Fáein orð um fitu í fæði

Kólesterol nefnist sérstök fitutegund, sem hefur sínu hlutverki að gegna í efnaskiptum líkamans, en getur þó stundum orðið vargur í véum. Augljóst samband virðist vera milli kolesterolmagns í blóði og æðakölkunar, þar á meðal kransæðakölkunar í hjarta, sem verður mörgum tiltölulega ungum mönnum að aldurtila nú á dögum.

Kolesterolið hleðst í æðaveggina og veldur þannig skemmdum og stíflun, ef óeðlilega mikið er af því í blóði manna. Kolesterolmagn í blóði er undir ýmsu komið, en mikilvægasti þátturinn er þó fæðið, einkum fituinnihald þess. Sumir álíta, að einu gildi, hvers konar fitu sé neytt. Þetta virðist þó stangast á við þá staðreynd, að sumar þjóðir, sem fram undir þetta hafa neytt mikillar fitu í fæðu sinni, eru lausar við kransæðakölkun. Einhverjir kynnu að segja, að aðrar ástæður lægju til að svo væri, þrátt fyrir fæðið, en út í þá sálma skal ekki farið að þessu sinni.

Markmið þessarar greinar er að vekja athygli á tilraunum, sem segir frá í enska læknablaðinu, The Lancet (14. janúar 1956, bls. 101).

Tilraunirnar voru gerðar í því skyni að rannsaka áhrif fitutegunda í fæði á kolesterol í blóði. Tilraunir þessar voru gerðar á sjálfboðaliðum. Aðal fæðutegundir í fæði þeirra voru maismjöl og hvítt brauð (fitumagn áætlað 3% hitaeininga). Við þetta grunnfæði var bætt sykri og kaseini (eggjahvítuefni úr mjólk). Síðan var bætt við grunnfæðið hæfilegu magni fitu af ýmsum tegundum til þess að a.m.k. 45% hitaeininga fæðisins kæmu úr henni. Við þessi skilyrði hafði fita úr nautakjöti, eggjum og smjöri þau áhrif, að kolesterol í blóði jókst mikið þegar í stað. Neyzla tilsvarandi fitumagns af jurtaolíum hafði enga aukningu í för með sér. Væri aftur á móti notuð hert jarðhnetuolía, jókst kolesterolið.

Þegar olía er hert, taka ómettaðar fitusýrur, sem í henni eru, til sín vetni og breytast þannig í mettaðar fitusýrur, en við það hækkar bræðslumark fitunnar, sem verður föst við venjulegt hitastig og líkist þá fitu landdýra. Með sérstakri aðferð var sólarblóma-olía skilin. Fékkst þannig ein tegund fitu með miklu magni af lítið mettuðum fitusýrum. Þessar fitutegundir voru reyndar við mann, sem fékk ákveðinn skammt af kolesterol með grunnfæðinu, en við það jókst kolesterol í blóði hans. Það minnkaði, ef hann fékk ómettuðu sýrurnar með fæðinu, en jókst við mettuðu sýrurnar.

Fita sú, sem Eskimóar neyta, er að miklu leyti úr sjávardýrum. Olíur úr þeim, svo sem fisk-, sel- og hvallýsi, líkjast jurtaolíum að því leyti, að þær eru auðugar af lítið mettuðum fitusýrum. Tilraun, sem gerð var með sellýsi, sýndi, að kolesterol jókst ekki í blóði við neyzlu þess. Þessar tilraunir sýna, að fitusýrusamsetning fitunnar, sem neytt er, ræður miklu um kolesterolmagn í blóði. Niðurstöður tilraunanna voru hinar sömu, þó að breytt væri til um hitagildi fæðunnar og eggjahvítuinnihald. Hveiti- og mais-kím eru auðug af lítið mettuðum fitusýrum og auk þess af E bætiefni.

Á stríðsárunum neyddust Norðmenn til þess að nota olíur úr jurtum og sjávardýrum meira en áður vegna skorts á öðru feitmeti og skemmda á lýsisherzlustöðvum af völdum ófriðarins. Þessi fæðisbreyting gæti skýrt mikla fækkun mannsláta af sjúkdómum í æðakerfi, sem varð skömmu eftir að þýzka hernámið hófst. Veltur það mjög á skoðun manna á orsakasambandinu milli kolesterols í blóði og æðasjúkdóma, hvort þeim virðist slík tilgáta sennileg. Vissulega getur fleira komið til.

Hefur nú verið rakið aðalefni greinarinnar í The Lancet og leitast við að gera það á alþýðlegu máli. Við það glatast nokkuð af vísindalegri nákvæmni, en efnið verður aðgengilegra þorra manna. Höfundar greinarinnar geta þess, að enn hafi ekki verið birtar ítarlegar skýrslur um tilraunir þær, sem nefndar eru. Greinin er birt sem svar við skoðunum, sem fram komu í sama blaði (des. 1955) og höfundar gátu ekki fallizt á. Þetta skýrir, að greinin er dálítið sundurlaus að framsetningu.

Svo framarlega sem þessar rannsóknir reynast á traustum grunni reistar, geta þeir, sem hafa hug á að halda lífi og heilsu, nokkuð af þeim lært

1. Fita, sem inniheldur mikið af mettuðum fitusýrum, eykur kolesterolmagn blóðsins og getur því sennilega átt ríkan þátt í skemmdum æðum líkamans. Fita landdýra ásamt hertum olíum er í þessum flokki.

2. Fita, sem inniheldur mikið af lítið mettuðum fitusýrum, eykur ekki kólesterolmagn blóðsins og virðist geta vegið upp að einhverju leyti óheppileg áhrif þeirra fitutegunda, sem fyrr voru nefndar. Í þessum flokki eru jurtaolíur og lýsi.

Það er athyglisvert að vísindin virðast nú vera í þann veginn að sanna, að lýsisherzlustöðvar séu í raun og veru hin mestu skaðræðisfyrirtæki, sem vinni að því að breyta heilnæmum fitutegundum í óheilnæmar. Varla þarf að hugsa sér, að þeirri starfsemi yrði hætt, þó að "fáein„ mannslíf fari í súginn. Það ber ekki á öðru en að hvítt hveiti og viðlíka fæðutegundir séu framleiddar eftir sem áður, þó að vísindin hafi löngu sannað, að þær eru sviptar sumum heilnæmustu þáttum hráefnisins. Fjárgróða sjónarmið ein ráða stefnunni. Tæknivísindin eru notuð, af því að það borgar sig, en manneldisvísindin eru virt að vettugi. Vakni einhver grunur hjá neytendum, er hann svæfður með því, að bæta í hina skemmdu vöru einhverri hungurlús af einu eða fleiri bætiefnum. Svo er því haldið fram, að þá sé varan jafngóð eða jafnvel betri en hún kemur úr ríki náttúrunnar. Það er varla von, að almenningur skilji í þeim skollaleik. Auk þess er oft blandað í fæðuna framandi efnum, sem ekki getur talizt sannað að séu meinlaus. Hefur jafnvel komið fyrir, að slíkt efni hefur reynzt öflugur meinvaki (t.d. efni, sem vekur krabbamein).

Þetta verður að breytast. Tæknin hefur þróast án tillits til mannsins með þeim árangri, að margir nýir sjúkdómar eru teknir að hrjá mannkynið. Þessir sjúkdómar eru oft nefndir "menningarsjúkdómar„. Fínt er nafnið. En víst er um það, að sú menning er sjúk, sem haldin er slíkum ófögnuði.

Rás tímans verður ekki stöðvuð. Heimurinn kemst ekki hjá að nota verksmiðjur til matvælaframleiðslu, ef takast á að vinna bug á sultinum, sem enn þjáir margar þjóðir. En sú framleiðsla verður að gefa gaum þeim sannindum, sem reynzla liðinna kynslóða hefur leitt í ljós og vísindin eru smátt og smátt að staðfesta, ef menning nútímans á að reynast lífseigari en glötuð menning gleymdra þjóða.

Til þess þarf víðtæka fræðslu, reista á grunni allrar ósvikinnar menningar, sem er virðingin fyrir lífi og sannleika.

Ú.R.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing