Boðskapur Jónasar læknis um mataræði og heilbrigði

Það er ótrúlegt að lesa það sem stendur í neðangreindri grein sem rituð var fyrir 66 árum. Höfundur þessarar greinar var Jónas Kristjánsson læknir og einn af stofnendum Náttúrulækningafélags Íslands.

Jónas var mikill frumkvöðull er varðaði heilbrigði og forvarnir. Hann var sannfærður um að gott heilsufar væri háð mataræði og lifnaðarháttum.
Þetta þótti mörgum af starfsfélögum hans í læknastétt fráleitt. En Jónas hélt sínu striki predikaði og skrifaði um forvarnir gegn sjúkdómum alla sína tíð. 

Tóbak: Hann barðist á móti því, og í Læknablaðinu voru t.a.m. auglýstar sígarettur, en Jónas stofnaði Tóbaksbindindisfélag Sauðárkróks árið 1929 og var því frumkvöðull í tóbaksvörnum hér á landi.

Hvítt hveiti: Þótti fínt og gott í alls kyns matargerðar. En Jónas varaði við hvíta hveitinu sem hann sagði „ónáttúrlega og skemmda fæðutegundir, eiturblásið og svipt öllum beztu efnum sínum. Það er og verður aldrei annað en óhæf matvara, hversu glæst og ginnandi sem hún er gerð“

Hvítur sykur:  Jónas varaði við tannskemmdum af hans völdum og vildi banna innflutning á sykri. Hann sagð m.a. „Sykur er óheppileg fæða vegna þess, að hann vantar kalk, járn og önnur beinmyndandi efni, hann hefur engin bætiefni í sjer“.

Jónas Kristjánsson læknir skrifaði fyrir 60 árum:

Hvað er manneldi?
Það eru viðskipti hvers manns við allt sitt umhverfi, efnislega, sálarlega og andlega séð. Maðurinn getur ekki lifað á efni eins og það kemur fyrir í hinni dauðu náttúru. Líf verður hvarvetna að nærast á lífi. Án lifandi fæðis tortímir maðurinn sjálfum sér fyr en varir. Hver fruma mannslíkamans getur því aðeins starfað að hún fái til viðhalds lifandi fæði magnað sólargeislum bundnum í efni. Án þess er engin fruma starfhæf.

Hvað eru sjúkdómar?
Þeir eru afleiðingar þess að vér höfum brotið í bága við lögmál lífsins. Ef fruma fær óviðeigandi fæði, verður hún meira og minna óstarfhæf, en neyðist jafnframt til að hefja baráttu fyrir lífi sínu. Sama gildir um manninn allan. Fæðislaus getur hann ekki þrifizt, og neyti hann dauðrar fæðu hefst barátta fyrir lífinu og framhaldi þess. Ef vér neytum til lengdar dauðrar og ónáttúrlegrar fæðu, verðum vér að lokum að taka til láns úr varasjóði líkama vors. Þegar hann er tómur eru öll sund lokuð og lífið slokknar. Sjúkdóma sem stafa af rangri fæðu, er ekki hægt að bæta til fulls með öðru en lifandi, náttúrlegri fæðu. Lyf geta lítið bætt, þegar lífið á í baráttu vegna óhollrar næringar. Vér þurfum að eiga vinsamleg viðskipti við jörðina. Í þeim viðskiptum megum við ekki hafa rangt við. Slík rangindi gætu e.t.v. fært okkur stundargróða, en sá gróði verður aldrei langær. Svikin bitna á oss sjálfum um síðir. Jörðin getur gefið oss allt, sem vér þörfnumst til þess að geta lifað heilbrigðu lífi, ef vér aðeins högum ræktun hennar í samræmi við lögmál lífsins. Sannarlega höfum vér brotið freklega lögmálin, sem allt vort líf er háð. Ekki þarf að undra þótt krankleiki á sál og líkama liggi eins og mara á mannfélagi nútímans.

Er þetta ekki einmitt umræðan sem á við í dag, þó greinin hafi verið skrifuð fyrir 66. árum?

Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1957.

Heimildir:
https://nlfi.is/heilsan/radleggingar-um-minni-sykurneyslu-fyrr-og-nu/
https://nlfi.is/heilsan/fyrirlestur-jonasar-laeknis-kristjanssonar-um-lifnadarhaetti-og-heilsufar-fluttur-10-mars-1923-fyrri-hluti/
https://nlfi.is/heilsan/fyrirlestur-jonasar-laeknis-kristjanssonar-um-lifnadarhaetti-og-heilsufar-fluttur-10-mars-1923-seinni-hluti/
https://nlfi.is/heilsan/hvernig-verda-sjukdomar-umflunir/

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi