Deilan um hvítu matvörurnar


Hvíta hveitið og hvíti sykurinn hafa löngum átt sér formælendur hér á landi sem víðar, m.a. manna úr læknastétt. Þannig ritaði Guðmundur Björnsson landlæknir bækling um mjöl og kornvörur skömmu eftir síðustu aldamót, þar sem hann hélt því fram, að hvítt hveiti væri hollara en heilhveiti, af þeirri ástæðu að það væri auðmeltara og meltist alveg upp. Í þann tíð vissu menn ekkert um tilveru vítamínanna, og eins og fleirum sást honum yfir þýðingu klíðsins fyrir hægðirnar.

Á næstu árum og áratugum tóku viðhorf manna stakkaskiptum á þessum sviðum. Svissneski læknirinn Bircher-Benner stofnaði heilsuhæli í Zürich í Sviss, og er það enn starfandi. Hann lagði megináherslu á neyslu lifandi og óspilltrar fæðu í náttúrlegu ástandi. Kellogg í Ameríku stofnaði sitt víðfræga hæli, þar sem eingöngu var neytt jurtafæðu. Vítamínin fundust hvert af öðru. Hér á landi hóf Jónas Kristjánsson brautryðjandastarf sitt á sviði bættra lífshátta upp úr 1920 og beitti sér fyrst og fremst gegn hvítum sykri, hvítu hveiti og kaffi sem hinum skaðsamlegustu neysluvörum.

Eftir stofnun Náttúrulækningafélags Íslands árið 1929 og útgáfu fyrstu bóka þess, en þeirra á meðal var Sannleikurinn um hvíta sykurinn, urðu allmikil blaðaskrif um þessi mál, og ritdeilur, og tóku nokkrir þekktir læknar þátt í þeim. Var því m.a. haldið fram, að hvítur sykur og hvítt hveiti væru “fullkomnar fæðutegundir”.

Á síðustu árum er kominn til landsins stór hópur ungra lækna og sérfræðinga á sviði næringarfræði. Verður ekki annað séð en þeir fylli allir flokk formælenda þeirra sem líta á sykur sem einn helsta meinvætt heilbrigði.

Í raun réttri er það hugsunarvilla að telja sykur til fæðutegunda. Sykur er hreint kemískt efni, líkt og t.d. kalk. En sá er munurinn, að líkaminn þarf á kalki að halda, og getur þurft að gefa það sem lyf. Hinsvegar má það heita hrein undantekning ef sykurefni vantar í daglegt fæði. Og næringarþörf líkamans er auðvitað yfirleitt hægt að fullnægja með heilhveiti í stað hvíta hveitisins.

Að meta gildi fæðunnar eftir því hve “auðmelt” hún er, er byggt á hreinum misskilningi. Meltingarfæri líkama manna og dýra eru til þess gerð að vinna úr þeirri fæðu sem náttúran lætur í té. Og starfshæfni þessara líffæra er því háð, að hún fái réttan efnivið að vinna úr og glíma við. Vöðvar líkamans rýrna og úrkynjast fái þeir ekki daglegt verkefni við sitt hæfi, og nákvæmlega sama gildir um önnur líffæri. Vöðvar og kirtlar meltingarfæranna verða að fá viðfangsefni við sitt hæfi, þau eiga ekki að fá ráðrúm til að leggjast í leti.

Ekki verður þó annað séð, en að hvítur sykur og hvítt hveiti eigi sér enn formælendur hér á landi. Fyrir tæpu ári (21. júlí 1978) birtist grein í Morgunblaðinu eftir dr. Sigurð H. Pétursson gerlafræðing, þar sem hann segir: “Hvítt hveiti og hvítur sykur eru ágæt fæða og auðmelt”. Og hann vill ekki viðurkenna að þetta séu “ónáttúrlegar fæðutegundir”, enda þótt vart sé hægt að finna dæmi um matvæli sem eigi betur heima í þessum flokki matvæla, sérstaklega hvíti sykurinn.

Hófsamleg neysla þessara matvæla getur ekki valdið stórspjöllum á heilsunni fremur en þegar um neyslu annarra óhollra efna eða jafnvel eiturlyfja er að ræða. En eins og margoft hefir verið skýrt frá í fjölmiðlum er neysla sykurs og hveitis orðin svo gífurleg, að hún nemur samtals um 40% af allri fæðutekju landsmanna að meðaltali. Það er fyrir löngu tími til þess kominn að veita hér viðnám, og úrtölur í þeim efnum eru sannarlega ekki viðeigandi. Því miður virðist starfsemi Náttúrulækningafélagsins ekki hafa borið árangur sem skyldi í þessum efnum. En hún hefir þó áreiðanlega undirbúið jarðveginn, og með tilkomu hinna ungu fræðimanna er þess að vænta, að sýnilegs árangurs verði ekki langt að bíða.

BLJ

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 3. tbl. 1979, bls. 61-62

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing