Auglýsingaflóð gosdrykkjaframleiðenda og íþróttir

Nú er mikil íþróttahátíð í gangi því Ísland tekur þátt í HM í fótbolta í fyrsta skipti. Þetta er einstakt íþróttaafrek í íslenskri íþróttasögu. Maður fyllist stolti af því að sjá íslensku strákana spila á stóra fótboltasviðinu. Þessi drengir í landsliðinu eru guðir í huga velflestra Íslendinga.

Því miður fellur smá skuggi á þessa miklu íþróttahátíð í mínum huga. Það er sorglegt að sjá  auglýsingaflóðið frá gosdrykkjaframleiðendum í aðdraganda HM í fótbolta þar sem stærstu íþróttastjörnur heims stíga á svið. Það er staðreynd að tveir stærstu gosdrykkjaframleiðendur heims Coca Cola og Pespi eru gjörsamlega búinn að leggja undir sig auglýsingamarkaðinn fyrir allar helstu íþróttagreinar og íþróttaviðburði heims eins og t.d. Ólympíuleika og Heimsmeistaramót.
Ég starfa sem næringarfræðingur á Heilsustofnun NLFÍ og í Heilsuborg. Vinna mín snýst mikið um að leiðbeina skjólstæðingum mínum í átt að hollari lífsstíl með hollara mataræði m.a. að minnka gosdrykkjaneyslu. Það er margsannað að mikil gosdrykkjaneysla eykur líkur á ýmsum lífsstílssjúkdómum s.s. offitu, sykursýki, hjartasjúkdómum og þvagsýrugigt.
Það að okkar helstu íþróttahetjur í fótboltanum séu orðnar að auglýsingavarningi fyrir eina óhollstu „matvöru“ sem hægt er að innbyrgða er kaldhæðið en þó aðallega sorglegt og sýnir hversu mikið vald peninganna er. Þessar miklu hetjur okkar í fótboltanum náðu ekki þessum árangri með gosdrykkjaþambi.

Auglýsingaflóð gosdrykkjaframleiðanda er ekki bara í kringum alþjóðleg stórmót heldur líka hér á litla Íslandi allan ársins hring, þar sem við erum með „Pepsi deildina í fótbolta“ og „Coca-Cola bikarinn í handbolta“. Það óskandi að við Íslendingar værum svo miklar grænmetisætur og grænmetisbændur væru ríkustu menn þessa lands, því þá væri þetta „Gúrkudeildin í fótbolta“ og „Papriku bikarinn í handbolta“.

Það stendur á heimasíðu Coca Cola á Íslandi ;„COCA COLA FYRIR HVERJA STUND“ og „HVERSDAGSMATURINN VERÐUR BETRI MEÐ COCA COLA“! Almenningur á sem sagt að drekka kók allan daginn og með hverri máltíð samkvæmt þessum ráðlegginum þeirra? Mun það skila manni þessum hasarkroppi sem fyrirsæturnar skarta í auglýsingum þeirra?!
Forstjórar og æðstu stjórnendur þessara fyrirtækja eru á oflaunum, æfa í hádeginu og þjást ekki af ofþyngd eða offitu eins og stór hluti viðskiptavinanna.  Í fyrirækjunum starfar öflugasta markaðsfólk í heimi og valinn maður er í hverju rúmi svona fyrirtækjum til að tryggja söluna og stöðugan vöxt. Formaður stjórnar Coca Cola International, Muhtar Kent var með rúmlega 12 milljónir dollara í árslaun í fyrra.

Hvar er samfélagslega ábyrgð þessara fyrirtækja? Kannski er maður að ætlast til of mikils af milljarða fyrirtækjum þar sem peningar og gróði er það sem helst ræður ríkjum? Stjórnarfundir hjá gosdrykkkjaframleiðendum snúast ekki um það hvernig fyrirtækið geti minnkað offitu eða aðra lífsstílssjúkdóma sinna viðskiptavina. Þessi milljarða fyrirtæki munu halda áfram að auglýsa og selja sínar vörur fram í rauðan dauðan meðan almenningur kaupir svona mikið af þeirra vörum. Saklausu fórnarlömbin í stríði gosdrykkjaframleiðandanna tveggja er almenningur allra landa sem veikjast af lífsstílssjúkdómum vegna gosneyslu.

Það væri bara óskandi að opinberir aðilar eins og Landlæknir (áður Lýðheilsustöð) hefðu úr jafnmiklu fé að ráða til þess að fræða landsmenn um óhollustu gosdrykkja og gosdrykkjaframleiðendur hafa til þess að auglýsa vörur sínar. Með sykurskatti á gosdrykki væri hægt að jafna þennan leik. Það er líka bara sanngjarnt því mikið af sameiginlegu skattfé okkar landsmanna fer í að meðhöndla lífsstílssjúkdóma sem eru m.a. vegna ofneyslu gosdrykkja.

Heimildir:
https://www1.salary.com/COCA-COLA-CO-Executive-Salaries.html
https://www.cocacola.is/is/home/

 

 

 

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi