Ekki hvað? – Heldur hversvegna?

Aldraðir héraðslæknar munu þess minnugir, að er þeir komu frá því að vitja sjúkra manna í héraðinu, dundu á þeim spurningarnar. Hvað gengur að manninum? Svo rak hver spurningin aðra, og voru sumar svo nærgöngular, að læknar kærðu sig ekki um að svara þeim. Þeir urðu dauðleiðir á þessum spurningum.

Það var sagt um prófessor Guðmund Magnússon, sem var héraðslæknir fyrstu árin að loknu prófi, að hann væri stuttur í spuna, ef hann mætti óþarfa hnýsni. Svarið var stutt, en það hitti: „Hvað varðar yður um það?“ „Hvað kemur yður það við?“ Hinn sami spurði ekki aftur, og svarið fékk vængi.

Íslenzka þjóðin er forvitin og fróðleiksgjörn. Hitt er þó lakara, að margir eru forvitnir um það, sem þá varðar ekki um, en hirða lítið um þá þekkingu, sem þeim er nauðsynleg. Menn spyrja því miður sjaldan, hversvegna þeir og aðrir verði veikir.

Hið sanna er, að jafnvel læknar eru ekki jafnforvitnir um það, hvað sjúkdómunum veldur, og um hitt að fá nafn á sjúkdóminn og skipa honum í réttan flokk með þessu eða öðru heiti. Spurningin, hversvegna menn verða veikir, er mikilvæg, hver sé orsök sjúkdómanna, en hún er látin óhreyfð.

Í bók eftir rómverskan lækni, sem uppi var rétt eftir daga Krists, stendur þessi setning: „Það er ekki sennilegt, að þeim takist að lækna sjúkdóma, sem ekki veit, af hverju þeir stafa“. Eg hygg, að hvorki læknar né alþýða geri sér fulla grein fyrir þessu.

Ef þetta er rétt, sem eg hygg vera, ættu læknar fyrst og fremst að athuga, er þeir hafa skoðað sjúka menn: Hversvegna veikur?, í stað þess að oftast er aðalspurningin: Hvaða sjúkdómur er hér á ferð?

Glímt við sjúkdómseinkenni

Raunverulega eru læknavísindin ekki lengra á veg komin í hagnýtri læknisfræði en svo, að meginhluti alls starfs hinna mörgu lækna fer til þess að gera við sjúkdómseinkenni, í stað þess að komast fyrir orsakirnar og útrýma þeim, ef þess er kostur. Takist þetta, er björninn unninn. Sjúkdómarnir munu hverfa hver af öðrum eins og dögg fyrir sólu. Er rétt að láta reka á reiðanum, unz menn eru orðnir alvarlega veikir?

Tökum til dæmis nokkra hinna algengustu sjúkdóma og hinar venjulegu aðgerðir við þeim.

Tannveiki

Einhver tíðasti allra kvilla er tannveikin. Hvað veldur henni? — Hversvegna? Eg veit það ekki, segir læknisfræðin. Þetta er eina afsökunin, sem frambærileg er, því að hún er sönn. Þetta er svar vanþekkingarinnar. Eg mundi svara því til, að tannveiki stafi af röngu matarhæfi. Hún stafar af því, að þeim blóðstraumi, sem hver samdráttur hjartans dælir upp í tannrótina henni til næringar, er áfátt um ýms þau efni, sem tönnin þarf sér til næringar. Auk þess er í þessum sama blóðstraumi of mikið af ýmsum óhreinum og skaðlegum efnum, sem valda tjóni, uppleysingu í tönninni í stað uppbyggingar. Tönnin er lifandi líffæri og þarf sem slík rétta og náttúrlega næringu. Næringin þarf að vera hrein og ómenguð og hæfileg að vöxtum. Hún þarf að innihalda öll þau efni, sem líffærið þarfnast. Sé þess ekki kostur, hlýtur líffærið að hrörna. En fullkomin er engin næring, nema hún sé lifandi og náttúrleg.

Það er algengt, að barnshafandi konur verða fyrir skemmdum á tönnum sínum. Hversvegna? Vegna þess, að fóstrið þarf mjög á lífrænum kalkefnum að halda. Forsjón lífsins er annt um hið unga, ósjálfbjarga líf. Hún tekur kalkefnin handa fóstrinu úr beinvef móðurinnar, ef ekki er nóg af þeim í fæðunni. Þetta veldur kalkskorti, sem kemur greinilegast fram á tönnunum. En jafnframt verða sjúklegar breytingar í öllum líffærum móðurinnar. Tannskemmdirnar eru sýnilegur vottur þess, sem sést ekki en á sér stað í öllum öðrum líffærum. Ef lækningunni er ekki að því beint að koma í veg fyrir eða stöðva hinar sjúklegu breytingar, verður sjúkdómurinn alls ekki læknaður, hverra bragða sem leitað er.

Eksemsjúkdómar eru áreiðanlega í hröðum vexti. Menn eru litlu nær, þótt sagt sé, að þeir stafi stundum af ofnæmi. Af hverju stafar ofnæmið?

Hin eiginlega orsök eksems er sú, að þoli líkamans hefir verið misboðið með dauðum og meira eða minna ónáttúrlegum fæðutegundum, sem meltingarfærin geta ekki unnið úr þá næringu, sem líffærin þarfnast. Óhrein efni safnast fyrir í blóði og vefjum líkamans. Sjálfsvarnaröfl hans reyna að koma þessum efnum á brott gegnum hreinsunartæki hans. Eitt þeirra er húðin. Útbrotin eru árangur þessa starfs. Af svipuðum orsökum stafar þroti í slímhúðum öndunar- og meltingarfæra. Það er því hið mesta óráð að hindra útferðina úr þessu vessandi yfirborði. Réttasta og eðlilegasta ráðið er hreinsun blóðsins og líkamsvefjanna með heitum böðum, góðri húðræstingu, náttúrlegri næringu og hófsemi í háttum. Þá er tekið fyrir orsakirnar, og sjúkdómurinn læknast. Annað er tilgangslaust.

Sykursýkin, sem var tæplega til hér á landi fyrir síðustu aldamót, er hraðvaxandi kvilli. Hún stafar af ofneyzlu ónáttúrlegrar fæðu, sérstaklega af sykur- og hveitiáti, sem jafnframt veldur þrota og kyrrstöðu rotnandi matarleifa í þörmum, ekki sízt þegar kjöts og fiskjar er jafnframt neytt. Allar eru þessar fæðutegundir fátækar að steinefnum, fjörefnum og fleiri nauðsynlegum fæðueiginleikum. Þegar þessu fer lengi fram, eyðileggjast þeir frumuhópar í briskirtlinum, sem framleiða insúlín, en þetta efni hefir það hlutverk að tempra sykurmagnið í blóðinu. Afleiðingin verður sú, að blóðsykurinn eykst um of og kemur fram í þvaginu. Þessi sykurefni verka sem eitur og sýkja líkamann. Helzta ráð læknanna við þessu er að einangra safann úr briskirtlum dýra og dæla honum inn í blóð sjúklinganna. Þetta læknar ekki sjúkdóminn, þótt það lengi líf sjúklingsins. Eina leiðin er að grípa í tæka tíð til réttra ráða, en þau eru sparneytni, viðeigandi fæða, náttúrleg og ósoðin, samfara heilnæmum lífsvenjum. Eg hefi sjálfur séð þessum aðferðum beitt með góðum árangri, bæði í heilsuhælum í Þýzkalandi og Sviss og hjá frú Nolfi lækni í Danmörku, og eg veit þess fleiri dæmi. En það tekst því aðeins, að hrörnun af völdum sjúkdómsins sé ekki komin á alltof hátt stig.

Tregar hægðir eða treg og sein tæming þarmanna er einn hinn algengasti kvilli meðal menningarþjóðanna. Hann hefir líka verið kallaður sjúkdómur sjúkdómanna.

Orsakir þessa afleiðingaríka kvilla er ónáttúrleg og dauð fæða, sem svipt hefir verið sínum beztu kostum, svo sem grófefnum, steinefnum, fjörefnum og öðrum lífefnum, samfara ónáttúrlegum lífsvenjum, svo sem miklum kyrrsetum, of lítilli hreyfingu.

Afleiðingin verður sú, að í stað þess að hinar ómeltanlegu fæðuleifar hverfi úr ristlinum innan 24 klukkutíma, eins og vera ber, er það algengt, að þær sitji þar 3-4 og upp í 10 sólarhringa og jafnvel lengur. Í þessum matarleifum verður fljótt mikil rotnun og ýlda, sérstaklega þegar menn borða þau matvæli, sem hættast er við rotnun, en það eru kjöt, fiskur og egg. Vegna líkamshitans eru þarmarnir tilvalin gróðrarstía fyrir rotnunarbakteríurnar. Við rotnunina myndast sterk eiturefni, sem berast inn í blóðið og með blóðinu til allra líffæra líkamans með næringunni, draga úr starfsorku þeirra, valda vanlíðan og öðrum sjúklegum einkennum.

Ef einhversstaðar í líkamanum myndast vilsa eða rotnun, ríður á að tæma hana sem skjótast og öruggast út úr líkamanum. Sama er að segja ef ígerð kemur í kokkirtla eða við rætur skemmdra tanna.

Afleiðingar þessarar inneitrunar eða sjálfseitrunar eru margar og hinar hættulegustu heilbrigði manna. Þær koma fram í ýmsum myndum og sjúklegum breytingum í flestum tilfellum. Þetta getur lýst sér í höfuðverk, vaxandi þreytukennd og vanlíðan, slappleika og taugaóþoli (neurasteni), svefnleysi og jafnvel sálsýki. Þá á þetta sök á mörgum sjúkdómseinkennum, sem kölluð eru sérstökum sjúkdómaheitum, svo sem gigtarsjúkdómum, húðútbrotum (eksem), astma, fituásækni eða ofmegurð, blóðleysi og síðast en ekki sízt krabbameini, þegar hrörnun líkamans er komin á nógu hátt stig.

Tregar hægðir og krabbamein

Sir Arbuthnot Lane, einn hinn nafnkenndasti skurðlæknir, sem nú er nýlega látinn í hárri elli, sagði í samtali við mig, að hann hefði aldrei skorið svo brjóst af konu vegna krabbameins, að sú kona hefði ekki haft tregar hægðir til langframa. Sama mætti eflaust segja um æxli í kynfærum kvenna. Í bók eftir þennan ágætlega glögga mann má lesa: „Í rauninni er aðeins um einn sjúkdóm að ræða: Það er ófullkomin og treg tæming óhreinna efna úr líkamanum. Ef takast mætti að útrýma öllum óhreinindum úr líkamanum, þeim er myndast við meltinguna og efnaskiptin, mundum vér losna við mörg þeirra súru eiturefna, sem valda hinni algengu lífsþreytu, er sviptir svo marga nútíðarmenn starfsorku á miðjum aldri og valda háum blóðþrýstingi, sjúkdómum í æðum og hjarta, heilablóðfalli eða hjartaslagi, jafnvel innan miðs aldurs, og dauða fyrir aldur fram.

Þvínær ætíð má sjá það á útliti fólks, ef það hefir tregar hægðir, ekki síst kvenfólki. Myndast þá móleitir baugar í kringum augun, samfara því að fólk verður torkennilegt, andlitsliturinn grófgerður, gráleitur og ófagur. Þessvegna ófegrar ekkert ungt kvenfólk, og raunar alla, eins og tregar hægðir. Þær eru óvinur heilsu og fegurðar. Fegrunarkúnstir geta aldrei falið þessi miklu lýti á andliti manna, hvorki karla né kvenna.

Vatnið

Tregar hægðir verða oft ævilöng uppspretta vanheilsu og lífsþreytu. Hægðalyf, svo mikið sem þó er til af þeim, hafa aldrei bjargað neinum frá þessum illu afleiðingum tregra hægða. Þessi kvilli verður aldrei læknaður til fullnustu með öðru en náttúrlegum lifnaðarháttum, réttu mataræði og nægri hreyfingu. Oftast verður þó að grípa til þess ráðs að fjarlægja harðar hægðir. Vatnið er hið bezta og öruggasta ráð til þess að fjarlægja öll óhreinindi, hvort heldur er af yfirborði líkamans eða innvortis.

Þá er nauðsynlegt að drekka mikið vatn. Eg hefi oft heyrt gamalt fólk amast við vatnsdrykkju, vegna þess að þá notist fæðan ekki eins vel. Þetta er hættuleg firra, vegna þess að ef of lítið vatn er í blóðinu, verður það þykkra og seigfljótanlegra, svo að hreinsunartæki líkamans, lungu, nýru, húð og þarmar, eiga erfiðara með hreinsun þess.

Í rauninni eigum vér sjálfir sök á öllum þeim óförum, er sjúkdómar valda oss. Vér spyrjum ekki hversvegna? — af hvaða orsök þetta eða hitt er, sem að oss gengur, heldur hvað er það? Svo er fiktað við sjúkdómseinkenni, en ekki hirt um orsakirnar.

Innri hreinleiki

„Vér deyjum ekki, vér drepum oss!“, er haft eftir einum spökum fornaldarmanni, Seneca hinum rómverska. Fullkomin heilbrigði er annað og meira en það að vera aðeins laus við sjúkdóma. Það er að vera fullkomlega vel á sig kominn og ætíð viðbúinn að mæta hverju sem er með fullu þori og sjálfstrausti. Þetta geta aðeins þeir menn, sem hafa hreint og ómengað blóð. Hreinleiki líkamans hið innra er undirstaða heilbrigðinnar. Því er kyrrstaða og rotnun í þörmum hinn hættulegasti óvinur heilbrigði og lífshamingju.

Nú veit ég vel, hvernig lækna má þennan leiða og hættulega en algenga kvilla, sem sennilega er tíðasta orsök og hættulegasta uppspretta allskonar meina, þar á meðal krabbameins. Versti þröskuldurinn á lækningaleið þessa kvilla er hin ónáttúrlega fæða og hægðalyfin. Þau halda honum við.

Það verður aldrei hrakið, að hreinleiki blóðsins er undirstaða allrar heilbrigði manna, andlegrar jafnt sem líkamlegrar. Hann er öruggasta leiðin til þess að varðveita jafnt fegurð sem hreysti, hreinleik og grandvarleik sálarinnar sem líkamlega vellíðan. Haldið þörmum yðar hreinum og lausum við illa lykt innihalds þeirra. Það gerið þér bezt með sem mestri neyzlu hreinnar og lifandi jurtafæðu. Þá skuluð þér sjá, að skapið batnar, líkaminn verður og laus við sjúklegt fitukvap, sem fólk dáist að í vanþekkingu sinni og smekkleysi á sanna fegurð og líkamshreysti.

Haldið umfram allt þörmunum hreinum. Ekkert er hættulegra en að ristillinn sé sorpílát og uppspretta ýldu, sem berst inn í blóðið. Ef þér bjargið yður undan ýlduræktun í þörmum, bjargið þér fegurð yðar, hreysti og vellíðan. Þá ræktið þér sálargöfgi og gáfur sem líkamlega vellíðan og starfshæfni.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing