Er helmingur þjóðarinnar með hátt insúlín en hefur ekki hugmynd um það?

Líkaminn er magnað fyrirbæri sem við tökum oft sem sjálfsögðum hlut. 

Hugsaðu þér að hafa þessi eyru sem leyfa þér að nema tónlist og hreyfa við þér þannig að þú finnur tilfinningar og getur jafnvel endurupplifað augnablik sem þú hélst löngu gleymd.

Hugsaðu þér að þegar þú vaknar á morgnana nema augun umhverfið og birta þér mynd af því og þú skynjar þegar þú ert á leiðinni í vinnuna bæði fegurð landslagsins, veðurbrigði og vindátt um leið og þau senda þér skilaboð um hvort þér sé óhætt að fara yfir götuna eða eigir að stöðva á rauðu ljósi.  

Lukka Pálsdóttir, stofnandi Greenfit

Svo kemurðu í vinnuna og teygir þig í kaffibollann og fingur þínir taka akkurat með hárréttum krafti utan um bollann, heilinn búinn að reikna út á augabragði nógu öflugt tak til að lyfta honum að vörum þínum en líka nógu fínstillt til að ekki sullist úr bollanum og þú færð þér fyrsta sopann og finnur kunnuglegt bragðið á tungunni og brosir með sjálfum þér. Hélstu að þetta væri sjálfsagt?  …og við erum ekki einu sinni byrjuð að tala um hjartað sem slær allan sólarhringinn og flytur rauðu blóðkornin um alla vefi líkamans. Þannig fá frumurnar súrefni og næringarefni og blóðkornin flytja úrgangsefni til baka sem lifur og lungu skila aftur yfir landamæri líkamans út til umhverfisins. Allt þetta gerist án þess að við biðjum sérstaklega um það. Magnaði mannslíkami!

Það er okkar hlutverk að hugsa vel um þennan líkama sem við fáum að búa í.
Hann svarar skýrt bæði þegar við dekrum við hann með því sem hann elskar og þarfnast en hann svarar okkur líka þegar við meiðum hann með efnum sem hann þarf að hafa mikið fyrir að vinna úr og losa sig við.  Frumur líkamans þarfnast steinefna, vítamína, fitusýra, amínósýra og snefilefna til að geta framkvæmt öll þessi flóknu störf sem hann vinnur glaður allar stundir. 

Allar frumur líkamans eru í stöðugri endurnýjun og sem dæmi má nefna rauðu blóðkornin. Í líkama þínum ertu með um 5 lítra af blóði sem er samsett úr blóðkornum og blóðvökva. Í 2-3 litlum dropum af blóði eru um 1 milljarður af rauðum blóðkornum. Þau endurnýjast hratt og á næstu 100 dögum verður þú komin með alveg nýtt sett af þessum öflugu blóðkornum. Líkaminn þarf bæði járn og B vítamín til að smíða ný blóðkorn og blóðrauða og því skiptir öllu máli hvað þú borðar. Þetta er einungis lítið dæmi því allar frumur þurfa byggingarefni og eldsneyti og það sem þú velur að setja upp í þig og kyngja er efniviður í hvoru tveggja. 

Ef þú vilt geta treyst á starfsemi líkamans þá þarf líkaminn að geta treyst á þig. 

Orkustjórnun líkamans er ekki síður magnað fyrirbæri. Hvernig getur líkaminn framleitt stöðuga orku svo ég geti setið hér við tölvuna mína, hugsað skýrt og skrifað grein á meðan ég drekk kaffið mitt og borða morgunverð og geri mig klára í átök dagsins á hjólinu mínu þar sem ég mun biðja hjartað mitt og blóðrásina um að fimmfalda flutningsgetuna og afkasta 25 lítrum á mínútu um æðakerfið í stað venjulegu 5 l á mín til að vöðvarnir geti staðið undir kröfum mínum um að hjóla hraðar og halda í við strákinn sem hjólar að jafnaði mun hraðar en ég.

Blóðsykurstjórnun er líkamanum afar mikilvæg. Ef hún fer úr skorðum þá geta afleiðingarnar komið fram í mismunandi kvillum og sjúkdómum eftir því hvaða vef líkamans um ræðir. 

Skýrasta og augljósasta dæmið er sykursýki týpa II. Hana kölluðum við áður öldrunarsykursýki, svo fullorðins sykursýki og loks áunna sykursýki. Nú er okkur sem tölum upphátt um sykursýki af gerð tvö uppálagt að nota ekki orðið áunnin því það þykir of gildishlaðið. Við erum líka beðin um að vanda orðaval þegar kemur að öðrum lífsstíltengdum sjúkdómum og nota frekar orðin ósmitbærir sjúkdómar. Gott og vel. En það að gera sér grein fyrir að langvinnir sjúkdómar – sem eru það fyrirbæri sem skerða lífsgæði og heilsu meðal íslendingsins síðustu 14-15 æviárin – eru tengdir þeim ákvörðunum sem við tökum á degi hverjum og hafa með lífsstíl okkar að gera – það setur ekki einungis ábyrgðina á okkar herðar heldur gefur okkur líka tækifæri til að stýra heilsu okkar í betri farveg. Við vitum þá að við höfum val og getu til að hafa áhrif.

Það að breyta orðanotkun getur gert það að verkum að við fáum síður eftirsjá eftir að hafa borðað sykrað morgunkorn og drukkið sæta gosdrykki alla ævi en það er svolítið eins og að forðast að tala um að eftirlaunin þín fari eftir því sem þú vinnur inn á fyrri tveimur þriðjungum ævinnar. Það sem þú leggur fyrir í dag hefur áhrfi á eftirlaunin þín. Það sem þú borðar hefur áhrif á heilsu efri áranna. Þetta er í rauninni svona einfalt. Rétt eins og að öllum tækifærum er ekki endilega jafnt skipt þá er misjafnt hve mikið við þurfum að hafa fyrir því að halda blóðsykurstjórnun í góðu lagi. Sumir hreinlega fæðast inn í efnaða fjölskyldu og fá þannig forskot á aðra en við getum engu að síður öll haft áhrif á okkar eigin fjárhag með elju, dugnaði og sparsemi.  Sumir erfa tilhneiginguna til að þróa með sér sykursýki en þeir hinir sömu geta vel haft áhrif og forðast sjúkdóminn rétt eins og aðrir sem ekki hafa sömu erfðafræðilegu tilhneigingu. Það að sykursýki, háþrýstingur eða annað slíkt sé genetískt er því einungis einn áhættuþáttur, lífsstíllinn hefur svo oftast úrslitaáhrif.  

Við fáum skýrar vísbendingar um stöðu blóðsykurs í gegnum blóðmælingar. Mælum fastandi glúkósa, fastandi insúlín og langtímasykur. Hægt er að sjá forstig sykursýki koma fram í blóðgildum jafnvel mörgum árum áður en einstaklingurinn verður var við nokkur einkenni. Einkennin geta verið eins mörg og fjölbreytileg og vefirnir eru sem fara að sýna álagseinkenni þegar glúkósamagn í blóði verður langtímum saman of hátt.  Þannig er hár blóðsykur og hátt insúlín undirliggjandi áhættuþáttur fyrir alla stóru sjúkdómsflokkana sem við tengjum við hækkandi aldur og skerta heilsu. Má þar nefna hjarta- og æðasjúkdóma, heilahrörnunar sjúkdóma, krabbamein og auðvitað sykursýkina sjálfa með sínum viðurkenndu fylgikvillum svo sem fitulifur, æðaþrengingum, blindu og aflimun útlilma. 

Starfsmaður Greenfit fer yfir niðurstöður prófana með viðskiptavinum

Þannig er hár blóðsykur og hátt insúlín eins og toppurinn á ísjakanum en undirliggjandi eru stórir flokkar langvinnu lífsstílstengdu sjúkdómanna. 

Í Greenfit höfum við á síðustu rúmum 2 árum fengið að mæla blóðsykur og þar með talið insúlín hjá um 5000 Íslendingum og niðurstöður okkar benda til þess að um og yfir 20% þjóðarinnar hafi forstig sykursýki II á vægu stigi. Nógu vægu til að auðvelt sé að grípa inn í með einföldum lífsstílsbreytingum og snúa þróuninni við. Það sem hefur komið okkur á óvart og er töluvert áhyggjuefni er að prósentuhlutfallið er sínu hærra hjá yngra fólki.  

Við viljum því kalla eftir samstilltu átaki til að sporna við þessari þróun því ef ekkert er að gert stefnir í óefni.  Góðu fréttirnar eru þær að það er vel hægt að snúa þessu við. En til þess að það sé hægt þurfum við að segja sannleikann. Við þurfum að hvetja fólk, fræða og styðja. Hætta að fela okkur á bak við valfrelsishugtakið þegar við stillum fram vörum í verslunum í augnhæð barna þar sem hunangsflugan horfir í augu 5 ára barns og hvetur það til að biðja mömmu og pabba um sykur í morgunverð.  

Allir geta haft áhrif. Tökum höndum saman og snúum við þeirri óheillavænlegu þróun sem hröð aukning á sykursýki II er og uppskerum sem aukaverkanir betri líðan, bættan svefn, grennra mitti, aukna orku og léttari lund.

Skrifað af Lukku Pálsdóttur, sjúkraþjálfara og stofnanda Greenfit

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi