Étum drullu!

Sótthreinsisprey, blautþurrkur og aðrir hreinsimiðlar virðast verða stöðugt vinsælli. Um leið og umhverfið sem börnin okkar alast upp í verður stöðugt hreinna og „heilsusamlegra“ virðist sem ofnæmi og sjúkdómar aukist bara, sérstaklega í börnum.
Ýmsar nýlegar rannsóknir benda til þess að snerting við óhreinindi, ryk og drullu sé börnum nauðsynleg til þess að byggja upp sterkt ónæmiskerfi. Þol ónæmiskerfisins eykst eftir því sem það þjálfast meira í að eiga við bakteríur og gerla. Og í raun hljómar það alveg rökrétt. Við styrkjum ekki magavöðvana mikið með því að passa að við þurfum aldrei að reyna á þá, heldur einmitt með því að þjálfa þá upp með hæfilegu álagi. Það sama á við um ónæmiskerfið.

Í Sviss var unnin rannsókn á 800 börnum þar sem kannað var hversu líkleg þau væru til þess að fá astma eða ofnæmi. Sum þessara barna ólust á bóndabæjum og voru því í mikilli snertingu við ýmiskonar ryk og drullu, þar með talið dýraúrgang. Sýni voru tekin úr rúmum þeirra allra og borin saman við ofnæmisviðbrögð þeirra. Andstætt því sem halda mætti, þá voru þau börn hraustust og minnst líkleg til að þróa ofnæmi eða astma sem voru með mest ryk í rúmum sínum.
Ályktun rannsóknarinnar var því sú að í ryki væri að finna endotoxin sem örvuðu ónæmiskerfið og styrktu það, svipað og bólusetning virkar.
Þetta er í samræmi við aðrar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að börn sem alast upp með gæludýr eru ólíklegri til þess að fá ofnæmi eða astma en börn sem ekki komast í nána snertingu við dýr. Tímasetningin er þó mjög mikilvæg í þessu. Því fyrr sem börnin komast í snertingu við rykið, jafnvel strax á fyrstu dögum ævinnar, þeim mun sterkara var ónæmiskerfi þeirra.
Ýmsar breytur geta haft áhrif á rannsóknir sem þessa, þannig að önnur rannsókn var framkvæmd þar umhverfinu var stýrt. Annars vegar voru mýs í óhreinu umhverfi og hins vegar mýs í algjörlega gerla-fríu umhverfi. Í ljós kom að mýsnar sem ólust upp í gerlafríu umhverfi voru með óvenjuhátt hlutfall af náttúrulegum T-drápsfrumum (iNKT) í lungum – sem er músaútgáfan af astma og langvarandi bólgusjúkdómum í þörmum. Aftur kom í ljós að tímasetningin skipti öllu máli og mýsnar þurftu að komast í snertingu við gerlana á ákveðnu tímabili í æsku. Ef móðir úr gerla-fríu umhverfi komst í snertingu við gerla á meðan hún var ungafull hafði það góð áhrif á afkvæmin.

Þessi rannsókn staðfesti að of hreint umhverfi í æsku sé beinlínis skaðlegt heilsu barna. Í raun hefur komið í ljós að sú iðja að éta drullu er alls ekkert óalgeng.
Í rannsókn sem birt var í Quarterly Review on Biology voru rannsakaðar 480 skýrslur frá trúboðum, læknum, landkönnuðum og mannfræðingum. Meðal þess sem var skoðað í rannsókninni var drullu-át og í ljós kom að drulluát á sér stað í flestum tilfellum á meðal barna allt fram að kynþroskaskeiði en var einnig algengt á meðal kvenna á fyrsta hluta meðgöngu.
Það er því kannski ekki jafnvitlaust og það kann að hljóma að éta drullu.

Heimildir:
discovermagazine.com
healthy.net
scientificamerican.com

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing