Beinþynning – horft til framtíðar


Björn Guðbjörnsson flutti erindi um beinþynningu.

Fundarstjóri, virðulegu pallborðsmeðlimir og ágætu gestir. Ég fagna því að Náttúrulækningafélagið tekur upp þetta umræðuefni, þ.e. mjólkina, hvort hún sé holl eða óholl, og þá sérstaklega sem kalkgjafi.
Ég fékk það verkefni að tala um kalk og bein. Ég ætla hins vegar að fara langt yfir skammt, því ef við ætlum að gefa heilli þjóð tilmæli um neysluvenjur, þá verðum við að vita gegn hverju við erum að “berjast”!
Hvað er beinþynning?
Hvað veldur beinþynningu?
Hvaða fylgikvillar fylgja sjúkdómnum?
Hversu algeng er beinþynning?
Hversu stórt heilbrigðisvandamál er þetta?
Hvað kostar þetta?
Hvernig horfir framtíðin við okkur? Hvað getum við gert?

Ég ætla í pistli mínum að fara yfir þessar spurningar og reyna að svara þeim. Með leyfi fundarstjóra ætla ég því að breyta nafni fyrirlestursins og kalla hann: „Beinþynning: Horft til framtíðar“

Beinþynning
Beinþynning er sjúkdómur í stoðvef beinsins. Þrátt fyrir að beinin séu byggð að mestu úr kalki, eru beinin lifandi vefur (mynd). Það ríkir jafnvægi á milli íbúa beinsins, þ.e. beinbyggja og beinbrjóta, þannig geta beinin stækkað, brot gróið og skekkjur í beinagrindinni leiðréttst.
Segja má að beinþynning sé tvennt, annars vegar rýrnun á beinmagni og hins vegar riðlast uppbygging beinsins. Afleiðingin er að beinstyrkurinn minnkar og hættan á beinbrotum eykst.

Hér sjáum við heilbrigt frauðbein (mynd). Þið sjáið að bjálkarnir eru tiltölulega stórir og breiðir, með reglulegri uppbyggingu, eins og arkitekt hafi teiknað þetta. Hér sjáum við einn beinbrjót vera að eyðileggja beinið, það sem hann eyðileggur á tveimur vikum tekur beinbygginn 4-6 vikur að byggja upp.
Við beinþynningu verður ójafnvægi í virkni þessara fruma, beinbjálkar minnka og verða þunnir. Barksterar hafa fyrst og fremst áhrif á uppbyggingu beinsins, þó að það verði einnig beintap.

Beinþéttnin nær hámarki um 25 ára aldur. Eftir það fer beinmagnið að rýrna. Það gerist hægt og rólega, þar til við tíðahvörf, þá rýrnar beinmagn kvennanna verulega eða um allt að 15% á tíu árum. Eftir það hægir á beintapinu. Því má þó ekki gleyma að beinþynning hrjáir líka karla, en þeirra beinþéttni fellur ekki svona snögglega á miðjum aldri eins og hjá konum og því koma sjúkdómseinkenni karla, þ.e. beinbrotin, fram tíu árum síðar.

Þegar talað er um beinþynningu er beinmagnið þ.e. beinþéttnin, alltaf miðuð við hámarksbeinþéttni.
Þegar beinþéttnin hefur lækkað sem svarar til eins staðalfráviks frá hámarks beinþéttni, hefur brotaáhættan tvöfaldast. Ef beinþéttnin fellur enn meira eins og hér, niður fyrir 21/2 staðalfrávik þá tvöfaldast aftur brotaáhættan (mynd).
Beinþéttnin er mjög góður mælikvarði um brotaáhættuna, samanber að blóðþrýstingur segir fyrir um kransæðastíflu eða heilaáföll. Þessi mynd sýnir að konur eru strax um fimmtugt byrjaðar að tapa beinmagni og sumar þeirra komnar niður fyrir þessi skilgreiningarmörk áður en sextugsaldri er náð, þ.e. þær eru komnar með beingisnun.
Síðan heldur beinið áfram að þynnast og þegar beinþéttnin kemur niður fyrir 21/2 staðalfrávik frá hámarks beinþéttni, er viðkomandi kominn með beinþynningu. Allir þeir sem hafa beinþéttni neðan rauðu línunnar (mynd) eru ekki endilega með beinbrot, en þeir hafa marktækt aukna áhættu á beinbrotum.

Einstaklingar með beingisnun eða beinþynningu eru einkennalausir (mynd), því beinþynning er einnkennalaus sjúkdómur þar til beinbrotin verða!
Þessi staðreynd er mikilvæg fyrir okkur, sem erum að vinna að forvörnum. Til dæmis lítum á hóp kvenna á aldrinum 50-55 ára, sem eru komnar með beingisnun og jafnvel beinþynningu, en þær eru alveg einkennalausar. Þeim er ráðlagt að breyta lífsháttum, jafnvel taka lyf, til að koma í veg fyrir beinbrot 10-20 árum síðar. Þetta er enn flóknara ef reynt er að hafa áhrif á lífsstíl unglinga til að varna brotum þegar þau eru orðin áttræð!

Í þessu ljósi er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þriðja hver kona og áttundi hver karl á eftir að fá beinbrot sem rekja má til beinþynningar. Þessi mynd sýnir hvernig mjaðmarbrotunum fjölgar upp úr 85 ára aldri, samfallsbrot í hrygg koma áratug fyrr og framhandleggsbrot koma áratuginn þar á undan. Þannig að við erum að tala um forvarnaraðgerðir hjá unglingum, sem eiga að skila sér til samfélagsins eftir hálfa öld. Á þessari mynd sjáið þið hver staðan er hér á landi með tilliti til mjaðmabrota. Með hliðsjón af því, sem hér hefur verið sagt má fullyrða að beinþynning sé dulinn sjúkdómur, jafnvel má kveða sterkar að orði og segja: dulinn faraldur.

Lítum á samfallsbrot í hrygg. Þessi röntgenmynd sýnir samfallinn hryggjarliðbol. Þegar liðbolurinn fellur saman fær einstaklingurinn sáran verk. Ef um minniháttar hrun er að ræða, getur sá hin sami oft bjargað sér í heimahúsi með verkjastillingu, eða hann fer á heilsugæslustöð eða bráðavakt til þess að fá hjálp. Hversu samfallsbrot í hrygg eru algeng er óljóst, því erfitt er að ná góðri yfirsýn yfir alla þá sem brotna. Þessi mynd sýnir afleiðingar samfallsbrota.
Einstaklingurinn lækkar í lofti, oft um marga sentímetra, verður hokinn og fær jafnvel kryppu. Það þrengir að öndunarfærum og jafnvel að meltingarfærum, en þegar um er að ræða eldri einstaklinga, eru þeir þegar oft með eitthvern lungna- eða meltingasjúkdóm, þá bætir samfallsbrot ekki úr skák.

Þótt samfallsbrot grói, þá situr sá er verður fyrir brotinu oft uppi með afleiðingar þess til margra ára. Við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) hafa lífsgæði norðlenskra kvenna sem hlotið hafa samfallsbrot í hrygg verið til rannsóknar. Bráðabirgðarniðurstöður sýna að heilsufar þeirra kvenna er fá samfallsbrot í hrygg sé bágara en hinna er ekki hafa fengið samfallsbrot.
Unnið er að frekari gagnavinnslu og munu niðurstöður verða birtar fljótlega. Í samantekt valda samfallsbrot oft á tíðum langvinnum verkjavanda og þau skerða lífsgæði. Þá hafa rannsóknir sýnt að sú kona sem fær samfallsbrot, er í verulegri hættu að fá annað samfallsbrot innan árs –fimmta hver kona brotnar aftur innan árs! Þannig að eitt samfallsbrot leiðir af sér annað samfallsbrot. Þessi mynd er því ekki ýkt. Kona sem hafnar í þessari stöðu, þ.e. styttist og verður hokin (mynd), hún verður að öllum líkindum í þessari stöðu, lækkar enn frekar í lofti og fær herðakistil (mynd). Mikilvægt er að gera sér grein fyrir þessu. Samfallsbrot á að skerpa greiningu og meðferð!

Hvernig er ástandið á Íslandi?
Áætlað hefur verið að það verði 1000-1200 beinbrot árlega hér á landi. Þar eru framhandleggs- og upphandleggsbrot algengust og mjaðmabrot eru um 200.
Þá eru samfallsbrotin ótalin.

Lítum nánar á mjaðmabrotin. Hvað er þau stór heilsufarsvandi? Ef borið er saman við krabbameinsskrána frá sl. ári, þá voru það 186 konur sem greindust með krabbamein í eggjastokkum, legi, leghálsi eða brjóstum. Á sama tíma eru 200 konur að mjaðmabrotna. Jú, víst er þetta óréttlátur samanburður, en lítum á að við erum með stóra leitarstöð í kringum krabbameinin, en með mjög takmarkaða leit hvað varðar beinþynningu.
Þið segið kannski: Þessar konur deyja en ekki þær sem brotna, en það er ekki rétt. Fimmta hver kona sem verður fyrir broti í mjöðm, er dáin innan árs. Ekki nóg með það, helmingur þeirra er útskrifast eru í aukinni þörf fyrir félagsþjónustu eftir brotið. Kona sem býr heima þarf heimilishjálp, sú sem hefur haft heimilishjálp verður innlögð á öldrunardeild og sú sem var á öldrunardeild færist yfir á hjúkrunardeild.
Þannig verður aukin eftirspurn á félagsþjónustinni með fylgjandi viðbótarkostnaði, auk þess sem mjaðmabrot hafa áhrif á lífshorfur fólks. Ég segi því að beinþynning er ekki bara dulinn sjúkdómur heldur líka hættulegur sjúkdómur.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala og FSA þá voru 251 einstaklingur innlagður með beinþynningarbeinbrot á sjúkrahúsin á sl ári. Þetta þýðir að a.m.k. 12 sjúkrarúm eru upptekin fyrir þennan sjúklingahóp dag hvern á stóru sjúkrahúsunum. En ég er fullviss um að þessar tölur eru vanáætlaðar. Einfaldlega, það gleymist að setja sjúkdómsgreininguna beinþynningu samhliða beinbrotinu. Hvað kostar þetta? Ódýrustu deildarnar kosta 32 þúsund og þær dýrustu 65 þúsund krónur á sólarhring. Hér er því um verulega fjármuni að tefla. Enn er þá ótalinn kostnaður vegna aukinnar þarfar á félags- og öldrunarþjónustu. Beinþynning er því ekki bara dulinn og hættulegur faraldur, heldur einnig kostnaðarsamur sjúkdómur fyrir samfélagið. 

Hvernig lítur framtíðin út? Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar þá eru Íslendingar 65 ára og eldri 32.000 og 85 ára og eldri rúmlega 3000. Á næstu 30 árum munu þessar tölur tvöfaldast (mynd). Það er því augljóst að ef ekkert verður að gert verða beinbrot af völdum beinþynningar 2000-2500 árlega, sem kemur til með að hafa mikinn kostnaðarauka í för með sér.

Annað dæmi sem er forvitnilegt að skoða. Hér eru breskar tölur (mynd), er sýna að um miðja öldina voru það sjö af hverjum 1000 áttræðum konum sem mjaðmabrotnuðu, þetta hlutfall hefur farið hækkandi og 1985 voru það 18 af hverjum 1000 áttræðum konum er mjaðmabrotnuðu.
Hvernig framhaldið verður vitum við ekki. Einstaka rannsóknir benda til þess að toppnum sé náð, en aðrar sýna að stígandi er ennþá fyrir hendi í brotatíðninni. Þetta er mikilvægt, því það er ekki eingöngu tvöföldun á höfðatölunni næstu 30 ár, það er etv líka margfeldnisþáttur er spilar þarna inní!

Hvað eigum við þá að gera?
Í ljósi þessa hafa verið stofnuð alheimssamtök gegn beinþynningu og hérlendis hefur Beinvernd starfað frá 1998.
Drottningin af Jórdaníu er verndari alheimssamtakanna (mynd). Hún hefur hvatt ríkisstjórnir að hafa beinþynningu á stefnuskrá sinni. Íslensk stjórnvöld hafa sett markmið hvað þetta varðar í heilbrigðisáætlun (mynd). Þar er kveðið á um að stefna skuli að því að fækka brotum um fjórðung.
Ennfremur eru lagðar línur hvernig ná á þessu markmiði, m.a. þurfa meðferðaleiðbeiningar að vera aðgengilegar fyrir heilbrigðisstarfsmenn og sjúklinga. Þessi vinna er þegar hafin. Heilbrigðisstarfsmönnum er því skylt að sinna þessum málaflokki af kostgæfni. 

Hérlendis eru til tveir fullkomnir beinþéttnimælar, annar á Akureyri og hinn á Landspítala í Fossvogi. Þetta eru einföld tæki, skjótvirk í notkun og gefa litla geislun (mynd). Nákvæmni þeirra er góð, sem gefur möguleika á því að endurtaka mælingarnar, svo unnt sé að fylgjast með hraða beintapsins eða árangri meðferðar. Einnig má nota tölvusneiðmyndatækni, en hún er miklu þyngri í vöfum, kallar á meiri geislun og hún er dýrari í framkvæmd.

Okkar ágæti heilbrigðisráðherra hefur gengið á undan með góðu fordæmi og látið beinþéttnimæla sig í einföldu hælmælitæki (mynd). Ef þið hafið ekki gert það, þá skuluð þið nýta ykkur þetta einfalda tæki til þess að fá góða hugmynd um beinþéttni ykkar – það tekur aðeins örstutta stund.
Samkvæmt íslenskum rannsóknum er vitað að þeir sem koma vel út úr ómskoðun á hæl, eru að öllum líkindum með góða beinþéttni. Hinsvegar, ef menn komi illa út úr beinþéttnimælingu með fyrrgreindu tæki þarf það ekki endilega að sýna að þeir séu með brothætt bak eða mjöðm. Þeir ættu að fara í fullkomnari beinþéttnimælingu í Fossvogi eða á Akureyri.

Hvað getum við þá gert?
Almenn forvarnarráð eru tiltölulega einföld (mynd). Virk forvörn þarf að vera fyrir hendi alveg frá unglingsárum eða jafnvel fyrr, en það er aldrei of seint að hagræða lífsstíl. Hreyfa sig reglulega, a.m.k. þrisvar í viku – fara út að ganga, eða fyrir þá sem yngri eru að gera þungaberandi æfingar. Síðan þegar aldurinn færist yfir, þarf að fyrirbyggja byltur. Líkamsþyngdin er líka mikilvæg.
Varast ber að eltast við tískuhugmyndir og reyna að vera sem grennst, eða æfa um of – því það getur haft neikvæð áhrif á beinin, sérstaklega hjá konum ef þær fá tíðatruflanir eða tíðarstopp samfara miklum líkamsæfingum. Reykingabindandi er æskilegt og áfengisneyslu þarf að takmarka. Síðan er það mataræðið. Með venjulegum neysluvenjum þarf að tryggja bæði kalk- og D-vítamíninntöku. 

Hins vegar eru til mun áhrifaríkari tæki, þ.e.a.s. lyfin. Ef grípa þarf til lyfjameðferðar er unnt að nota östrógen og skild lyf við tíðahvörf. Þá eru komin á markaðinn sérhæfð lyf sem hafa mjög góða verkun á beinhaginn og fækka marktækt beinbrotum. Best er þó að byrja að hreyfa sig á yngri árum og tryggja sér kalk og D-vítamín. Þannig má etv komast hjá lyfjameðferð síðar á lífsleiðinni. 

Í þessu sambandi er ekki hægt að komast hjá því að tala örlítið um erfðir. Á þessarri mynd eru tvær íslenskar fjölskyldur. Þeir sem merktir eru með rauðum díl eru með beinþynningu, þeir sem eru grænir eru komnir með beingisnun. Þessi ættmóðir á mörg börn og hafa þau öll beinþynningu, nema sonurinn. Takið eftir að barnabörn hennar eru líka komin með beinþynningu. Veitið athygli að þessar tölur eru ekki aldurinn, heldur fæðingarár viðkomanda. Þessi ungi maður (fæddur 63) hefur t.d. fengið samfall við lítinn áverka. Þessi ættfræðirannsókn á vegum Hildar Thors, heimilislæknis og prófessors Gunnars Sigursðssonar, í samvinnu við ÍE, sýnir að erfðir ákvarða um 60% af beinmagni okkar.

Svigrúmið til forvarna er því etv ekki mikið – því er nauðsynlegra en ella að minna á forvarnarstarfið– í skólum landsins, í leikfimi, í mæðravernd, við krabbameinsleit hjá konum, í apótekum o.s.frv. Ef forvörnum er beitt snemma á lífsleiðinni, þá verður beinhagur betri er aldurinn færist yfir. Það er þó aldrei of seint að tryggja sér fornvörn.
Í þessu samhengi er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því sem bíður handan við næstu áratugi ef ekkert er að gert. Þessi mynd frá 1890, sýnir liggjandi sjúkling með alla útlimi í strekk eftir beinbrot – sá er stendur hjá er ekki gigt- eða bæklunarlækni, heldur svonefndur beinatæknir, svona má framtíðin ekki verða!

Sagt er að Íslendingar fjárfesti í steypu. Við ættum frekar að fjárfesta í beinum okkar og þannig varðveita líf okkar og lífsgæði, það mun auk þess spara sameiginlega fjármuni.

Takk fyrir.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi