiðslumeistaranum.

Þessa þrjá daga sem ég var gestur á Heilsustofnun varð ég þess vís að margir sem þjást af hjarta- og æðasjúkdómum leita til Heilsustofnunar á hverju ári. Dvölin þar gerir slíkum sjúklingum, sem og öðrum, afar gott. Ekki hef ég enn fengið nánar tölur um hversu margir greindust með hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi á árunum 2006-2010, né hversu margir sóttu til stofnuninnar fyrir og eftir hrun, en miðað við hversu mikið álag hefur verið á fólki í samfélaginu eftir þessar miklu breytingar má ætla að það hafi orðið fjölgun. Meðal annars vegna þessa er Heilsustofnun sérstaklega mikilvægt úrræði fyrir fólk sem þjáist af ýmis konar veikindum, tengdum álagi og streitu, en ekki síður mikilvæg stofnun fyrir fólk sem langar til að viðhalda heilbrigði sínu.

Ég tel að ég hafi lært mikið af því að fylgjast með starfsemi Heilsustofnunar og Margréti í sínu starfi. Á Heilsustofnun fer fram þverfagleg meðferð, fylgst er náið með framkvæmd hennar og árangur hennar metinn. Heilsustofnun leggur áherslu á forvarnarstarfsemi, þar sem dvalargestir fá hjálp við að breyta lífsstíl sínum og draga úr líkum á því að þróa með sér sjúkdóma. Markmiðið er að gestir hafi að lokinni meðferð aukið lífsgæði sín og hafi þekkingu til að viðhalda heilsu sinni þegar að heim er komið. Að mínu mati hefðu allir gott af því að dvelja á Heilsustofnun. Almennt er fólk mjög ánægt með upplifunina af því að dvelja þar og fer þaðan heilbrigðara og með aukna þekkingu á heilbrigðum lífsstíl sem það getur nýtt sér í framhaldinu.

Ragna Ingólfsdóttir

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing